Breska liðið kvartar yfir aðbúnaði sínum

Breska landsliðið fyrir leikinn gegn Íslendingum hér heima í síðustu …
Breska landsliðið fyrir leikinn gegn Íslendingum hér heima í síðustu viku. mbl.is/Eva Björk

Breska landsliðið í körfuknattleik er allskostar ekki sátt við þá aðstöðu sem liðinu er boðið upp á í undankeppni Evrópukeppninnar sem nú er í gangi, en í kvöld mætir Bretland okkur Íslendingum í gríðarlega mikilvægum leik.

Kieron Achara, leikmaður liðsins, hefur stigið fram og tjáð sig um aðbúnað breska liðsins við BBC, en breska íþróttahreyfingin skrúfaði fyrir fjárveitingu til körfuboltasambandsins. Bretar hafa leikið tvo leiki til þessa og tapað þeim báðum; gegn Íslendingum og Bosníumönnum.

„Þetta hefur verið gríðarlega erfitt andlega en ekki síður líkamlega. Við vissum ekki hvað við yrðum að færa miklar fórnir. Við fáum 15 pund á dag og sofum á beddum. Sumir okkar hafa vaknað alveg blóðlausir í fótunum því þeir standa fram úr rúminu,“ sagði Achara.

Hann kvartar einnig yfir því að breska liðið ferðist með ódýrum flugfélögum snemma morguns og seint á kvöldin til að spara, auk þess sem undirbúningurinn fyrir undankeppnina var skertur um viku til sparnaðar.

Þess má hins vegar geta að breska liðið er á sama hóteli og það íslenska fyrir leik liðanna í Lundúnum í kvöld, og blaðamaður mbl.is á staðnum hefur á orði að þeir hafi yfir engu að kvarta hér, svo síður sé.

Achara birti svo eftirfarandi tíst nú fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert