Clippers vann borgarslaginn

Blake Griffin hjá Clippers sækir að körfu Lakers þar sem …
Blake Griffin hjá Clippers sækir að körfu Lakers þar sem Carlos Boozer er til varnar. AFP

Los Angeles Clippers vann granna sína í Los Angeles Lakers, 118:111, í fyrstu viðureign liðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik á þessu tímabili sem fram fór í Staples Center í nótt. Þetta er áttundi sigur Clippers í síðustu níu viðureignum liðanna og ljóst hvort þeirra er stóri bróðir í borginni um þessar mundir.

Lakers var yfir lengi vel en réð ekki við Blake Griffin og það gerði útslagið en hann skoraði 39 stig í leiknum. DeAndre Jordan skoraði 11 stig og tók 13 fráköst og Chris Paul var með 12 stig og 10 stoðsendingar. Hjá Lakers gerðu Jordan Hill og Cobe Bryant 21 stig hvor en Bryant hitti illa á lokakafla leiksins. Lakers hefur nú tapað fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu

LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers unnu góðan útisigur á Chicago Bulls, 114:108, í framlengdum leik þar sem James skoraði 36 stig. Derrick Rose skoraði 20 stig en haltraði af velli í fjórða leikhluta eftir að hafa tognað á ökkla. Hann hefur verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin tvö ár en taldi ekki að þessi væru alvarleg.

Phoenix Suns vann meistarana í San Antonio Spurs, 94:89. Isiah Thomas skoraði 23 stig fyrir Phoenix en Tony Parker, franski bakvörðurinn, gerði 19 stig fyrir Spurs.

Rudy Gay skoraði 40 stig fyrir Sacramento Kings sem vann Portland Trail Blazers, 103:94.

Úrslitin í nótt:

Indiana - Memphis 89:97
Chicago - Cleveland 108:114 (framlenging)
Milwaukee - Philadelphia 93:81
Phoenix - San Antonio 94:89
Sacramento - Portland 103:94
LA Lakers - LA Clippers 111:118

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert