KR-ingar burstuðu Keflvíkinga

Davon Usher reynir skot gegn KR í kvöld en Pavel …
Davon Usher reynir skot gegn KR í kvöld en Pavel Ermolinski er til varnar. mbl.is/Kristinn

Leik KR og Keflavíkur í Dominos-deild karla í körfuknattleik lauk rétt í þessu og þrátt fyrir vonir sumra um að leikurinn yrði spennandi, í ljósi þess að liðin spiluðu fyrir stuttu í Bikarkeppninni þar sem KR sigraði, þá urðu þær vonir að engu nánast um leið og leikur hófst. KR-ingar gjörsigruðu illa skipulagða Keflvíkinga  109:73 og tryggðu sér traustatak á efsta sæti deildarinnar.

Eftir jafnar fyrstu mínútur í leiknum var ekki lengi að bíða eftir að KR tæku völdin á vellinum. KR-ingar flýttu sér ekkert í gang heldur lulluðu lengi vel framan af en svo náðu þeir nokkrum köflum sem fleyttu þeim fyrir 10 stiga múrinn og áður en hálfleiksflautið kom hafði liðið kafsiglt grunlausa gestina og í raun klárað leikinn áður en seinni hálfleikur var spilaður.

Í seinni hálfleik var það sama uppá tengingnum; Keflvíkingar náðu hinsvegar að bíta ögn frá sér við upphaf þriðja en áður en honum lauk hafði KR-vélin hinsvegar gert úti um leikinn, 86:59. Fyrsta karfa gestanna kom síðan ekki fyrr en fjórar mínútur inní fjórða hlutann þegar Davíð Hermannson skoraði. Á þessum tímapunktu var leiknum óformlega lokið og auðveldur sigur KR staðreynd.

Hjá KR steig enginn leikmaður feilspor; liðsheildin lagði grunninn að sigrinum og liðsandinn kláraði verkið með stakri prýði. Brynjar Björnsson, Michael Craion, Darri Hilmarsson og Finnur Magnússon voru bestir í mjög jöfnu og vel skipulögðu liði heimamanna.

Hjá Keflavík var enginn að spila að eðlilegri getu – eitthvað sem er afsakanlegt í þeim tilfellum þegar liðsheild og liðsandi eru til staðar. Í kvöld var þetta hinsvegar ekki til staðar til að vega á móti getuleysi einstakra leikmanna og því varð munurinn svo mikill á liðinum. Davon Usher þarf að girða sig í brók og fara að spila eins og hann sé erlendur leikmaður liðsins. Valur Valsson og Arnar Freyr Jónsson áttu ágæta spretti í leiknum en verða að líma liðið betur saman. Sigurð Ingimundarsyni þjálfara liðsins bíður svakalegt verkefni enn... að búa til lið úr þessum mannskap, sem virðist ekki geta fundið neitt sameiginlegt inná vellinum að gera.

KR - Keflavík 109:73

DHL-höllin, Úrvalsdeild karla, 29. janúar 2015.

Gangur leiksins:: 5:0, 13:7, 20:13, 30:18, 40:25, 46:32, 51:36, 61:40, 66:42, 68:47, 79:53, 86:59, 91:59, 96:63, 103:69, 109:73, 109:73, 109:73.

KR: Brynjar Þór Björnsson 21/6 fráköst, Michael Craion 15/8 fráköst/5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 14/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 14, Björn Kristjánsson 13/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 10, Helgi Már Magnússon 10/5 fráköst, Illugi Steingrímsson 6, Pavel Ermolinskij 4/10 fráköst/12 stoðsendingar, Vilhjálmur Kári Jensson 2.

Fráköst: 33 í vörn, 15 í sókn.

Keflavík: Davon Usher 19/9 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 13, Valur Orri Valsson 10, Guðmundur Jónsson 9/7 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 6/4 fráköst, Damon Johnson 5/8 fráköst, Reggie Dupree 5, Knútur Eyfjörð Ingvarsson 4, Andrés Kristleifsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen.

Leik lokið! Lokatölur 109:73

Keflvíkingar áttu einfaldleg aldrei möguleika hérna í kvöld og þurfa virkilega að fara að líta í eigin barm því þessi spilamennska er liðinu ekki boðleg! Frábær liðssigur KR í kvöld og ljóst að þrátt fyrir tapleik þá kann þessi mannskapur að skoppa upp aftur.

5:00 - Leikurinn rúllar en ekkert breytist í honum. KR-ingar stjórna öllu sem gerist og þurfa ekki að kvíða neinu á meðan lánleysi, andleysi og veruleysi hrjáir gestina við hvert fótmál. Staðan 98:63

8:01 - Keflvíkingar eru líklega að upplifa andlegt hrun í þessum skrifuðu orðum; að þurfa að spila þessar mínútur hlýtur að vera lýjandi, vitandi að möguleikar á endurkomu eru hverfandi, eða þvínæst engir.

8:50 - Craion skorar þrist! Held að flestir leikmenn KR hafi nú skorað einn slíkan! Staðan 91:59

Þriðji hluti allur! 86:59

Þessum leik er lokið þó það séu 10mín. eftir af honum! Það sést langar leiðir að Keflvíkingar hafa gefist upp hérna og aðeins spurning hvernig lokatölur líta út að leik loknum.

0:34 - Illugi Steingrímsson kemst á blaði fyrir KR eftir góða körfu og víti að auki. Það eru núna varamenn aðallega sem hlaupa upp og niður völlinn og ljóst að Siggi hefur næstum kastað handklæðinu inn fyrir hönd sinna manna. Skal engan furða því það virðist gestunum nánast ógjörningur að spila sama sem lið! Svo einfalt er það nú! Staðan 86:59

2:29 - Aftur skora KR þrist! Þessi opnu skot detta ágætlega fyrir heimamenn en "nota bene" þau eru ÖLL alveg galopin og líkt og Keflvíkingar séu að ögra þeim að skjóta fyrir utan. Undarleg vörn gestanna... Staðan 79:53

4:20 - Keflavík hafa farið illa með færin sín og á meðan það er að gerast skora bæði Helgi og Darri sinn þristinn hvor! Staðan 74:51

5:30 - Leikhlé! Afar slakur hluti hjá báðum liðum; má segja að Keflavíkingar hafi dregið KR niður á sama plan hérna. En á meðan munurinn er svipaður þá skiptir þetta KR engu máli. Keflvíkingar þurfa hinsvegar að nýta sér þetta andrúmsloft til að læðast aftan að KR og klóra þennan mun töluvert niður. Spurningin er hvort þeir hafi skipulagið til þess að áorka þessu... Gummi og Valur skora báðir og svo vinna þeir boltann aftur... nú er lag... Staðan 68:49

6:30 - Usher setur þrist og lagar þetta aðeins. KR-ingar virðast hafa slakað aðeins á hérna og eru kærulausir. Staðan 68:45

7:30 - Sóknarboltinn hjá Keflavík eru skelfilegur þessar fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Algjörlega tilviljunarkennd og skipulagslaus. 66:42 -
Ef gestunum tekst ekki að koma þessum mun hratt niður í þessum hluta endar þetta í vitleysu hjá þeim og stórsigur KR óhjákvæmilegur. 

8:00 - Keflavík er komið í svæðisvörnina sem ég spáði fyrir leik. Fróðlegt að sjá hvernig fer um hana. Staðan 66:42

8:40 - Valur klikkar einn undir körfunni og alveg lýsandi fyrir leik gestanna hérna í kvöld; það hvorki gengur né rekur hjá þeim og vandamál liðsins kristallast í þessum leik. 20 stiga munur verður að teljast fullmikill og verk gestanna ærið...

9:30 - Brynjar opnar seinni hálfleik með þrist og Darri ver skot frá Gunna Einars. Damon skorar hinsvegar og staðan 64:42

Hálfleikur! 61:40 - Þetta er einfaldlega ekki boðlegur munur á liðunum! Keflvíkingar eru skelfilegir í varnarleiknum og þó þeir hafi haldið ágætlega í við KR á köflum þá eru lélegu kaflarnir of margir og alltof slæmir til þess að geta keppt við spræka heimamenn. Líkt og síðast þegar ég sá Keflavík spila þá vantar alveg samspil inní þetta lið. Menn virðast ekki hafa fundið neinn liðsdamp til að geta hallað sér að þegar illa gengur og þetta gæti verið þeirra mesti höfuðverkur þessa dagana. Svo virðist sem leikmenn séu enn langt frá því að gera þetta að liði og ljóst að Sigga bíður enn þetta verkefni, óhreyft að því er virðist frá mínum bæjardyrum séð.

KR-ingar eru að spila eins og sem valdið hafa; þeirra leikur tikkar áfram eins og smurð vél og alltaf gott að fá andstæðing sem veitir nánast enga mótspyrnu þegar á reynir til að skoppa aftur í gír eftir tapleik. Allir sem komu inní hálfleiknum hafa sett mark sitt á leikinn og alltaf til góðverka. Brynjar hefur refsað mikið fyrir slælegan varnarleik gestanna og hafa Craion, Finnur, Björn og Darri allir skorað nálægt 10 stigunum og ljóst að við svona sóknarbreidd ráða Keflvíkingar ekkert við.

0:40 - Darri með annan þrist! staða 59:38

2:01 - Darri setur þrist! Tekur svo frákastið í næstu sókn og skorar! Þetta veit ekki á gott fyrir gestina... Staðan 56:38

3:00 - Usher hefur ekki vakið athygli mína hérna í kvöld og alveg klárt að þessi leikmaður þarf að fara að sýna hvað í honum býr. Hann er kominn með 8 stig og hefur verið sérlega slakur að slútta og átt vafasamar ákvarðanatökur það sem af er. Staðan 51:36 - Eftir mikinn darraðadans tókst gestunum að klóra ögn í bakka. Ég á hinsvegar eftir að sjá hvernig það klór á eftir að hjálpa þeim því þetta virtist frekar tilviljunarkennt allt saman... Staðan 47:36

4:55 - Það er hinsvegar ennþá sýnilegur kraftur og áhugi hjá Keflvíkingum til að einmitt bæta leik sinn; þeir hafa ekki enn sýnt nein merki um að gefast upp. Þetta er mjög mikilvægt en það breytist ekkert fyrr en varnarleikurinn nær að smella, hingað til hefur það ekki gerst. Staðan 47:32

5:20 - Munurinn er að verða of mikill biti gestina. 46:32 Keflavík verður að herða vörnina og finna leiðir til að stoppa, ekki bara einn KR-ing, heldur þá alla.

5:59 - Brynjar setur þrist og kominn með 15. Staða 45:32

Leikhlé! Villudreifing í leiknum er undarleg; Björn Kristjáns og Craion eru þeir einu með villur, eða 5 talsins saman. 8 villur hafa verið dæmdar á gestina en þar dreifast þær líka betur.

6:50 - Craion skorar inní teig! Arnar Freyr hefur komið sterkur af bekk gestanna og skorað 8 stig! Staðan 42:30

7:35 - Usher er núna að gæta Craion sem fer á hann á blokkinn og fær dæmda villu. Ég sé þetta vandamál gestanna ekki leysast svo auðveldlega. Staða 40:25

8:53 - Keflvíkingar eru með afar smávaxið lið inná núna. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson keyrir inn, skorar og fær víti. Staðan 36:23

Fyrsti hluti allur - Staðan 30:18 Það er ljóst að ef varnarleikur gestanna batnar ekki mun þessi munur aðeins aukast. Langflest stig heimamanna hafa verið álíka auðveld og að stela sleikibrjóstsykri af krakka sem stendur á horni Laugarvegar og Ingólfsstræti að gefa sleikjóa! Brynjar hefur spilað mjög vel og með 12 stig en vandamálið fyrir gestina er að allir leikmenn KR taka virkan þátt i skorun, vörn og hraðaupphlaupum. Varnarleikur gestanna hefur verið virkur áhorfandi við einmitt þessi hraðaupphlaup og verða Keflvíkingar í það minnsta að hlaupa aftur.

2:30 - Pavel skorar auðvelda körfu og Helgi samherji hans gerir slíkt hið sama í næstu sókn. Keflavík eru í vandræðum með varnarleikinn sinn.  staða 22:13

4:09 - Brynjar skorar aftur, kominn með 10 stig. Aðeins þrir leikmenn gestanna hafa skorað það sem af er og klárlega áhyggjuefni. Staðan 19:11 eftir gott gegnumbrot frá Gumma Jóns.

5:03 - Pavel skorar eftir gegnumbrot. Valur Vals gerir slíkt hið sama... Staðan 15:7

6:02 - Usher skorar inní teig en Brynjar svarar með þrist. KR að ná yfirhöndinni hérna á meðan lítið gengur í sókn gestanna. Staða 11:5

6:30 - Brynjar skorar úr hraðaupphlaupi. Craion setur tvö stig undir körfunni en Gummi Jóns svarar með þrist. Helgi setur svo strax þrist fyrir KR og nú virðast leikmenn vera komnir af stað eftir vægast sagt rólega byrjun.

Leikur hafinn! Leikur fer rólega af stað. Keflvíkingar eru í maður-á-mann vörn og Damon Johnson að dekka Craion! Þetta gæti orðið áhugavert. Staðan 1:0

19:11 - Það verður sérlega áhugavert hvernig gestirnir munu tækla besta erlenda leikmann deildarinnar, Michael Craion. Ég geri ráð fyrir að leikmenn eins og Davíð Hermannson og Damon Johnson verði ansi hreint pungsveittir við að passa hann. Hinsvegar, þá er Siggi Ingimundar vel þekktur fyrir dálæti sitt á svæðisvörn og það kæmi mér akkúrat ekkert á óvart þó svæðisvörnin yrði á lunga leiks í þetta skiptið. Þetta breytir hinsvegar engu um hvernig þeir ætla sér að ráða við Craion, svæðisvörn eður ei. Hann tekur mikið pláss í teignum og fljótt á litið er fátt um fína drætti hjá Keflavík þegar þarf að stoppa þennan leikmann.

19:06 - Leikurinn fer að hefjast. KR-ingar koma nú í fyrsta skipti með tap á bakinu í deildarkeppninni. Keflvíkingar eru klárlega í hefndarhug eftir Bikarleikinn síðasta gegn KR og þurfa virklega að eiga frábæran leik hérna í kvöld til þess að verma heimamönnum undir uggum. Þrátt fyrir að KR hafi tapað síðasta leik væri verulegt glapaskot ef önnur lið halda að nú hafi einhver stífla brostið; KR eru enn með besta liðið en til þess að vinna það verður hitt liðið að spila gallalausan leik, eða því næst sem.

KR-ingar eru efstir í deildinni með 26 stig eftir fjórtán umferðir en þeir voru stöðvaðir af Tindastóli í síðustu umferð eftir þrettán sigra í röð. Keflavík er í fjórða sæti með 16 stig, jafnmörg og Stjarnan, Njarðvík og Snæfell sem eru í 3.-6. sæti deildarinnar.

KR vann Keflavík örugglega, 111:90, þegar liðin mættust í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á sama stað fyrir ellefu dögum.

Brynjar Þór Björnsson var einn þeirra sem lék vel fyrir …
Brynjar Þór Björnsson var einn þeirra sem lék vel fyrir KR í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Valur Orri Valsson átti ágæta spretti fyrir Keflavík.
Valur Orri Valsson átti ágæta spretti fyrir Keflavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert