Stjarnan hafði seigluna gegn Fjölni

Daron Lee Sims sækir að körfu Stjörnunnar í kvöld.
Daron Lee Sims sækir að körfu Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Þórður

Stjarnan vann nokkuð þægilegan sigur á nýliðum Fjölnis þegar liðin mættust í sjöundu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Garðabæ í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik hafði Stjarnan að lokum betur, 93:76, og uppskar sinn fjórða sigur í vetur.

Stjarnan var með yfirhöndina í fyrsta leikhluta án þess að ná að slíta sig frá gestunum að ráði og munaði sjö stigum á liðunum að honum loknum, 22:15.

Nýliðarnir byrjuðu annan hluta hins vegar af krafti og voru búnir að jafna áður en langt um leið. Allt var í járnum eftir það, Stjarnan með yfirhöndina en ekkert rúmlega það. Athygli vakti að Jarrid Frye, stigahæsti leikmaður Stjörnunnar í vetur, komst ekki á blað í öllum fyrri hálfleiknum en heimamenn voru yfir að honum loknum 49:40.

Það fór hins vegar að skilja á milli liðanna í þriðja hluta og fyrrnefndur Frye vaknaði til lífsins. Heimamenn höfðu mikla yfirburði og bættu í forskot sitt jafnt og þétt með körfum af öllum gerðum með sjálfstraustið í botni, en fyrir síðasta leikhlutann munaði 22 stigum á liðunum, 76:54.

Fjölnismenn gáfust hins vegar ekki upp í fjórða leikhluta, settu niður fjóra þrista í röð á skömmum tíma og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Bilið reyndist hins vegar orðið of breitt til að brúa og Stjarnan vann að lokum sigur, 93:76.

Justin Shouse var stigahæstur hjá Stjörnunni með 25 stig og Dagur Kár Jónsson var næstur með 20 stig. Hjá Fjölni var Daron Lee Sims stigahæstur með 17 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst.

Gangur leiksins: 8:2, 12:6, 19:11, 22:15, 26:24, 28:25, 36:34, 49:40, 56:45, 60:49, 68:51, 76:54, 81:58, 85:69, 90:71, 93:76.

Stjarnan: Justin Shouse 25/7 stoðsendingar, Dagur Kár Jónsson 20/4 fráköst, Marvin Valdimarsson 16/7 fráköst, Jarrid Frye 14/11 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 9/11 fráköst/3 varin skot, Jón Orri Kristjánsson 6/6 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 2/5 fráköst, Magnús Bjarki Guðmundsson 1.

Fráköst: 29 í vörn, 17 í sókn.

Fjölnir: Daron Lee Sims 17/11 fráköst, Róbert Sigurðsson 11/4 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 10/5 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 9, Árni Elmar Hrafnsson 8, Garðar Sveinbjörnsson 8/4 fráköst, Sindri Már Kárason 4/6 fráköst, Alexander Þór Hafþórsson 2, Smári Hrafnsson 2, Valur Sigurðsson 2, Davíð Ingi Bustion 2, Bergþór Ægir Ríkharðsson 1.

Fráköst: 28 í vörn, 17 í sókn.

Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

40. Leik lokið, lokatölur 93:76. Flott barátta hjá Fjölni hér í fjórða hluta en slæmur þriðji hluti varð þeim að falli í þessum leik.

37. 88:71 - Talandi um þrista, þá var Justin að setja niður enn einn slíkan. 3:41 á klukkunni úrslitin hvergi nærri ráðin eftir þennan flotta kafla hjá gestunum. En er það of seint?

36. 85:71 - Það er allt annað að sjá til Fjölnismanna núna, fjórði þristurinn á skömmum tíma var að detta og þeir taka öll sóknarfráköst sem þeir geta. Hvar var þetta í þriðja hluta? 

34. 84:66 - Jæja! Fjölnismenn eru nú ekkert hættir og eru búnir að setja þrjá þrista núna í röð!! Ja hérna, erum við að fá endurkomu?

32. 81:58 - Það fer allt niður hjá Justin Shouse sem setur niður annan þrist og er nú stigahæstur með 22 stig. Það verður meiri spenna um efsta sætið þar á milli hans og Dags heldur en hvernig leikurinn mun fara hugsa ég!

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 76:54. Það lítur út fyrir að þriðji hluti verði vendipunktur leiksins, að minnsta kosti verður róðurinn ansi þungur fyrir gestina það sem eftir lifir leiks nema eitthvað mikið breytist. Dagur Kár og félagar eru búnir að vera gríðarlega öryggir eftir hlé og er upprisa Jarrids Frye þar stór þáttur. Hann skoraði tólf stig í hlutanum, en Dagur er stigahæstur með 16 stig. Hjá Fjölni er Daron Lee Sims sem fyrr í sérflokki með 17 stig.

28. 68:51. Þetta er einstefna hér í þriðja hluta og þristur frá Degi Kár nánast frá miðju undirstrikar það.

26. 63:51 - Nú er aðeins farið að skilja á milli eftir tíu stig í röð frá Stjörnunni...fallegur þristur frá Marvin í þessum skrifuðu orðum. Heimamenn eru að keyra yfir nýliðana hér í þriðja leikhluta og þess má geta að fyrrnefndur Frye er kominn með níu stig.

23. 58:45 - Ég virðist heldur betur hafa kveikt í Frye, því hann er kominn með sjö stig eftir að hafa sett niður þrist.....NAUU. Marvin leggur upp troðslu fyrir Dag Kára, en rétt áðan hafði Tómas Þórður blokkað svakalega. Þriðji hluti er algjört konfekt það sem af er!

21. 49:42 - Gestirnir byrja þetta á SVAKALEGRI troðslu frá Lee Sims. Svona viljum við hafa þetta! - Kaninn hjá heimamönnum, Jarrid Frye, hefur hins vegar ekki fundið sig og er án stiga. Skot hans rétt í þessu útskýrir það vel..

20. Hálfleikur, staðan er 49:40. Justin endar þetta með flautukörfu. Leikurinn er hnífjafn og spennandi. Miðað við fyrstu mínúturnar hélt ég að heimamenn myndu sigla hægt og bítandi fram úr en sú er aldeilis ekki raunin. Hjá Stjörnunni er Justin með 16 stig og Dagur Kár með 15 stig. Hjá Fjölni er Daron Lee Sims í sérflokki með 15 stig og 9 fráköst.

20. 44:39 - Marvin með frábæran þrist, en Stjörnumenn eru sínaggandi í dómurunum sem dæmdi þeim í óhag þegar Jón Orri blokkaði troðslu. Aðvörun á bekkinn ef þeir hætta ekki, segir skólastjórinn Leifur Garðarsson.

18. 36:34 - Ég tek undir með áhorfendum; Nauuuu. Lee Sims með eina fyrir sjónvarpið þegar hann setur niður einhverskonar undirhandarskot yfir öxlina á sér. Ég get ekki lýst því betur, en flott var það!

17. 33:32 - Fallegt þetta, svaka þristur hjá Degi Kára. Ég sem var að kvarta undan skotnýtingu leikmanna. En það má geta þess að Jarrid Feye, sem er búinn að skora að meðaltali 21 stig í leik, er ekki kominn á blað fyrir Stjörnunna. Hann virkar pirraður....og nú svarar Arnþór með þrist! 

15. 28:25 - Þetta er ekkert sérstaklega vel spilaður leikur, menn eru ekki alveg komnir í skotgírinn. Það áhugaverðasta hingað til verður að teljast framganga áhorfenda, sem gera ýmis hljóð til að trufla leikmenn beggja liða á vítalínunni.

12. 24:24 - Gestirnir byrja annan hluta frábærlega og eru strax búnir að jafna. Það gerði Róbert með svakalegum þrist. Allt í járnum.

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 22:15. Heimamenn hafa haft yfirhöndina í þessum fyrsta hluti en FJölnismenn eru ekki langt undan. Þorgeir Freyr fékk galopið þristafæri undir lok leikhlutans en brást bogalistin og gestirnir því sjö stigum undir. Hjá Stjörnunni er Dagur Kár með sex stig og hjá Fjölni er Róbert Sigurðsson með fimm stig.

9. 22:13 - Og Jón Orri treður með tilþrifum! Arnþór svarar hins vegar með þrist hinum megin. Veisla þessa stundina!

7. 19:8 - Skondið, Lee Sims fór á vítalínuna fyrir Fjölni og stuðningsmenn Stjörnunnar bæði mjálmuðu og geltu á hann. Það kom hins vegar ekki að sök og bæði skotin fóru örugglega niður....og Dagur Kár svo með fyrsta þrist kvöldsins!

5. 12:6 - Stjarnan var í bónus en Jarrid Frye klúðraði báðum vítaskotum sínum. Í kjölfarið komst Daron Lee Sims á blað fyrir Fjölni.

3. 8:2 - Fyrstu stigin voru Fjölnis en síðan hafa komið átta í röð frá Stjörnunni. Gestirnir eru strax komnir með fjórar villur.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Þá eru liðin kynnt fyrir þessum tuttugu áhorfendum eða svo sem sitja í stúkunni hér á móti mér. Rétt í þann mund kemur svo þetta ilmandi kaffi upp í rjáfur, svo ég kvarta ekki. Ballið fer að byrja.

0. Nú þegar stundarfjórðungur er til leiks eru leikmenn að leggja lokahönd á upphitun. Þeir eru að hitta vel úr skotum sínum í upphitun og við vonumst að sjálfsögðu til að það skili sér út í leikinn.

0. Fjölnismenn eru án Ólafs Torfasonar í kvöld, en hann glímir við meiðsli. Hann hefur verið öflugur í stigaskorun fyrir nýliðana það sem af er vetri og því munar um minna.

0. Góða kvöldið! Andri Yrkill Valsson heilsar úr Garðabænum þar sem framundan er leikur Stjörnunnar og Fjölnis. Liðin mæta bæði særð til leiks eftir tap í síðustu umferð, Fjölnir fyrir Tindastóli en Stjarnan nokkuð óvænt fyrir botnliði Skallagríms.

Stjörnumaðurinn Justin Shose með boltann í leiknum í kvöld.
Stjörnumaðurinn Justin Shose með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert