Bandaríkin auðveldlega í úrslitaleikinn

Litháen reyndist ekki nein fyrirstaða fyrir Bandaríkin í undanúrslitum HM karla í körfuknattleik á Spáni í kvöld en Bandaríkjamenn unnu 28 stiga sigur, 96:68. Þeir mæta Frakklandi eða Serbíu í úrslitaleiknum.

Litháen hélt í við Bandaríkin í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 43:35. Í þriðja leikhluta stungu Bandaríkin hins vegar af, unnu hann 33:14, og eftir það var aldrei spurning hvernig færi.

Kyrie Irving, leikmaður Cleveland Cavaliers, var stigahæstur í jöfnu liði Bandaríkjanna með 18 stig en hann átti auk þess 4 stoðsendingar. Klay Thompson og James Harden skoruðu 16 stig hvor.

Litháen fékk brons á síðasta HM og getur endurtekið leikinn í leiknum um 3. sætið á laugardaginn, gegn tapliðinu í leik Frakklands og Serbíu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert