Haukur fagnaði í Íslendingaslagnum

Hauki Helga Pálssyni og félögum gengur vel í sænsku úrvalsdeildinni.
Hauki Helga Pálssyni og félögum gengur vel í sænsku úrvalsdeildinni. mbl.is/Eva Björk

Haukur Helgi Pálsson skoraði 17 stig fyrir LF Basket þegar liðið vann Sundsvall á útivelli í kvöld, 94:85, í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik.

Sundsvall var tveimur stigum yfir í hálfleik, 50:48, en gestirnir náðu fljótt forystunni í 3. leikhluta og héldu henni til enda. Sundsvall minnkaði muninn í sex stig, 86:80, þegar þrjár mínútur voru eftir en komst ekki nær.

LF Basket leikur undir stjórn Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, sem stýrði Sundsvall þar til í vor en fór þá til LF Basket og tók nokkra lærisveina með sér. Hlynur Bæringsson var þeim erfiður í fyrri hálfleiknum í kvöld og skoraði 16 stig auk þess að taka sex fráköst. Hann skoraði aðeins 2 stig í seinni hálfleik en tók í heildina 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 17 stig fyrir Sundsvall og Ægir Þór Steinarsson níu en Ragnar Nathanaelsson kom lítið við sögu.

Sundsvall hefur unnið tvo af fimm leikjum sínum en LF Basket fjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert