Dallas valtaði yfir toppliðið á útivelli

Dirk Nowitzki, þýski risinn hjá Dallas, býr sig undir að …
Dirk Nowitzki, þýski risinn hjá Dallas, býr sig undir að stöðva Argentínumanninn Manu Ginobili hjá San Antonio í leiknum í nótt. AFP

Besta lið NBA-deildarinnar í körfuknattleik í vetur, San Antonio Spurs, steinlá í nótt á heimavelli gegn nágrönnum sínum í Texas, Dallas Mavericks, 92:113, í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Dallas jafnaði þar með metin í 1:1 og verður á heimavelli í næstu tveimur viðureignum liðanna.

San Antonio vann Vesturdeildina og náði bestum árangri allra 30 liðanna í NBA, og er því með heimaleikjaréttinn til loka, komist liðið alla leið. En hrun liðsins í seinni hálfleik í nótt hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar, ekki síst vegna þess að San Antonio hafði haft mikið tak á Dallas og unnið síðustu leiki liðanna.

Monta Ellis skoraði 21 stig fyrir Dallas og Shawn Marion 20 en Manu Ginobili skoraði 27 stig fyrir San Antonio og Tony Parker 12. San Antonio tapaði boltanum 24 sinnum sem er versta frammistaða liðsins á því sviði allt tímabilið.

Meistarar Miami Heat unnu aftur nauman heimasigur á Charlotte Bobcats, nú 101:97, og fara með 2:0 forskot í tvo útileiki. Miami hefur ekki tekist að hrista Charlotte af sér í leikjunum tveimur og spurning hvernig næstu leikir liðanna  verða. LeBron James skoraði 32 stig fyrir Miami og Chris Bost 20 en Michael Kidd-Gilchrist skoraði 22 stig fyrir Charlotte og Al Jefferson 18.

Portland Trail Blazers er komið í góða stöðu eftir annan útisigur á Houston Rockets og er 2:0 yfir með tvo heimaleiki framundan. Lokatölur urðu 112:105 og aftur var LaMarcus Aldridge í miklum ham. Nú gerði hann 43 stig eftir að hafa gert 46 í þeim fyrsta og leikmenn Houston réðu ekkert við hann. Dwight Howard skoraði 32 stig fyrir Houston og James Harden 18.

Þetta er í fyrsta sinn í ellefu ár sem leikmaður í NBA skorar 43 stig eða meira í tveimur leikjum í röð í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert