Stjarnan í bikarúrslit eftir baráttu í Borgarnesi

Marvin Valdimarsson og félagar í Stjörnunni eru í heimsókn í …
Marvin Valdimarsson og félagar í Stjörnunni eru í heimsókn í Borgarnesi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjörnumenn eru komnir í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir sigur á Skallagrími þegar liðin mættust í undanúrslitaleik í Borgarnesi í kvöld, 102:97.

Leikurinn byrjaði sannarlega af krafti og sú orka sem var í húsinu smitaðist vel niður á völl enda mikið í húfi. Bæði lið byrjuðu af krafti en snemma í fyrsta leikhluta náði Stjarnan 11:0 kafla sem gaf þeim forskot sem þeir héldu. Heimamenn voru hins vegar aldrei langt undan og ljóst að menn ætluðu að sýna sig og sanna enda skiptir staðan í deildinni engu máli. Staðan 25:20 fyrir Stjörnuna eftir fyrsta hluta.

Annar hluti var galopinn og nánast má segja að liðin hafi skipst á að skora. Stjarnan var alltaf þessum fimm stigum á undan með Justin Shouse í broddi fylkingar, en munurinn var einmitt fimm stig í hálfleik, 49:44, og von á ekki síðri skemmtun eftir hlé.

Stjörnumenn byrjuðu mun betur í þriðja hluta og skoruðu níu fyrstu stigin áður en Páll Axel Vilbergsson vakti heimamenn með þristi. Eftir það hélt sama jafnræðið áfram og áður, Stjörnumenn voru með yfirhöndina en Skallagrímur aldrei langt undan og beið þess að grípa gæsina mundi hún láta sjá sig. Leikar fóru sömuleiðis að æsast og villunum rigndi inn þar sem Sigtryggur Arnar Björnsson, besti maður heimamanna, lenti í vandræðum og þurfti að slaka á klónni. Fyrir fjórða og síðasta leikhluta var staðan 76:71 fyrir Stjörnuna.

Gestirnir úr Garðabænum bættu við forskot sitt í upphafi fjórða hluta en náðu þó ekki að hrista af sér Borgnesinga sem ætluðu ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Þegar tvær mínútur voru eftir munaði átta stigum á liðunum og leikurinn enn galopinn.

Þegar rúm mínúta var eftir lenti þeim Magnúsi Þór Gunnarssyni og Degi Kár Jónssyni saman og munaði minnstu að allt syði upp úr, en halda þurfti mönnum í sundur. Hitinn hélst í mönnum út leiktímann en það var Stjarnan sem fagnaði sigri, 102:97, og farseðlinum í úrslitaleikinn.

Stjarnan mætir annaðhvort KR eða Tindastóli í úrslitaleiknum í Laugardalshöll hinn 21. febrúar. Fylgst var með gangi mála í leiknum í Borgarnesi í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um hann í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

40. Leik lokið, lokatölur 97:102. Stjarnan fer í úrslitaleikinn!

40. 97:102 - Þetta er magnað!! Páll Axel setur niður þrist eins og EKKERT sé og munurinn þrjú stig! 3 sekúndur eftir, Justin á vítalínuna hinum megin og setur niður bæði. Slekkur í vonum Borgnesinga.

40. 94:100. Justin setti niður annað víti af tveimur. Sigtryggur missti þrist í kjölfarið en brotið er á honum. Skallagrímur á boltann og 8 sekúndur eftir.

40. 94:99 - Sigtryggur tók boltann af Justin og fær svo víti. Missir fyrra en setur niður seinna. 36 sekúndur á klukkunni.

40. 93:99 - Ja hérna! Sigtryggur setur niður þrist á ögurstundu og heldur þessu opnu. 42 sekúndur á klukkunni.

39. 89:95 - NÚ ER AÐ SJÓÐA UPP ÚR!! Magnús Þór og Dagur Kár rekast saman, sem endar með því að Dagur „kassar“ Magga sem fellur og allt verður brjálað! Dómararnir ráða ráðum sínum og allir vilja segja sína hlið á málinu, en það þarf að halda mönnum í sundur. Maggi fær tæknivillu og Ágúst sína fimmtu hjá Stjörnunni. Menn eru ekki vissir á þessu en þetta þarf að skoða betur.

37. 85:95 - Þetta var þristur í lagi hjá Davíð og á heldur betur mikilvægum tíma! En Justin fær körfu góða og víti á ekki síður mikilvægum tíma. Nú verður barist!

36. 80:90 - Stjörnumenn aðeins að sýna klærnar núna og hafa bætt við forskot sitt. Ágúst fær sína fjórðu villu hjá Stjörnunni og fer í hópinn með Sigtryggi, Páli Axeli og Daða hjá Skallagrími.

34. 75:85 - Justin að stríða Borgnesingum heldur betur, hleður í þrist sem skoppar af hringnum og ofaní eftir langa bið. Páll Axel missir þrist og Dagur Kár refsar. Refskákin sem ég talaði um!

32. 73:81 - Justin missir þrist og Tracy Smith svarar. Skallarar farnir að leita í vopnabúr Stjörnumanna og refsa fyrir mistökin! Það er óhætt að búast við refskák hérna undir lokin þar sem liðunum verður refsað fyrir minnstu mistök.

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 71:76. Enn munar fimm stigum! Það er enn allt í járnum hér í Fjárhúsinu og leikurinn gjörsamlega galopinn upp á gátt. Stjörnumenn virtust ætla að síga fram úr í upphafi leikhlutans en heimamenn héldu nú aldeilis ekki. Þetta verður æsispenna allt til loka, svo mikið er víst.

Tracy Smith er með 22 stig hjá Skallagrími en hjá Stjörnunni er Justin Shouse með 20 stig.

29. 69:73 Nú er komin heldur betur stemning í heimamenn og munurinn kominn niður í fjögur stig! 

28. 64:71 - Sigtryggur er í ham! Magnaður þristur hjá honum og hann gefur einn þumal upp í stúku. Sáttur! Nú eru leikar hins vegar farnir að æsast og hann er sjálfur kominn í villuvandræði með fjórar slíkar. 

27. 59:67 - Frábærlega gert hjá Tracy Smith, fer framhjá tveimur bláklæddum áður en hann setur boltann niður og fær víti að auki. Allt opið í þessu!

26. 56:65 - Nú taka áhorfendur við sér þegar Sigtryggur fær körfu góða og víti. Níu stiga munur. Hafa Borgnesingar orku í að elta til enda?

24. 51:65 - Ef það er einhver sem lifir sig inn í leikinn þessa stundina þá er það Jón Orri Kristjánsson. Hann nánast yfirgnæfir áhorfendur þegar hann lætur heyra í sér og ef félagarnir gera eitthvað vel er alveg ljóst að þeir fá að heyra af því!

23. 49:58 - Þar kom að fyrstu stigum heimamanna eftir 9:0 kafla Stjörnunnar. Páll Axel kemur Borgnesingum á bragðið með stæl, fyrst þristur og svo laglegur snúningur undir körfunni.

22. 44:56 - Jón Orri byrjar síðari hálfleikinn vel, fær körfu góða og setur niður víti. Rétt áður bergmálaði rödd hans um allt húsið þegar hann hrósaði Degi Kár fyrir að sækja villu. 7:0 kafli hjá Stjörnunni í þriðja hluta.

20. Hálfleikur, staðan er 44:49. Daði Berg setti niður flautukörfu og munurinn fimm stig í hálfleik. Það er ekki NEITT! Hörkuskemmtun hér í Borgarnesi og leikurinn gjörsamlega galopinn. 

Hjá heimamönnum er Tracy Smith stigahæstur með 13 stig en hjá Stjörnunni er Justin Shouse með 15. 

19. 42:48 - Svaka blokk hjá Trachy Smith. Og aftur! Svo fullkomnar hann þetta og setur niður skot í teignum. Alvöru tuttugu sekúndna kafli hjá honum!

17. 38:46 Annar þristur hjá Justin þar sem hann virðist ekki í neinu jafnvægi. Þetta eru magnaðir taktar, það er ekki neitt annað ... og þetta var ekki síðra! Jálkurinn Páll Axel með þrist langt fyrir utan línu!

16. 32:39 - Áhorfendur taka við sér, Sigtryggur stelur boltanum og geysist fram, leggur hann á Davíð sem skorar. Einfalt en árangursríkt. Svo setur Smith niður sniðskot og munurinn sjö stig. En það er einfaldlega ekki neitt!!

15. 26:37 - Styrkur Stjörnunnar til þessa er að refsa úr hröðum sóknum eftir mistök í sókn Skallagríms. Heimamenn eru ekki nógu duglegir að hlaupa til baka þegar félagi missir boltann og það hefur komið í bakið á þeim.

14. 26:33 - Stjörnumenn tvímenna á Magnús um leið og hann fær boltann. Reyna að leita uppi pirringinn í honum. Dagur Kár á vítalínunni og setur annað niður en missir seinna. Tracy Smith svarar hinum megin. Þetta er opið í báða enda!

12. 22:28 - Frábær þristur hjá Justin, er að hoppa til hliðar þegar hann sullar honum niður! Stjörnumenn eru með yfirhöndina og við vitum að það er þreytandi að elta. 

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 20:25. Justin kláraði leikhlutann með tveimur vítum eftir að Stjarnan komst í bónus. Fimm stiga forysta þeirra í baráttumiklum leik. Sigtryggur er kominn með tíu stig hjá Skallagrími og Justin níu hjá Stjörnunni.

10. 19:23 - Karfa góð og víti að auki hjá Sigtryggi. Sá hefur verið sprækur hjá heimamönnum. Justin missir þrist fyrir Stjörnuna. 25 sekúndur eftir.

8. 16:21 - Tracy Smith er duglegur að finna gulklædda félaga sína. Hann má hins vegar ekki bara skokka til baka. Nú er landi hans Jeremy Atkinson orðinn pirraður hjá Stjörnunni og lætur finna fyrir sér. Menn vita að það er mikið undir.

7. 14:19 - Góður 11:0-kafli hjá Stjörnunni kom þeim í smá forystu en Borgnesingar eru ekkert hættir. Flottur þristur hjá Sigtryggi, en Atkinson svarar að bragði undir körfunni ... en annar þristur frá Sigtryggi! Þetta er leikur!

5. 7:15 - Frábærlega gert hjá Justin, fer illa með Pál Axel, lagar ennisbandið og sullar niður sniðskoti. Eins og að drekka vatn!

4. 7:13 - Dagur Kár með þrist fyrir Stjörnuna ... og nú Marvin annan! Þetta byrjar á skotsýningu. Orkan er gríðarleg í húsinu og allir leikmenn vel gíraðir. Ég hef trú á að það muni skipta miklu hvort liðið sé betur undir það búið að halda dampi.

2. 5:2 - Þetta byrjar af krafti og Páll Axel setur þrist fyrir heimamenn. Magnús Þórir var löngu búinn að kalla, hann vissi alveg að þessi færi niður!

1. Leikurinn er hafinn. Farseðillinn í úrslitaleikinn í Höllinni er undir!

0. Og nú þarf heldur betur að lofta út eftir þessa reyksýningu! Ég vil samt hrósa Borgnesingum fyrir brjálaða stemningu hér fyrir leikinn. Ég er allavega orðinn vel peppaður á hliðarlínunni! 

0. Jæja áhorfendur hafa streymt í húsið og nú fer fram kynning á leikmönnum. Borgnesingar nota reykvél og leysigeisla í kynningu á sínum leikmönnum. Talandi um að öllu sé tjaldað til!!

0. Það gekk á með dimmum éljum á ferð minni frá höfuðborginni og hingað í Borgarnes. Það má svo sannarlega segja að ég fái leikinn beint í æð og var mér komið fyrir á borði alveg við hliðarlínuna. Ég þarf vinsamlegast að passa að draga borðið eins þétt að mér og ég get því annars er ég inni á vellinum!

0. Liðin eru hvort á sínum enda deildarinnar. Borgnesingar eru neðstir í deildinni á meðan Stjarnan er í þriðja sætinu. Eins og við vitum skiptir það nákvæmlega engu máli í þessum leik þar sem allt er undir.

0. Velkomin með mbl.is hingað í Borgarnes þar sem Skallagrímur tekur á móti Stjörnunni í fyrri undanúrslitaleik karla í körfuknattleik. Hér sé stuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert