Jakob mun spila á EM í Berlín

Jakob Örn Sigurðarson kemur aftur inn í landsliðið næsta sumar.
Jakob Örn Sigurðarson kemur aftur inn í landsliðið næsta sumar. mbl.is/Ómar

Craig Pedersen, þjálfari A-landsliðs karla í körfuknattleik, staðfesti það við mbl.is í dag að Jakob Örn Sigurðarson myndi snúa aftur í liðið næsta sumar eftir að hafa ekki gefið kost á sér í undankeppni EM í ágúst í fyrra, þegar liðið vann sér sæti í lokakeppninni í fyrsta sinn.

„Það er erfitt að segja til um hvaða breytingar verða á hópnum frá því í undankeppninni en einn leikmaður mun þó koma inn í hópinn sem var ekki með síðasta sumar. Það er Jakob Örn Sigurðarson. Hann var mjög mikilvægur leikmaður í liðinu í mörg ár og var lykilmaður sumarið 2013 þegar Ísland vann Rúmeníu í tveimur leikjum og kom sér þannig upp um styrkleikaflokk,“ sagði Pedersen við mbl.is.

Jakob hefur leikið með Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni frá árinu 2009 eftir eitt tímabil með KR hér heima, en hann var áður leikmaður Bayer Leverkusen í Þýskalandi, Vigo á Spáni og Kecskemeti Univer í Ungverjalandi. Hann á að baki 67 A-landsleiki en baðst undan því að taka þátt í verkefnum síðasta sumars.

„Jakob taldi nauðsynlegt að taka sér frí síðasta sumar en hann hefur verið hluti af landsliðinu í einhver 12-13 ár ef mér skjátlast ekki, og á stóran þátt í grunnvinnunni að því að koma liðinu á EM. Hann er í mjög háum gæðaflokki og þess vegna verður hann í hópnum,“ sagði Pedersen.

„Ég ræddi við hann í september þegar liðið mitt í Danmörku mætti hans liði í æfingaleik. Hann vill spila á EM og á meðan svo er, og hann er heill heilsu, þá verður hann í liðinu,“ bætti Pedersen við, en hann þjálfar Svendborg í Danmörku samhliða landsliðsþjálfarastarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert