„Við verðum bara að græja þetta“

Gunnhildur Gunnarsdóttir, leikmaður Snæfells, var valin í úrvalslið fyrri umferðar Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik en úrvalsliðið var tilkynnt í dag. 

Gunnhildur hefur ekki verið valin áður í úrvalslið deildarinnar en hún hefur spilað vel í vetur eftir að hún gekk aftur í raðir uppeldisfélagsins í Hólminum síðasta sumar eftir dvöl hjá Haukum. Hefur hún skorað tæplega 11 stig að meðaltali í deildinni og tekið um 6 fráköst að jafnaði. 

Íslandsmeistarar Snæfells eru í toppsæti deildarinnar en Gunnhildur segir það ekki sjálfgefið að verja titilinn, sérstaklega þegar horft sé til þess að liðið missti sterka leikmenn á milli tímabila. Möguleikar liðsins séu þó góðir og hún og þær sem eru til staðar í liðinu „verði bara að græja þetta,“ og átti þar við Íslandsmeistaratitilinn en viðtalið í heild sinni má sjá á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert