Hlynur skoraði sigurkörfuna

Hlynur Bæringsson skoraði sigurkörfu Sundsvall gegn toppliði Norrköping.
Hlynur Bæringsson skoraði sigurkörfu Sundsvall gegn toppliði Norrköping. mbl.is/Eva Björk

Hlynur Bæringsson skoraði sigurkörfu Sundsvall þegar liðið vann topplið Norrköping, 84:83, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í kvöld. Hlynur skoraði á síðustu sekúndu leiksins eftir að hafa náð frákasti í framhaldi af misheppnaðri tilraun Jakobs Arnar Sigurðarsonar til þess að tryggja Sundsvall sigurinn með þriggja stiga skoti.

Heldur betur dramatískur sigur hjá Sundsvall á útivelli en eftir sigurinn í kvöld situr liðið í 5. sæti. 

Hlynur skoraði alls 15 stig í leiknum, tók 11 fráköst og átti sex stoðsendingar. Jakob Örn skoraði 16 stig, tók fjögur fráköst og átti tvær stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson skoraði þrjú stig, átti tvær stoðsendingar og tók eitt frákast. Ragnar Nathanaelsson kom lítið við sögu en náði einu frákasti á þeim stutta tíma sem hann tók þátt.

Sigurður Þorsteinsson skoraði 10 stig, tók átta fráköst og átti þrjár stoðsendingar þegar Solna vann Södertälje, 89:79, á útivelli. Solna er í 7. sæti. 

Haukur Helgi Pálsson var ekki í leikmannahópi LF Basket þegar liðið gjörsigraði Umeå með 50 stiga mun, 96:46. Haukur hefur glímt við meiðsli að undanförnu og misst úr leiki af þeim sökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert