Hrafn: Engar bombur inni í klefa

Hrafn Kristjánsson fagnaði fyrsta deildarsigrinum sem þjálfari Stjörnunnar í kvöld.
Hrafn Kristjánsson fagnaði fyrsta deildarsigrinum sem þjálfari Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Eggert

„Við héldum haus sama hvað gerðist,“ sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn á Grindavík í kvöld, 103:78, í Dominos-deildinni í körfubolta. Á meðan að Grindvíkingar létu skapið hlaupa með sig í gönur í 3. leikhluta spiluðu Stjörnumenn óaðfinnanlega og gerðu út um leikinn eftir jafnan fyrri hálfleik.

Stjarnan skoraði 30 stig gegn 10 gestanna í 3. leikhlutanum og eftir hann voru úrslitin ráðin.

„Við fórum að spila þann varnarleik sem við höfðum lagt upp síðustu daga. Við vorum langt frá því að spila ásættanlegan varnarleik í fyrri hálfleik þannig að það voru svo sem engar bombur inni í klefa í hléi. Við minntum bara hvern annan á það hvað við ætluðum að gera,“ sagði Hrafn, en í síðasta heimaleik, þeim fyrsta á tímabilinu, missti liðið niður mikið forskot og tapaði gegn Tindastóli.

„Það hefur vantað einbeitingu og við höfum átt erfitt með að standa af okkur ákveðin áföll inni á vellinum. Núna komum við út í 3. leikhluta og framkvæmdum það sem við ætluðum að gera,“ sagði Hrafn.

Grindvíkingar létu dómarana fá það óþvegið í leiknum í kvöld og voru afar ósáttir. Hrafn segir það á vissan hátt skiljanlegt.

Fullt af tvísýnum atvikum

„Þetta eru tvö lið sem eiga sér ákveðna sögu og hafa oft tekist hart á. Það kom upp fullt af atvikum sem voru tvísýn. Þetta voru oft þannig dómar að ef þeir hefðu fallið á hinn veginn hefðu mínir menn orðið mjög ósáttir líka. Þess vegna hefur maður ákveðinn skilning á þessu,“ sagði Hrafn.

„Þeir lentu í ákveðnu mótlæti og það gekk mikið á inni á vellinum. Þá reyndum við að tala okkur saman um að vera jafnvel rólegri. Mér fannst við gera það mjög vel. Strákarnir voru rólegir og spiluðu sig saman í gegnum þetta, en voru ekki að fylgjast með neinu öðru,“ bætti Hrafn við, eftir að hafa landað sínum fyrsta sigri sem þjálfari Stjörnunnar.

„Það gefur okkur ákveðið andrými að vera komnir af stað en okkar bíður hörkuleikur í næstu umferð þegar við förum í Hólminn,“ sagði Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert