KR sópaði Grindvíkingum út

Michael Craion sækir að körfu Grindvíkinga í leiknum í Vesturbæ …
Michael Craion sækir að körfu Grindvíkinga í leiknum í Vesturbæ í kvöld. mbl.is/Golli

Þriðji leikur KR og Grindavíkur í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik lauk rétt í þessu. Fyrir leikinn höfðu KR þegar unnið tvo leiki og Grindvík engan en þrjá sigra þarf til að komast áfram. KR nýttu sér tækifærið í kvöld til að sópa Grindavík úr úrslitunum þetta árið með öruggum og afar sannfærandi sigri, 94:80 í DHL-höllinni í Vesturbænum.

Jafnræði var með liðinum í upphafi og ljóst að Grindvíkingar ætluðu sér stærri og meiri hluti en í fyrstu tveimur leikjum liðanna; sóknarleikurinn var í fínu jafnvægi framan af, eitthvað sem skortir hjá liðinu í fyrstu leikjunum. Varnarleikur liðsins var hinsvegar ekki nægilega góður og undir lok fyrri hálfleiks fór að sjást brestir í henni og KR nýtti sér þá til hins ítrasta og náðu góðu áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks. Þetta áhlaup var síðan stoðin sem KR byggði sinn sigur á því strax í þriðja hluta fór liðið að spila mun betri varnarleik, sem skilaði sér í betri sóknum og auðveldari stigum. Þegar munurinn var svo kominn í kringum 10 stigin riðlaðist leikur gestanna töluvert og þeir misstu tökin á sínum leik. Eftirleikurinn var því auðveldur fyrir KR, sem missti aldrei taktinn í seinni hálfleiknum.

Grindvíkingar reyndu og sýndu hjarta sitt í seríunni en liðið einfaldlega ekki nægilega gott til að stríða KR. Jóhann Ólafsson, Rodney Alexander, Jón Axel Guðmundsson, Þorleifur og Ólafur Ólafssynir og Oddur Kristjánsson áttu allir fína spretti en liðsheildin náði sér aldrei almennilega á strik í seinni hálfleik og því fór sem fór.

KR byrjaði leikinn rólega en óx ásmegin eftir sem leið á hann og þegar liðsmenn fundu sig loks var ekki aftur snúið. Michael Craion átti stórleik og má segja að hann hafi rassskellt alla þá sem reyndu að dekka hann í leiknum. Helgi Már Magnússon átti svo enn einn stórleikinn því það var hann sem rak síðustu fjóra naglana í kistu Grindavík; frábær á lokakafla leiksins eins og svo oft áður. Aðrir voru „venjulegir“ en málið var að þeir þurftu ekki að spila frábærlega í kvöld, heldur aðeins fylgja fordæmi þessara tveggja og spila flotta vörn, sem og hinir „venjulegu“ gerðu af stakri prýði.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

-------------

Leik lokið! Lokatölur 94:80

0:30 - KR eru að sigra leikinn... 91:80

1:16 - Craion fer á línuna... 91:77

1:30 - Helgi setur skot niður og leikurinn er að fara frá Grindvík... 90:77

2:23 - Craion skorar og fær víti að auki. Þetta er líklega leikurinn. Grindvíkingar hafa farið illa með góð tækifæri, léleg skot þeirra versti óvinur, sem og daprar ákvarðanatökur... 87:75

2:55 - Jóhann smellir þrist fyrir gestina... 83:73

3:33 - Helgi smellir öðrum þrist og gerir næstum útum leikinn... hann er með 20 stig! 83:70 og ljóst að það er of mikill munur með 3:26 eftir...

4:11 - Helgi smellir þrist og Alexander svarar með tvist. 80:70

5:39 - Grindvíkingar eru ennþá að klóra í bakkann en alveg ljóst að þeir munu bara gera það ef leikur liðsins breytist ekki á næstu 60 sekúndum. KR eru of sterkir til þess að missa svona niður á venjulegum degi, en þetta er vissulega ekki venjulegur dagur og því ljóst ð möguleikinn er til staðar, bara spurning hvort gestir hafa bolmagn til að hirða þennan leik... 77:68

7:12 - Craion skorar í hraðaupphlaupi og kominn með 30! Alexander skorar og kominn með 15! Samanburðurinn er gestunum ekki hagstæður... 77:66

8:12 - Sóknarleikur Grindvíkinga frá fyrri hálfleik hefur glatast. Allt er þetta mjög tilviljun háð og verður fyrir vikið stundum hálfvandræðalegt. Þorleifur setur víti og heldur voninni lifandi fyrir gestina... 73:64

9:10 - Mikill hasar og barátta núna. Grindvíkingar vita alveg hvað er að gerast núna og ætla sér að gefa rúmlega allt í þetta... 73:62

Þriðji hluti allur! 73:62 - KR endar hlutann á hárri nótu, sem þýðir að Grindvíkingar eru enn vængbrotnir og þurfa að eiga frábæran fjórða fjórðung ef þeir ætla sér eitthvað í leiknum. Vörnin verður að vinna betur úr hlutunum þegar Craion fær boltann og svo verða þeir að koma sér aftur í betri sóknargír, því hann hefur riðlast töluvert milli leikhluta. 

0:46 - Þorleifur skorar út vítum, kominn með 9 stig. Það er ennþá líf í Grindvík en þeir þurfa meiri og betri vörn, þá sérstaklega gegn Craion, sem skorar að vild. 71:60

2:33 - Björn Kristjánsson stelur boltanum og keyrir framhjá þremur Grindvíkingum til þess að skora, "coast-to-coast"!!! Óásættanlegur varnarleikur gestanna! 69:56

3:44 - Ef Grindavík nær ekki að rétta aðeins úr kútnum núna fyrir síðasta hluta verða þeir í töluverðum vandræðum. Jón Axel setur þrist og lagar stöðuna. Craion kemst hinsvegar aftur upp að körfunni og skorar! Ekki góð vörn þarna... 65:56

4:44 - Craion fer á línuna og skorar. Alexander ræður enn ekkert við hann! 63:51

5:05 - Aftur skorar Craion! kominn með 22! Alexander fílbommbomm ræður ekkert við kauða inní teig, þrátt fyrir að vera töluvert meira kjötaður... 61:51 - Núna er sóknarleikur Grindavíkur einnig í hættu því þeir virðast hafa tapað þeim takti í augnablikinu.

6:51 - Grindavík fær á sig tvær tæknivillur og ljóst að þetta er atvik sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir gestina... staðan núna 59:49 og KR með boltann! Þetta er algjört klúður og geta gestirnir sjálfum sér um kennt því varnarleikurinn eða skortur þar á, hefur verið valdurinn á þessu; sóknin er að rúlla vel en menn á hælum í vörn og KR fljótt að refsa þegar veikleikinn sýnir sig...

8:30 - Grindavík byrjar ágætlega í sókninni en vörnin er ekki góð og KR skorar alltaf líka. 52:47

Seinni hálfleikur hafinn! 48:42

Hálfleikur! 48:42 - KR-ingar náðu að loka hálfleiknum mjög sterkt og litu síðustu mínútu hans ekki vel út fyrir gestina. Varnarleikur Grindavíkur hefur ekki verið góður og aðeins sóknarleikur liðsins sem heldur lífinu í þeim. Hérna skilur á með fyrstu tveimur leikjunum, sem einkenndust báðir af sæmilegum varnarleik og döprum sóknarleik. Til þess að vel eigi að fara fyrir gestina þurfa þeir að passa þessar rokur sem KR dettur reglulega í; passa að missa þá ekki í sinn leik, sem er hraður sóknarleikur og aggressív vörn. Hjá Grindavík hefur Oddur Kristjánsson skorað 10 stig og með frábært framlag af bekknum. Ólafur hefur verið góður, sem og Rodney í sókninni - varnarleikur Rodney er langt frá því að vera ásættanlegur. Hjá KR hafa Brynjar, CRaion og Helgi séð um að smyrja sóknarmaskínuna. Varnarleikur heimamanna hefur ekki náð að stoppa Grindvíkinga eins vel og í fyrstu leikjum en ljóst að hann er alltaf álitlegri í ásjón en varnarleikur gestanna. Leikurinn gæti snúist í höndum Grindvíkinga í þriðja hluta og því mikilvægt fyrir gestina að koma með réttu andlegu hliðina til leiks.

3:03 - Mikill darraðadans sem endar ekki vel fyrir gestina. Grindavík mega ekki missa þetta í of hraðan leik, KR vinnur slíkt í 9/10 tilfellum. 38:39

4:44 - KR hafa náð betri tökum á leiknum; Craion fær boltann í teignum og þá gerist alltaf eitthvað jákvætt fyrir KR, hvort sem það er hann sem skorar eða einhver tekur sóknarfrákastið eftir hann eða hann finnur opinn mann. Grindvíkingar eru að spila fínan sóknarleik og verða að passa sig að missa hann ekki í bullið því hann er líflína þeirra í þessum leik. Óli Óla setur þrist 34:36

7:44 - Hraðinn mikill núna og skotgleði leikmanna mikil. Hittnin fín og staðan 29:26 - KR eru að ná meiri tökum á sínum leik. Alexander á í miklum erfiðleikum með Craion en það jákvæðasta í leik Grindavíkur er sú staðreynd að sóknarleikurinn virðist laus úr viðjum Helvítis... 29:29

Fyrsti hluti allur! 22:22 - Hraðinn hefur verið temmilegur fyrir Grindavík, þ.e. þeir ráða við leikinn á þessu tempói en verða að gæta sín á að missa hann ekki í meiri hraða því þá standa heimamenn betur að vígi að mínu viti. KR sakna greinilega Pavels því þeir hafa aldrei verið nálægt því að ná einhverjum tökum á leiknum. Grindvíkingar hafa hinsvegar verið í þeirri stöðu að leiða í hlutanum en eru einfaldlega það brothættir að þeir geta misst þá stjórnartauma auðveldlega í hendur KR. Lítur út fyrir að verða spennandi leikur en mikið eftir.

2:12 - Það verður bara að viðurkennast að Alexander er langt frá því að vera nægilega góður varnarmaður til þess að stoppa í það gat sem Craion er inní teignum. KR-ingar eru að komast auðveldlega framhjá sínum manni en ekki að nýta sér þetta nægilega vel. Grindvíkingar bíða átekta og bruna fram og spila hæfilega kærulaust og vel afslappað. Þetta er munurinn á liðinum í fyrsta hlutanum. 19:20

3:44 - Baráttan í gestunum er til fyrirmyndar. KR-ingar þurfa að gera sér það ljóst að þeir munu ekki valta yfir neinn í kvöld með þessu andlega atgervi. 15:18

4:45 - Alexander skorar aftur. Kominn með 6 og Jón Axel stelur boltanum og skorar. 11:14 - KR eru að sýna nákvæmlega það hugarfar sem ég talaði um í upphafi; kærulausir og slakir...

6:34 - KR-ingar eru alls ekki að sýna styrk sinn þessar fyrstu mínútur. Jafnræði er með liðunum. Craion nær í þrjú sóknarfráköst til þess að skora og fær vítið líka. Ólafur Ólafsson fær sína aðra villu og sest á bekkinn. 11:8

7:30 - Jón Axel kemur sínum mönnum yfir, 5:6 en Helgi Már svarar með þrist... 8:8

9:00 - Craion skorar fyrstu stigin og Alexander svarar hinum megin... fer ágætlega af stað, varnarleikurinn öflugur og hraðinn góður. 5:4

Leikur hafinn!

19:05 - Ef KR sigra í kvöld fær liðið fína hvíld í biðinni eftir mótherja. Mögulegir mótherjar eru Keflvíkingar, sem eru 2-0 yfir gegn Haukum. Ef Keflavík vinnur og Stólar sömuleiðis munu Stólar fá Njarðvík/Stjarnan og KR Keflavík. Þetta er töluvert áhugaverðari niðurröðun en ef Njarðvík/Stjarnan lendir á móti KR, ef við gefum okkur að KR komist áfram. En þetta eru bara vangaveltur og áhugaverðar sem slíkar en breyta ekki því að KR verður að sigra í kvöld og það gera þeir ekki ef þeir eru sjálfir komnir í þessar pælingar. Það er staður og stund fyrir það og þeirra verkefni er annað núna og Grindvíkingar standa í vegi þeirra.

18:57 - Sú staðreynd að Pavel er ekki með er lýsandi fyrir hugarástand KR: Liðið er komið í afar þægilega stöðu og þó svo að þessi leikur myndi tapast er einvígið aldrei í hættu og því aðeins skynsamlegt að hvíla kappann. Þetta ætti ekki að hafa nein áhrif á heildarmyndina þó svo að þessi leikur sé hættulegri fyrir vikið fyrir KR í fjarveru Pavels.

18:52 - Þriðji leikur í svona seríu er alltaf hættulegasti leikurinn fyrir áberandi "betra liðið" þegar það er komið í 2-0. Þetta hefur margsýnt sig; kæruleysi getur lagst á menn sem afbakar alla spilamennsku. Að sama skapi er hitt liðið aldrei betur gírað en þegar mögulega síðasti leikur tímabilsins er á dagsskrá. Slík lið koma oftar en ekki ferskari og meira léttleikandi og hitta því á frábæran dag. Þetta gæti orðið slíkt kvöld en það verður bara að segjast eins og er að slíkt kæmi mikið á óvart. Stuðningsmenn Grindavíkurliðsins hafa því tekið uppá því að nota "Ég trúi"-línuna. Þetta er líklega gert til að ákalla almættið til að hafa einhverskonar milligöngu í þessu máli. Ástandið er því svona; aðeins Guð getur hjálpað. Kannski svaraði hann og niðurstaðan að Finnur þjálfari KR ákveður að hvíla Pavel Ermolinski? Hver veit hvaða hvatir liggja þarna að baki, eitt veit ég bara: Þetta á að hjálpa Grindavík.

18:39 - Rodney Alexander verður að fá boltann inní teig, skotmenn Grindavíkur verða að vera tilbúnir, ekki bara að skjóta heldur hitta, og liðsmenn verða að berjast sem aldrei fyrr í vörninni því þetta KR-lið stoppar sig ekki sjálft. KR eru í slíkri kjörstöðu að það er einfaldlega erfitt að ímynda sér að þeir vinni þennan leik ekki. Varnarleikur liðsins hefur haldið Grindvíkingum algjörlega niðri í þessum tveimur fyrstu leikjum, eða í um 70 stigum! Þetta hefur valdið því að sóknarleikur liðsins hefur ekki þurft að sýna á sér sparihliðarnar. Þetta er gríðarlegur munaður og ekkert lið í deildinni sem býr svona vel að honum.

18:30 - Það eru ekki margir sem spá því núna að Grindvíkingar nái að sigra leik í þessari seríu. KR-ingar hafa einfaldlega verið of sterkir og þar sem Grindvíkingar náðu ekki betri niðurstöðu í síðasta heimaleik sínum er útlitið orðið ansi gruggugt fyrir suðurnesjaliðið. Það skal hinsvegar engum dyljast að Grindvíkingar koma snarvitlausir í þennan leik og ef KR kemur ekki með álíka hugarfar og grimmt gætu þeir lent í smá vandræðum. Ég á samt í smá vandræðum með að sjá hvernig KR getur lent í miklum vandræðum gegn Grindavík, til þess er KR liðið einfaldlega of sterkt og hefur sýnt það í þessari seríu þrátt fyrir að hafa ekki spilað mjög vel í seríunni; með því að sigra báða leikina í slíkum fasa er nákvæmlega þessi mikli styrkur í liðinu. Grindavík verður að hitta á sinn allra besta leik ef liðið ætlar sér að halda lífi. Sóknarleikurinn verður að halda dampi því ef KR þarf ekki að hafa mikið fyrir vörninni þá missa Grindvíkingar tökin á leiknum. Í síðasta leik var skotnýting Grindvíkinga skelfileg og líklegasta orsökin á tapi liðsins. Þetta gerðist einnig í fyrsta leiknum og ljóst að sóknarleikur gestanna í kvöld verður vera skarpari en oft áður.

KR vann fyrsta leikinn í einvíginu á heimavelli 71:65. Meistararnir unnu svo leik tvö í Grindavík, 81:77, eftir að hafa skorað 10 síðustu stig leiksins.

KR-ingar urðu deildarmeistarar með 40 stig af 44 mögulegum en Grindavík endaði hins vegar í áttunda sæti með 22 stig, vann ellefu leiki og tapaði ellefu. Þessi lið mættust í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn fyrir ári síðan og þá höfðu KR-ingar betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert