Stjarnan fór illa með fúla Grindvíkinga

Jarrid Frye skoraði 15 stig fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik.
Jarrid Frye skoraði 15 stig fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik. mbl.is/Eggert

Stjarnan vann í kvöld öruggan sigur á Grindavík, 103:78, í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Þetta var fyrsti sigur Stjörnumanna á leiktíðinni og þeir hafa því tvö stig líkt og Grindavík. Úrslitin réðust í allt að því fáránlegum 3. leikhluta.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og fátt sem benti til þess hruns sem varð í leik Grindvíkinga í 3. leikhluta. Það varð hins vegar algjört. Stjörnumenn gengu á lagið og hittu vel úr sínum skotum gegn hriplekri vörn Grindvíkinga sem virtist sjálfum fyrirmunað að koma boltanum ofan í körfuna.

Grindvíkingar létu mótlætið og dómara leiksins fara mjög í taugarnar á sér, voru í raun hundfúlir, og sér í lagi Ólafur Ólafsson sem gat með engu móti haldið aftur af sér. Fyrst fékk hann tæknivillu fyrir kjaftbrúk við Marvin Valdimarsson og skömmu síðar var hann rekinn úr húsi. Þá hafði hann lent illa á bakinu og taldi brotið á sér en ekkert var dæmt, og í kjölfarið sparkaði Ólafur af krafti í auglýsingaskilti og lét ljót orð falla um dómara leiksins. Þarna voru úrslitin þegar ráðin þar sem Stjarnan hafði náð rúmlega 20 stiga forskoti og staðan fyrir lokafjórðunginn var 83:58. Stjarnan vann þriðja leikhluta sem sagt 30:10.

Í lokafjórðungnum myndaðist engin spenna eins og gefur að skilja og Stjarnan sigldi sínum fyrsta sigri á leiktíðinni af öryggi í höfn, þrátt fyrir að vera án lykilmannsins Justins Shouse vegna meiðsla.

Til að sjá allt sem gerðist í leikjum kvöldsins, smellið á KÖRFUBOLTINN Í BEINNI.

Gangur leiksins:: 6:6, 16:11, 20:17, 31:29, 37:34, 43:40, 51:46, 53:48, 61:50, 69:50, 76:52, 83:58, 87:63, 94:68, 98:73, 103:78.

Stjarnan: Jarrid Frye 21/14 fráköst, Marvin Valdimarsson 20/6 fráköst, Dagur Kár Jónsson 17/6 stoðsendingar, Sæmundur Valdimarsson 12/5 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 11/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 10, Sigurður Dagur Sturluson 5, Tómas Þórður Hilmarsson 4, Brynjar Magnús Friðriksson 3.

Fráköst: 29 í vörn, 10 í sókn.

Grindavík: Oddur Rúnar Kristjánsson 17, Joel Hayden Haywood 13/4 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 13/11 fráköst, Ólafur Ólafsson 13/8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 7/4 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 7, Jens Valgeir Óskarsson 4, Hilmir Kristjánsson 3, Nökkvi Harðarson 1.

Fráköst: 20 í vörn, 13 í sókn.

Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Jón Guðmundsson.

Áhorfendur: 183

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert