Sverrir segir KR fara alla leið

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur. KRISTINN INGVARSSON

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur var afar vonsvikinn að loknum þriðja leik KR og Grindavíkur í átta liða úrslitum Dominos deidarinnar. Grindavík var sópað út úr átta liða úrslitunum í fyrsta skipti í fimm ár og Sverrir Þór var svekktur með frammistöðu Grindavíkurliðsins í kvöld.

„Við komum kokhraustir inn í þetta einvígi þrátt fyrir að hafa endað í áttunda sæti í deildarkeppninni. Við vissum það að við erum orðnir miklu sterkara lið en við vorum fyrir áramót. Slakt gengi fyrir áramót er ástæða þess að við þurfum að mæta firnasterku liði KR í átta liða úrslitum. Við töldum okkur hins vegar eiga í fullu tré við KR liðið og því er ég afar svekktur með útkomuna úr þessum þremur leikjum.“

Sverrir Þór var sérstaklega svekktur með að hafa ekki náð að landa sigri í öðrum leik liðanna í Röstinni á sunnudagskvöldið. Grindavík var þá með unninn leik í höndunum þegar skammt var eftir af leiknum en fóru afar illa að ráði sínu á lokamínútum leiksins.

„Það er sérstaklega svekkjandi að hafa ekki mætt hingað til leiks í stöðunni 1:1 í rimmunni. Eftir á að hyggja var leikurinn í Röstinni á sunnudagskvöldið vendipunktur í einvíginu. Sigur þar hefði sett leikinn í kvöld í allt annað samhengi. Það var að duga eða drepast hér í kvöld og við vorum ekki nógu góður í kvöld.

Rodney Alexander var í basli með Craion

Aðspurður að því hvað hafi helst vantað upp á hjá Grindavíkurliðinu í kvöld sagði Sverrir: „Mér fannst vanta meiri vilja og grimmd varnarlega. KR-ingar fengu of mikið af fríum skotum og komust of auðveldlega nálægt körfunni hjá okkur. Mér fannst skorta kraft í okkur í leiknum í kvöld.“

Sverrir bendir sem dæmi á hversu auðvelt Michael Craion átti með að komast upp að körfu Grindavíkurliðsins í kvöld.

„Rodney Alexander virkaði þreyttur í kvöld og var í basli með Craion sem átti einum of auðvelt með að brjóta sér leið í átt að körfunni okkar í kvöld.“

Sverrir segir að tímabilið hafi verið kaflaskipt hjá Grindavíkurliðinu og meiðsli og önnur skakkaföll fyrir áramót hafi orðið liðinu að falli. Sverrir er þó ánægður með þann karakter sem liðið sýndi í því mikla mótlæti sem Grindavík mætti á tímabilinu.

„Ég er gríðarlega ánægður með karakterinn sem strákarnir sýndu í vetur. Við vorum í miklu mótlæti og miklum erfiðleikum. Það er erfitt fyrir stráka sem hafa alist upp í mikilli sigurhefð að lenda í svona ströggli og vinna ekki leiki á löngu tímabili. Það að koma alltaf á æfingu, berjast og bera höfuðið hátt er ekkert sjálfgefið. Strákarnir sneru bökum saman og peppuðu sig upp eftir áramót. Við náðum að snúa þessu við. Við fengum svo sterka leikmenn inn í liðið og við hefðum viljað gera betur í þessu einvígi.“

Sverrir telur að hann hafi verið að spila við tilvonandi Íslandsmeistara í kvöld.

„Við erum að spila við feykilega öflugt lið sem að ég tel að fari alla lið og verði Íslandsmeistarar. Ef að ekkert óvænt kemur upp á og allt spilast eðlilega þá fer KR alla leið og verður Íslandsmeistari að mínu mati.“

Sverrir býst ekki við öðru en að halda áfram með Grindavíkurliðið á næsta tímabili.

„Ég á ár eftir af samningi og býst ekki við öðru en að halda áfram með liðið. Ég á ekki von á öðru en að halda áfram með liðið og klára þann samning í það minnsta. Við tökum smá frí núna og mætum svo af fullum krafti til leiks og viljum að sjálfsögð gera betur á næsta tímabili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert