Þekkjum þessa tilfinningu og viljum ekki upplifa hana aftur

Gunnar Einarsson í baráttunni gegn Haukum.
Gunnar Einarsson í baráttunni gegn Haukum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

,,Við vorum að elta allan leikinn. Við komumst yfir í smá tíma og náðum ekki að nýta okkur það moment," sagði Gunnar Einarsson, leikmaður Keflvíkinga, eftir 100:88 tap gegn Haukum í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í kvöld.

Keflvíkingar hefðu getað klárað þetta einvígi í kvöld með sigri en Haukarnir sáu þó til þess að halda spennunni gangandi. Heimamenn voru heilt yfir mun betra liðið og réðust úrslitin í byrjun fjórða leikhluta.

,,Það er vissulega svekkjandi en við komum ekki af fullum huga inn í þennan leik. Við vorum ekki að berjast nóg í vörninni og það er í raun okkar akkilesarhæll í þessum leik, þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta fyrir næsta leik og nú þurfa þeir að koma til okkar og við erum sterkir þar og hlakka bara til að mæta þeim." sagði Gunnar í kvöld.

Keflvíkingar voru slakir í fyrsta leikhluta en mættu baráttuglaðir inn í annan. Liðið tókst að minnka forskot Hauka úr tíu stigum og yfir í tvö. Gestirnir komust svo yfir í byrjun þess þriðja áður en liðið gaf eftir.

,,Við vorum bara að elta allan leikinn. Við komust yfir í smá tíma og náum ekki að nýta okkur það moment. Við þurfum að vinna betur úr okkar hlutum, spila vörn og spila eins og lið."

,,Þeir sigldu fram úr okkur í fjórða leikhlutanum en við vorum samt búnir að elta allan leikinn, það er eitthvað sem við þurfum að laga. Við þurfum að vera með yfirhöndina," sagði hann ennfremur.

Keflavík er þó enn í lykilstöðu og fær annan séns á að loka einvíginu á mánudag er Haukar fara í Sláturhúsið.

,,Við ætlum að sjálfsögðu að gera það. Þeir eru undir og við erum yfir. Þeir þurfa að jafna og komast yfir, við erum yfir. Við þekkjum þessa tilfinningu núna og við viljum ekki upplifa hana aftur, við töluðum um það inni í klefa núna að muna hvernig líðanin er núna og taka það út í næsta leik," sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert