Wizards vann eftir framlengingu

Jimmy Butler hjá Chicago og Bradley Beal hjá Washington Wizards …
Jimmy Butler hjá Chicago og Bradley Beal hjá Washington Wizards berjast um boltann í leik liðanna í nótt þar sem Beal og félagar höfðu betur. AFP

Washington Wizards er komið með tvo vinninga í rimmu sinni við Chicago í úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Bandaríkjunum eftir að hafa unnið, 101:99, eftir framlengingu í öðrum leik liðanna í Chicago í nótt. 

Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma, 91:91, en gestirnir náðu að kreista út sigur á síðustu sekúndunum. Bradley Beal skoraði 26 stig fyrir Wizards og Hene Hilario 17.  DJ Augustin skoraði 25 stig fyrir Chicago og Taj Gibson 22 auk þess að taka 10 fráköst. Joakim Noah skoraði 20 stig og tók 12 fráköst. 

Indiana jafnaði metin í rimmunni við Atlanta með 16 stiga sigri á heimavelli, 101:85 þar sem Paul George skoraði 27 stig fyrir sigurliðið auk þess að taka 10 fráköst. Luis Scola kom næstur með 20 stig. Paul Willsap var með 19 stig fyrir Atlanta og Jefff Teague 14.

Toronto Raptors jafnaði einnig metin í viðureign sinni við Brooklyn Nets með sigri á heimavelli í nótti, 100:95. DeMar Rozan fór á kostum og skoraði 30 stig fyrir Raptors, Amir Johnson var með 16 stig og Jonas Valanciunas 15. Joe Johnson var með 18 stig og Derion Williams 15 hjá Brooklyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert