Chicago réð ekki við Jordan

DeAndre Jordan hirðir frákast fyrir framan nefið á Mike Dunleavy, …
DeAndre Jordan hirðir frákast fyrir framan nefið á Mike Dunleavy, leikmanni Chicago. Hann tók alls 26 slík í leiknum. AFP

Stephen Curry var sjóðandi heitur eina ferðina enn þegar topplið NBA-deildarinnar í körfuknattleik, Golden State Warriors, vann upp 26 stiga forskot Boston Celtics á útivelli og knúði fram sigur með góðum endaspretti, 106:101.

Þetta var 46. sigur Golden State í 57 leikjum en hann var torsóttur og staðan var 56:30 fyrir Boston seint í fyrri hálfleiknum. Boston var yfir, 86:75, í upphafi fjórða leikhluta. Curry skoraði 37 stig fyrir Golden State og Klay Thompson 17 en Isaiah Thomas gerði 20 stig fyrir Boston sem hafði unnið þrjá síðustu leiki sína en liðið er í hörðum slag um að komast í átta liða úrslit Austurdeildarinnar.

Chris Paul skoraði 28 stig fyrir LA Clippers og DeAndre Jordan tók hvorki fleiri né færri en 26 fráköst þegar liðið gerði góða ferð til „Vindaborgarinnar“, Chicago, og vann þar lið Bulls, 96:86. Þar af tók Jordan 17 fráköst í fyrri hálfleik á velli þar sem annar Jordan réð ríkjum á árum áður. Óhætt er að segja að Clippers líði vel í Chicago en liðið hefur nú unnið þar fimm ár í röð. 

Þetta var 300. leikurinn í röð hjá DeAndre Jordan í deildinni. „Ég held að hann hafi ekki einu sinni misst úr æfingu," sagði Doc Rivers, þjálfari Clippers.

James Harden skoraði 33 stig fyrir Houston Rockets sem vann Cleveland Cavaliers, 105:103, í framlengdum leik í eldflaugaborginni Houston. LeBron James skoraði 37 stig fyrir Cleveland en hann kom aftur inní liðið eftir hvíld í einn leik. Hann gat jafnað metin þegar fjórar sekúndur voru eftir en brást bogalistin í tveimur vítaskotum.

Damian Lilliard skoraði 31 stig fyrir Portland Trail Blazers sem vann Sacramento Kings á útivelli, 110:99. LaMarcus Aldridge bætti við 26 stigum og 15 fráköstum fyrir Portland.

Úrslitin í nótt:

Chicago - LA  Clippers 86:96
Houston - Cleveland 105:103 (framlenging)
Sacramento - Portland 99:110
Boston - Golden State 101:106
Indiana - Philadelphia 94:74
Orlando - Charlotte 83:98
LA Lakers - Oklahoma City 101:108
Denver - New Orleans 92:99

Staðan í Austurdeild:

Atlanta, 47/12 Toronto 37/22, Chicago 37/23, Cleveland 37/24, Washington 34/26, Milwaukee 32/27, Miami 25/33, Indiana 25/34, Brooklyn 24/33, Charlotte 24/33, Boston 23/34, Detroit 23/36, Orlando 19/42, Philadelphia 13/46, New York 12/46.

Staðan í Vesturdeild:

Golden State 46/11, Memphis 42/16, Houston 41/18, Portland 39/19, LA Clippers 39/21, Dallas 39/22, San Antonio 36/23, Oklahoma City 33/27, New Orleans 32/27, Phoenix 31/29, Utah 23/35, Sacramento 20/37, Denver 20/39, LA Lakers 16/42, Minnesota 13/45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert