Brenglað að þetta sé að fara að gerast

Martin Hermannsson í búningi LIU Brooklyn.
Martin Hermannsson í búningi LIU Brooklyn. Ljósmynd/Brooklyn Eagle

„Það má segja að hlutirnir hafi gengið eftir áætlun, en ég er svolítið gráðugur og hefði jafnvel viljað aðeins meira. En maður getur ekki fengið allt,“ sagði körfuknattleiksmaðurinn Martin Hermannsson, leikmaður LIU Brooklyn í bandaríska háskólaboltanum, þegar mbl.is sló á þráðinn til hans vestur um haf í dag.

Martin, sem er að spila sitt fyrsta tímabil vestanhafs, var á dögunum útnefndur nýliði ársins af öllum liðunum úr Brooklyn, en það var staðarmiðillinn Brooklyn Daily Eagle sem stóð að valinu. Martin var að auki valinn í fimm manna nýliðaúrval í NEC-deildinni og einnig tvívegis útnefndur nýliði vikunnar í vetur. Samherji hans hjá Brooklyn, Elvar Már Friðriksson, fékk einnig þá nafnbót einu sinni í vetur.

En átti Martin von á svo góðum árangri á sínu fyrsta tímabili ytra?

„Til að vera hreinskilinn þá verð ég að segja já. Ég setti mér stór markmið við komuna út og við Elvar komum svolítið eldri inn í þetta en aðrir nýliðar. Ég ætlaði mér stóra hluti og það gekk eftir,“ sagði Martin sem skoraði að meðaltali 10,1 stig í leik, tók 3,8 fráköst og gaf 3,3 stoðsendingar.

Verður líka að standa sig í skólanum

Tímabilinu hjá Brooklyn er nú lokið og endaði liðið í áttunda sæti í sínum riðli. Liðið vann átta leiki en tapaði tíu og komst ekki upp úr riðlinum og áfram í 64-liða úrslit háskólaboltans. Körfuboltinn er hátt skrifaður í skólanum og hefðin er sterk.

„Fyrir nokkrum árum vann skólinn sinn riðil þrjú ár í röð og fór í úrslitakeppnina öll þrjú árin. Þetta hefur verið hátt settur skóli síðustu ár, og ég held meira að segja að í kringum 1950 hafi hann verið titlaður númer eitt í landinu. Svo það er mikil hefð og búist við miklu af okkur á næstu árum, en við erum einmitt talinn vera einn sterkasti nýliðaárgangur sem verið hefur í skólanum, svo það er búist við miklu,“ sagði Martin.

Martin í leik með uppeldisfélaginu, KR.
Martin í leik með uppeldisfélaginu, KR. mbl.is/Ómar

Þeir Elvar leggja báðir stund á viðskiptafræði en þrátt fyrir að tímabilinu sé lokið er langt frá því að körfuboltinn sé settur á hilluna og æft er stíft. En hvernig gengur að samtvinna körfuboltann við krefjandi nám?

„Kennararnir sýna mikinn skilning þegar við förum að keppa úti og mætum kannski ekki í skólann í tvo daga. En þetta gengur bara vel og auðvitað snýst þetta um skólann, svo það er ekkert vesen að gera það saman. Þetta er eiginlega bara svipað og þegar ég var heima og var í Verzló með körfunni. Það eru líka mikil samskipti á milli kennara og þjálfara svo maður verður að standa sig vel, annars er tekið á því.“

Martin í landsleik gegn Bretum í haust.
Martin í landsleik gegn Bretum í haust. mbl.is/Eva Björk

Þessir gaurar gera ekki annað en að hlusta á tónlist

Eins og gefur að skilja er mikið um ferðalög til og frá leikjum. Liðið ferðast um í rútu og geta ferðirnar tekið drjúgan tíma.

„Yfirleitt þegar við erum að spila þá förum við annað hvort degi eða tveimur fyrir leikinn, gistum á hóteli og tökum æfingu á vellinum sem við spilum á. Svo er aftur morgunæfing á leikdegi, svo spilað og keyrt heim eftir leik. Ég held ég hafi aldrei eytt jafn mörgum tímum í rútu á einu ári eins og núna,“ sagði Martin og var þá ekki úr vegi að forvitnast hvað menn gera sér til dundurs, verandi svo mikið á ferðinni.

„Það er misjafnt, en sem betur fer er þráðlaust net í þessum rútum svo það er auðvelt að stytta sér stundirnar. Ég væri að ljúga að þér ef ég segðist vera að lesa einhverja bók eða slíkt, maður er frekar að liggja yfir einhverjum þáttum. Svo gera þessir gaurar ekkert annað en að hlusta á tónlist, svo það er bara Spotify í gangi,“ sagði Martin léttur í bragði og tók undir með blaðamanni að lagalistarnir þar væru fljótt étnir upp til agna.

Martin Hermannsson fagnar titlinum með KR í fyrra.
Martin Hermannsson fagnar titlinum með KR í fyrra.

„Löngu kominn með leið á Elvari“

En það eru ekki bara ferðalögin sem fylgja leikjunum heldur er mikið flakk á milli hótela. Hvernig leggst það í Martin?

„Maður hefur fengið að kynnast þessu með landsliðinu í öllum þessum landsliðsferðum. Við Elvar erum líka alltaf saman í herbergi svo ég er löngu kominn með leið á honum," sagði Martin og hló, en þeir Elvar eru miklir félagar eins og gefur að skilja.

„Nei þetta er fínt maður, við tökum bara Playstation tölvuna með eða lærir eða eitthvað. Svo erum við alltaf á æfingu eða video-fundum eða slíku svo það er aldrei dauður tími,“ sagði Martin og segist ánægður með allan aðbúnað sem skólinn skaffar.

„Í Brooklyn búum við í húsi sem skólinn á, en erum ekki á skólasvæðinu sjálfu. Við erum þar fimm saman úr liðinu í stórri íbúð, það eru allir með sitt eigið herbergi og fín stofa líka, svo það er allt til alls. Það er gott að vera svolítið með sitt eigið rými líka, það munar miklu um það.“

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Eggert

Strákunum finnst þetta fáránlegt

Nú þegar tímabilinu er lokið og styttist í annan enda skólaársins er ekki nema von að Martin sé farinn að huga að sumrinu og komandi verkefnum.

„Skólinn klárast í kringum 10. maí, ég held ég komi heim strax í kjölfarið, og þá vita allir hvað tekur við held ég,“ sagði Martin og er þá að sjálfsögðu að tala um undirbúninginn fyrir Eurobasket í haust, fyrsta lokakeppni stórmóts sem Íslands kemst á í sögu körfuboltans hér á landi.

„Það verður mikil barátta að komast inn í liðið og auðvitað eitthvað sem alla körfuboltamenn dreymir um, svo það vilja allir sanna sig. Þetta hefur hvatt okkur alla áfram í vetur held ég, og þess vegna var einmitt skrefið tekið að fara frá Íslandi og í aðeins sterkara umhverfi þar sem ég gæti tekið leikinn upp á næsta svið,“ sagði Martin, en finnst honum sjálfum að hann hafi tekið framförum í vetur?

„Já og nei. Það er margt jákvætt hérna en eins og með allt þá er auðvitað eitthvað sem mætti vera öðruvísi. En ég held að líkamlegur styrkur, hraði og snerpa sé orðið töluvert betra hjá mér og svo finn ég sérstaklega mikinn mun á mér varnarlega,“ sagði Martin.

Elvar Friðriksson, Martin og Haukur Helgi Pálsson á landsliðsæfingu.
Elvar Friðriksson, Martin og Haukur Helgi Pálsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

Ísland er í sannkölluðum dauðariðli á Eurobasket, en leikir Íslands fara fram í Berlín. Í riðlinum eru Spánn, Ítalía, Serbía, Tyrkland auk heimamanna í Þýskalandi. Hvað segja félagar Martins í Brooklyn að hann sé að fara að mæta svona stórþjóðum í íþróttinni?

„Þeim finnst þetta náttúrulega fáránlegt, þegar við tölum um að mæta Spánverjum með Paul Gasol og fleirum sem allir hafa fylgst með lengi. Það er svolítið brenglað að þetta sé að fara að gerast, og ég get bara ekki ímyndað mér þetta núna að geta mætt Dirk Nowitzki og þessum köllum. Þetta eru stjörnur sem maður hefur fylgst með lengi og ekki einu sinni séð spila í eigin persónu, en svo er maður bara mættur með þeim á völlinn ef allt gengur upp. Það er ansi magnað,“ sagði Martin Hermannsson að lokum í samtali við mbl.is nú í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert