Enn ein aðgerðin hjá Derrick Rose

Derrick Rose
Derrick Rose AFP

Ekki á af Derrick Rose, bakverði Chicago Bulls, að ganga en hann er nú á leið í enn eina aðgerðina. Til stendur að skera Rose upp í dag og framkvæma á honum hnéaðgerð. Rose var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2011 og er sá yngsti sem hlotið hefur þá nafnbót. Í desember sama ár gerði Chicago við hann risasamning og frá þeim tíma hefur flest gengið á afturfótunum hjá Rose.

Hann meiddist á hné í fyrsta leik úrslitakeppninnar árið 2012. Lék hann ekki meira með á tímabilinu og var einnig frá allt næsta tímabil eftir að hafa farið í umfangsmikla hnéaðgerð. Hann snéri aftur í upphafi síðasta tímabils en lék aðeins fram í nóvember og þurfti þá að fara í aðgerð á hinu hnénu. Lék hann ekki meira á síðasta tímabili en byrjaði aftur að spila á þessu tímabili, tæpu ári síðar. Rose er greinilega orðinn ansi fótafúinn og nú blasir þriðja hnéaðgerðin við. Ekki hefur komið fram í fjölmiðlum hvað stendur til að gera í þessari aðgerð. Þar af leiðandi er ekki tímabært að vera með getgátur um hversu lengi Rose verður frá keppni.

Þar sem Rose var leikfær í upphafi tímabilsins þá er Chicago talið vera eitt þeirra liða sem eiga hvað mesta möguleika á því að vinna titilinn í júní. Það hefur Chicago ekki afrekað frá því Michael Jordan lék með liðinu árið 1998. Koma Spánverjans Pau Gasol til liðsins í sumar ýtti einnig undir slíkar vangaveltur. Ljóst er þó að liðið þarf á Rose að halda til að eiga möguleika. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert