Útisigur Memphis í framlengingu

Blake Griffin skoraði 35 stig fyrir Clippers í nótt en …
Blake Griffin skoraði 35 stig fyrir Clippers í nótt en hér reynir Draymond Green hjá Golden State að stöðva hann í leik liðanna í nótt. AFP

Memphis Grizzlies og LA Clippers jöfnuðu í nótt metin gegn Oklahoma City Thunder og Golden State Warriors í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik og staðan er nú 1:1 í báðum einvígjum.

Framlengja þurfti viðureign Oklahoma og Memphis en staðan var 99:99 eftir venjulegan leiktíma. Memphis var sterkari aðilinn í framlengingunni og tryggði sér dýrmætan útisigur, 111:105.

Zach Randolph skoraði 25 stig fyrir Memphis en það voru bakverðir liðsins sem voru í aðalhlutverkum. Mike Conley skoraði 19 stig og átti 12 stoðsendingar og Beno Udrih skoraði 14 stig á 14 mínútna kafla. Kevin Durant skoraði 36 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook 29 og Durant jafnaði með glæsilegri 3ja s tiga körfu í lok venjulegs leiktíma.

Í Staples Center í Los Angeles fóru heimamenn í Clippers á kostum, völtuðu yfir Golden State, 138:98, og hefndu fyrir tap á sama stað í fyrsta leiknum. Staðan var orðin 67:41 í hálfleik og Clippers setti tvö félagsmet í úrslitakeppni, í skoruðum stigum og stigamun í lokin.

Blake Griffin var illstöðvandi og skoraði 35 stig fyrir Clippers, persónulegt met í úrslitakeppni. Stephen Curry skoraði 24 stig fyrir Golden State, sem verður á heimavelli í næstu tveimur leikjum liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert