Kobe Bryant undir hnífinn á morgun

Ekki er vitað hvaða stefnu ferill Kobe Bryant mun taka …
Ekki er vitað hvaða stefnu ferill Kobe Bryant mun taka að aðgerð lokinni. AFP

Kobe Bryant, einn stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar, mun gangast undir aðgerð á morgun vegna meiðsla á öxl. Óljóst er hvenær hann á afturkvæmt á körfuboltavöllinn enda veltur það meðal annars á því hvernig til tekst.

Bryant varð fyrir meiðslum þegar hann tróð knettinum í körfuna þegar LA Lakers lék gegn New Orleans í síðustu viku. Yfirleitt tekur körfuboltamenn marga mánuði að jafna sig á sambærilegum axlarmeiðslum og Byron Scott, þjálfari Lakers, tjáði blaðamönnum að Bryant yrði tæplega meira með á tímabilinu.

Nokkrar vangaveltur hafa verið um það í bandarískum fjölmiðlum hvort Bryant muni jafnvel láta staðar numið en hann er 36 ára gamall og er á sínu 19. keppnistímabili í NBA en hann fór til Lakers strax að loknu menntaskólanámi. Bryant lék einungis sex leiki á síðasta tímabili eftir að hafa slitið hásin og síðustu ár hafa því verið erfið fyrir kappann.

Scott segist þó ekki telja að Bryant vilji ljúka ferli sínum á þessum nótum og reiknar frekar með því að Bryant muni takast á við endurhæfinguna að sama krafti og venjulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert