45 stig Bonneau Stjörnunni um megn

Stefán Bonneau, Njarðvík, með boltann og Stjörnumaðurinn Tómas Þórður Hilmarsson …
Stefán Bonneau, Njarðvík, með boltann og Stjörnumaðurinn Tómas Þórður Hilmarsson reynir að stöðva hann í kvöld. Mynd/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvíkingar höfðu betur gegn Stjörnunni í æsispennandi leik suður með sjó 92:86 og komust því í 2:1 í einvígi liðanna í átta liða úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Næsti leikur liðanna er á sunnudag í Garðabæ þar sem Stjörnumenn verða einfaldlega að vinna. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

4. leikhluta lokið

Lokatölur 92:86. Liðin skiptust á forystunni í leiknum megnið af þessum fjórðung en þegar um 4 mínútur voru til loka komust Stjörnumenn yfir í stöðunni 76:78 með þrist frá Daða Lár Jónssyni.  Njaðrvíkingar tóku leikhlé og viti menn, 5 stig í röð frá þeim og þá ákvað Hrafn Kristjánsson að taka leikhklé hinum megin. Þetta var að breytast í einhverja refskák og líkt og ég sagði eftir fyrsta leikhluta þá myndi þessi leikur ráðast á lokasprettinum.

En í kjölfarið splæsti Stefan Bonneau í einn þrist nánast frá bílastæðinu og Njarðvíkingar komnir í 6 stiga forystu með um 2 mínútur á klukkunni til leiksloka. Leikar fóru að æsast þegar Stefan Bonneau fékk óíþróttamannslega villu fyrir að gefa Dag Kár Jónssyni olnbogaskot að því er virtist. Dagur á línuna og minnkaði muninn í þrjú stig og svo tvö stig frá Jeremy Atkinson setti leikinn í stöðuna 84:83 og aðeins 1:20 eftir. Spennustigið í húsinu var hægt að skera með hníf og stuðningsmenn beggja liða með neglurnar í tönnunum.  Svo  fór að Njarðvíkingar höfðu það af í þetta skiptið, með 92 stigum gegn 86 stigum gestanna og leiða einvígið 2:1.  Næsti leikur er á sunnudag og það er ekki við öðru að búast en að þar verði svipað uppá teninginn.

3. leikhluta lokið

Staðan er 65:60 fyrir Njarðvík. Saga þessa leikhluta er vítalínan fyrir þá Stjörnumenn.  Njarðvíkingar hafa verið duglegir að brjóta á Stjörnumönnum og senda þá á vítalínuna. Það hefur að vissu leyti haldið þeim bláklæddu í leiknum.  Á lokaspretti leikhlutans fór Stefan Bonneau hamförum (komin í 32 stig eftir 30 mínútur) hjá Njarðvík og kom þeim grænklæddu í 8 stiga forystu en Daði Lár Jónsson setti niður flautuþrist í lok leikhlutans og minnkaði muninn niður í 5 stig og staðan 65:60 heimmenn í vil fyrir síðustu 10 mínútur leiksins. 

Hálfleikur

Staðan 41:36 fyrir Njarðvík. Stöðubarátta leiksins heldur áfram þó svo að heimamenn hafi frumkvæðið að einhverju leyti. Stjörnumenn voru við það að komast yfir í leiknum í stöðunni 22:22 en víti hjá Jeremy Atkinson klikkaði. Gæti verið dýrt þegar kemur að lokum þessi víti sem fara forgörðum. Spyrjið bara Haukamenn. Annars komust Njarðvíkingar í stöðuna 37:31 þegar um 2:30 mín voru eftir til hálfleiks. Stjörnumenn hinsvegar eru seigir í sínum aðgerðum og neita að láta Njarðvíkinga komast í tveggjastafa forystu. Í hálfleik leiða heimamenn, 41:36 og allt lítur út fyrir að þessi verði útkljáður á lokasekúndum leiksins.   Sem fyrr eru það Bandaríkjamennirnir í liðunum sem leiða stigaskorið, Bonneau með 17 fyrir Njarðvík og Atkinson með 17 fyrir Stjörnuna. 

1. leikhluta lokið

Staðan 22:19 fyrir Njarðvík. Það er ekki að sjá mikinn mun á liðunum í kvöld. Njarðvíkingar hafa haft forskot í leiknum frá upphafi og virðast að einhverju leiti vera að skora auðveldari körfur hérna framan af leik. Stjörnumenn hins vegar fylgja þeim hvert fótmál og aðeins þrjú stig skilja liðin að eftir fyrstu 10 mínútur leiksins. Stefan Bonneau hefur farið fyrir heimamönnum og er komin með 13 stig en hjá Stjörnumönnum er Jeremy Atkinson komin í 9 stig og leðir í stigafjölda hjá bikarmeisturunum. 

1. Leikur hafinn.

0. Njarðvík vann fyrsta leik liðanna 88:82 á heimavelli, eftir framlengdan leik, eftir að Stjarnan hafði jafnað metin með því að skora fjögur stig í blálok venjulegs leiktíma. Stjarnan vann svo leik tvö 89:86 þar sem Njarðvík fékk 9 sekúndur í lokasókn til að jafna metin.

0. Stefan Bonneau skoraði 30 stig fyrir Njarðvík í fyrsta leiknum og Jeremy Atkinson 27 fyrir Stjörnuna. Atkinson stal senunni í leik tvö og skoraði 28 stig og tók 13 fráköst. Logi Gunnarsson var þá stigahæstur í Njarðvík með 27 stig.

Logi Gunnarsson reynir skot en Justin Shouse er til varnar.
Logi Gunnarsson reynir skot en Justin Shouse er til varnar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert