Draumur sem rættist

Íslensku landsliðsmennirnir þakka fyrir stuðninginn í Höllinni í gærkvöld.
Íslensku landsliðsmennirnir þakka fyrir stuðninginn í Höllinni í gærkvöld. mbl.is/Golli

„Þetta er ólýsanlegt. Okkur hefur dreymt um að komast á stórmót í einni stærstu íþrótt í heimi og að upplifa það núna er ótrúleg tilfinning,“ sagði landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson skömmu eftir að ljóst varð að Ísland væri á leið í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta sinn í sögunni.

Logi hafði aldrei búist við að þessi stund yrði að veruleika á sínum ferli. „Nei, ég verð að segja það eins og er. Þetta hefur ekki einu sinni verið í umræðunni, en þessi kjarni hefur verið saman í fjöldamörg ár og unnið gríðarlega vel og þá gerist eitthvað,“ sagði Logi, sem sagði stuðning áhorfenda ómetanlegan. „Það var fullt upp í rjáfur, ég hef aldrei séð svona. Þetta er ótrúlegt og körfuboltinn á þetta sannarlega skilið. Við höfum lengi harkað í þessu og það mun taka næstu daga að átta sig á þessu.“

Eitt 24 liða á EM á næsta ári

Íslenska landsliðið tryggði sér í gærkvöld eitt af níu síðustu sætunum í lokakeppni EM. Georgía, Tékkland, Þýskaland, Holland, Pólland, Makedónía, Ítalía og Rússland voru hin liðin átta sem nældu sér í EM sæti.

Ísland verður ein 24 þjóða sem leika í lokakeppni EM sem fer fram í september á næsta ári. Ekki liggur þó enn fyrir hvar mótið verður haldið. Til stóð að það yrði í Úkraínu en vegna ástandsins þar var hætt við þau áform. Stjórn FIBA-Europe kemur saman í byrjun september og kýs þá milli Króatíu, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ísraels, Lettlands, Póllands og Tyrklands til að halda mótið.

Sjá allt um leik Íslands og Bosníu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert