Ekki unnið neitt ennþá

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, ræðir við sína menn í …
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Ómar

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR var einstaklega ánægður með dramatískan sigur KR á Njarðvík í oddaleik liðanna í Dominos deild karla í körfuknattleik í DHL höllinni í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 102:94 fyrir KR eftir tvíframlengdan leik. 

„Ég er verulega glaður. Það er búið að tala um það í allan vetur að við eigum að vinna allt. Það er langt frá því að vera sjálfgefið að vinna gríðarlega sterkt lið Njarðvíkur. En þetta er bara rétt að byrja. Við höfum ekki unnið neitt ennþá og það er nóg eftir. Nú þurfum við að ná okkur niður á jörðina og fara að hugsa um næsta einvígi. Það eru þrír sigrar í viðbót sem við þurfum að ná í.“

Leikmenn stigu upp í leiknum í kvöld

Pavel Ermolinski er nýkominn inn í lið KR aftur eftir að hafa verið fjarverandi vegna meiðsla. Finnur Freyr er bæði ánægður með hversu vel aðrir leikmenn liðsins stigu upp í fjarveru hans og framlag Pavels í leiknum í kvöld. 

„Við erum búnir að þurfa að fara í gegnum mikla aðlögun í því að spila án Pavels. Pavel harkaði svo af sér og spilaði á meiðslunum hér í kvöld. Það var frábært að sjá hann á fullu á gólfinu hér í kvöld.“

„Helgi Már Magnússon og Pavel Ermolinski fengu svo báðir fimm villur á lokamínútum leiksins og það sýnir styrk leikmannahópsins að klára þetta án þeirra. Björn Orri Kristjánsson steig svo sannarlega upp og setti stórar körfur hér undir lokin. Góð lið eru þannig að þegar einn leikmaður dettur út þá stíga aðrir upp og það var raunin hjá okkur hér í kvöld. Ég treysti öllum leikmönnunum mínum til þess að koma inn á og standa sig vel og þeir voru svo sannarlega traustsins verðir hér í kvöld.“

KR liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og komust í góða forystu í fyrsta leikhluta. Njarðvík komst svo aftur inn í leikinn í öðrum leikhluta með góðu áhlaupi. 

„Við erum í fínum málum í fyrsta leikhluta. Við spilum frábæra vörn sem skilar okkur miklu í sóknarleiknum. Í öðrum leikhluta þá fá góðir skotmenn hjá okkur fjölmörg opin skot sem að því miður rötuðu ekki niður. Við fengum tækifæri til þess að klára leikinn í öðrum leikhluta en nýttum þau ekki og hleyptum Njarðvík inn í leikinn. Góð lið eins og Njarðvík nýta sér það að þú klárir ekki leikinn og koma til baka.“

Einu markmiði náð en við erum ekki búnir að vinna neitt ennþá

„Við lendum svo undir og það þurfti mikinn karakter til þess að koma til baka eftir svona miklar sveiflur eins og voru í leiknum hér í kvöld. Við erum búnir að ná einu af þeim markmiðum sem við settum fyrir veturinn, það er fara í úrslitaseríuna. Við erum hins vegar ekki búnir að vinna eitt eða neitt ennþá. Nú höfum við tvo daga fram að fyrsta leik í úrslitaeinvíginu og við verðum að nýta tímann vel til þess að undirbúa okkur vel fyrir þann leik. Við vitum að Stólarnir eru tilbúnir og við þurfum að vera það líka.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert