Hlynur með flest fráköst allra í undankeppninni

Hlynur Bæringsson hirðir jafnan mörg fráköst þrátt fyrir að eiga …
Hlynur Bæringsson hirðir jafnan mörg fráköst þrátt fyrir að eiga í höggi við sér hærri menn. mbl.is/Eva Björk

Hlynur Bæringsson hefur tekið flest fráköst að meðaltali af öllum leikmönnum í undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik sem stendur yfir. Pavel Ermolinskij hefur átt flestar stoðsendingar að meðaltali.

Þessi staða Hlyns og Pavels á tölfræðilistunum undirstrikar frábæran árangur íslenska liðsins sem hefur svo gott sem tryggt sér sæti í lokakeppninni á næsta ári, í fyrsta sinn, með tveimur sigrum á Bretum. 

Á listunum er tekinn saman árangur leikmanna allra liða í öllum sjö undanriðlunum. Hlynur hefur að meðaltali tekið 11 fráköst í undankeppninni til þessa. Það er hálfu frákasti meira en hjá næsta manni, Venard Hendriks frá Makedóníu.

Pavel hefur að meðaltali gefið 8 stoðsendingar í hverjum leik en hann var ekki með gegn Bosníu ytra vegna meiðsla. Næsti maður á eftir Pavel er Gal Mekel frá Ísrael með 7,3 stoðsendingar í leik.

Andstæðingur Íslands í síðasta leik liðsins, gegn Bosníu í Laugardalshöllinni, er á toppnum yfir þá stigahæstu í keppninni til þessa. NBA-leikmaðurinn Mirza Teletovic hefur skorað 27 stig að meðaltali, langflest allra. Logi Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson hafa skorað flest stig að meðaltali fyrir Ísland eða 12,3 stig. Ekki er tekið inn í reikninginn ef leikmenn hafa aðeins spilað einn leik, og því telja stigin 23 sem Jón Arnór Stefánsson skoraði í gærkvöld ekki strax í þessu samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert