Öruggur sigur á Möltu í fyrsta leik

Helena Sverrisdóttir var stigahæst með sextán stig.
Helena Sverrisdóttir var stigahæst með sextán stig.

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta byrjar vel í Evrópukeppni smáþjóða sem fram fer í St. Pölten í Austurríki. Liðið mætti Möltu í fyrsta leik sínum í dag og fór með öruggan sigur af hólmi, 85.46.

Íslenska liðið var með yfirhöndina allan tímann gegn Möltu í dag og var með örugga forystu í leikhléi, 46:19. Það er ekki síst frábærri spilamennsku í öðrum leikhluta að þakka að svona fór, því hann vann íslenska liðið 27:5.

Malta ógnaði aldrei eftir þetta og að lokum munaði 39 stigum á liðunum, lokatölur 85:46. Ísland mætir Gíbraltar strax á morgun, en fyrirfram var búist við að Malta væri helsti keppinautur Íslands í riðlinum. Tvö efstu liðin fara áfram í undanúrslit.

Stigahæst hjá íslenska liðinu var Helena Sverrisdóttir með 16 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir gerði 10 stig, en allir leikmenn liðsins komust á blað í leiknum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

13:53 Leik lokið. Lokatölur 85:46 fyrir Ísland. Feikilega öruggur sigur hjá íslensku stelpunum en grunninn lögðu þær í öðrum leikhluta. Liðið mætir Gíbraltar strax á morgun í öðrum leik sínum.

13.31 Þriðja leikhluta lokið. Staðan er 63:32 fyrir Ísland. Þetta hefur verið öruggt hjá íslenska liðinu og það þarf eitthvað mikið að gerast svo þær landi ekki öruggum sigri. Helena Sverrisdóttir hefur gert 16 stig og Pálína Gunnlaugsdóttir 10.

12:58 Hálfleikur. Staðan er 46:19 fyrir Ísland. Frábær leikhluti hjá íslenska liðinu. Stelpurnar skoruðu 15 stig gegn einungis tveimur um miðbik leikhlutans og unnu hann samtals 27:5. Með þessu áframhaldi ættu þær að fara að stinga af, þó þær hafi nú eiginlega þegar gert það!
Stigaskorunin dreifist vel hjá íslenska liðinu. Helena Sverrisdóttir hefur skorað 12 stig, Hildur Sigurðardóttir 7 og aðrar minna.

12:34 Fyrsta leikhluta lokið. Staðan er 19:14 fyrir Ísland. Íslenska liðið hefur yfirhöndina og er fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Þrjár þriggja stiga körfur komu liðinu mest níu stigum yfir í leikhlutanum áður en Malta minnkaði muninn.
Hildur Sigurðardóttir er stigahæst með sjö stig en á eftir henni kemur Helena Sverrisdóttir með fimm stig.

12.15 Nú er allt til reiðu og leikurinn er farinn af stað.

12.00 Einhverjar tafir hafa orðið og leikurinn á að hefjast klukkan 12:15

11.40 Tuttugu mínútur þangað til leikurinn hefst. Íslenska liðið kom til Austurríkis seint í gærkvöldi og æfði einu sinni í morgun fyrir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert