1:0 fyrir KR eftir ójafnan leik

Brynjar Þór Björnsson skoraði 19 stig í fyrri hálfleik og …
Brynjar Þór Björnsson skoraði 19 stig í fyrri hálfleik og er hér í baráttunni. mbl.is/Golli

KR og Tindastóll mættust í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Frostaskjóli og tók KR forystuna 1:0 í rimmunni. KR vann stórsigur 94:74 og var yfir að loknum fyrri hálfleik 51:31. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari og fer sá næsti fram á Króknum á fimmtudaginn. 

Fyrsti leikhluti virtist reyndar lofa góðu en KR-ingar voru miklu betri í öðrum leikhluta og komu sér þá upp forskoti sem Sauðkrækingar voru satt að segja aldrei líklegir til að brúa. Um tíma í síðari hálfleik munaði þrjátíu stigum á liðunum og Tindastóli tókst aldrei að gera leikinn spennandi. Stólarnir léku án Bandaríkjamannsins Myrons Dempsey sem meiddist á æfingu í gær og mun hafa fengið högg á augað. 

Brynjar Þór Björnsson var í miklu stuði hjá KR og fleiri léku vel hjá meisturunum. Má þar nefna Michael Craion, Helga Má Magnússon og Darra Hilmarsson. Hjá Tindastóli var Helgi Rafn Viggósson áræðinn og reyndi eins og hann gat. Einnig voru ungu mennirnir Pétur Rúnar Birgisson og Ingvi Rafn Ingvarsson ákafir en strönduðu oft á vörn KR. 

KR hafnaði í efsta sæti í deildakeppninni og á því heimaleikjaréttinn. KR vann Grindavík 3:0 í átta liða úrslitum og Njarðvík 3:2 í undanúrslitum eftir æsilega rimmu. Tindastóll hafnaði í öðru sæti í deildakeppninni. Tindastóll vann Þór frá Þorlákshöfn 3:0 í átta liða úrslitum og Hauka 3:1 í undanúrslitum. 

Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR en Darri Hilmarsson …
Helgi Rafn Viggósson sækir að körfu KR en Darri Hilmarsson verst. mbl.is/Golli

40. mín: Leiknum er lokið með stórsigri KR 94:74. „Börnin“ fengu að spila lokamínúturnar hjá báðum liðum enda óþarfi fyrir lykilmenn að eyða frekari orku þegar ljóst var hvert stefndi. 

37. mín: Staðan er 86:62 fyrir KR. Skagfirðingar voru að rjúfa 60 stiga múrinn þegar þrjár mínútur eru eftir. Það ætti að segja okkur sitthvað um varnarleik KR. Stemningin er góð og Brynjar fékk mikið klappa áðan þegar honum var skipt út af. Nokkuð þétt er staðið fyrir aftan báðar körfurnar og einnig eru stólar við horn vallarins gegnt stúkunni. Ætli Biggi Fins viti af þessu?

34. mín: Staðan er 80:54 fyrir KR. Ég ætla rétt að vona að þessi leikur sé ekki fyrirboði um það sem koma skal í rimmunni, þ.e.a.s skortur á spennu. Ég hafði séð fyrir mér dýnamísku rimmu á milli þessara liða, svona með tilliti til leikjanna þriggja sem þau höfðu spilað fyrr í vetur. Vitaskuld munar um Dempsey og vonandi getur hann beitt sér í næsta leik. 

31. mín: Staðan er 72:54 fyrir KR. Síðasti leikhlutinn er hafinn. Þau tíðindi voru að berast í blaðamannastúkuna að metsöluhöfundur Skagfirðinga, Björn Jóhann Björnsson, sé ekki á áhorfendapöllunum. Hans menn eru líka hálf miður sín á inni vellinum. 

30. mín: Staðan er 72:52 fyrir KR. Einungis síðasti leikhlutinn eftir. Jafn mikill munur og var að loknum fyrri hálfleik. Lítil villuvandræði í gangi hjá liðunum en þó eru þrír með 3 villur: Craion, Finnur Atli og Darrel Keith. Hér þurfa að eiga sér stað hamfarir á tíu mínútna kafla til þess að koma í veg fyrir að KR verði 1:0 yfir að loknum fyrsta leik.

28. mín: Staðan er 68:47 fyrir KR. Viljinn er mikill hjá Helga Rafni sem hefur skorað 16 stig gegn sterkri vörn KR. Meira þarf þó til að slá meistarana út af laginu. Þar eru margir prýðilega inni í leiknum og Darri og Helgi eru til að mynd báðir með 10 stig.  

25. mín: Staðan er 63:42 fyrir KR. Skagfirðingar hafa aðeins barið frá sér síðustu tvær mínúturnar eða svo en þeir eiga bara svo langt í land. 

23. mín: Staðan er 61:34 fyrir KR. Öll spenna að fara úr þessum leik. Gríðarleg stemningin hjá KR-ingum og þeir byrja síðari hálfleikinn mjög vel. Helgi Rafn svarar með þristi fyrir Tindastól þegar munurinn var orðinn þrjátíu stig. 

20. mín: Staðan er 51:31 fyrir KR. Meistararnir miklu betri í öðrum leikhluta og eru komnir með tuttugu stiga forskot. Hér bendir ekkert til þess að þessi fyrsti úrslitaleikur verði spenandi. Því miður. Stólarnir eru án Myrons Dempsey og voru mistækir í sókninni í öðrum leikhluta. KR-ingarnir eru skynsamari og klókari í sókninni. Eru auk þess að spila afskaplega góða vörn. Brynjar er í miklu stuði með 19 stig og Craion er með 10 stig. Pétur hefur skorað 8 fyrir Tindastól og Ingvi er með 6 stig. Ungu mennirnir sem sagt atkvæðamestir hjá Stólunum. 

18. mín: Staðan er 41:25 fyrir KR. Sauðkrækingar sýna veikleikamerki og Íslandsmeistararnir láta kné fylgja kviði. Nú stefnir allt í að KR verði búið að koma sér upp miklu forskoti fyrir hlé. 

15. mín: Staðan er 34:23 fyrir KR. Brynjar Þór er í banastuði og var að setja niður sitt fjórða þriggja stiga skot. Ég man ekki eftir honum í þessum ham síðan í úrslitarimmunni 2011. Er kominn með 14 stig og forskot KR er skyndilega ellefu stig. 

14. mín: Staðan er 27:23 fyrir KR. Leikurinn hefur róast aðeins í upphafi annars leikhluta. KR-ingar halda smá forskoti. 

Michael Craion og Helgi Rafn Viggósson bítast um boltann.
Michael Craion og Helgi Rafn Viggósson bítast um boltann. mbl.is/Golli

10. mín: Staðan er 22:19 fyrir KR. Þriggja stiga forskot eftir fyrsta leikhluta. Leikurinn lofar góðu. Stólarnir virðast ekki sakna Dempsey um of en það gæti breyst þegar á líður. Darrel Lewis byrjar vel og hefur gert 5 stig. Hann verður að vera drjúgur fyrir Tindastól í kvöld. Brynjar er með 11 stig og þar af þrjá þrista fyrir KR. 

8. mín: Staðan er 17:13 fyrir KR. Brynjar með annan þrist og 8 stig alls. Góð tíðindi fyrir KR að hann sé heitur. 

7. mín: Staðan er 13:13. Mikil barátta strax í upphafi og dómararnir virðast ætla að leyfa mönnum að takast aðeins á. Reyndir menn sem annast dómgæsluna í kvöld, Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson og Rögnvaldur Hreiðarsson. 

4. mín: Staðan er 10:10. Ingvi er svellkaldur og hefur sett niður tvo þrista fyrir Stólana. Byrnjar er einnig búinn að setja niður þrist fyrir KR. Mjög fjörug byrjun.  

1. mín: Staðan er 2:0 fyrir Tindastól. Leikstjórnandinn ungi Pétur Rúnar skorar fyrstu körfuna eftir laglegt gegnumbrot. Finnur þjálfari KR setur Darra á Pétur sem er athyglisvert. 

Michael Craion og Pétur Rúnar Birgisson í DHL-höllinni í kvöld.
Michael Craion og Pétur Rúnar Birgisson í DHL-höllinni í kvöld. mbl.is/Golli

Lið KR: Brynjar Þór Björnsson, Ingvaldur Magni Hafsteinsson, Þorgeir Kristinn Blöndal, Michael Craion, Björn Kristjánsson, Þórir Guðmundur Þorbjargar, Helgi Már Magnússon, Darri Freyr Atlason, Vilhjálmur Kári Jensson, Darri Hilmarsson, Finnur Atli Magnússon, Pavel Ermolinskij.

Lið Tindastóls: Ingvi Rafn Ingvarsson, Sigurður Páll Stefánsson, Pétur Rúnar Birgisson, Helgi Freyr Margeirsson, Finnbogi Bjarnason, Svavar Atli Birgisson, Hannes Ingi Másson, Viðar Ágústsson, Derrel Lewis, Helgi Rafn Viggósson, Darrell Flake. 

Kl 19:10. Bandaríkjamaðurinn Myron Dempsey er ekki leikfær í kvöld og er ekki á skýrslu. Hann mun hafa meiðst á æfingu hjá Stólunum í gær. Munar um minna en hann var einnig meiddur þegar KR sló Tindastól út úr bikarnum í vetur en þá reyndi hann að beita sér. 

Kl 18:55. Ekki vantar kunnugleg andlit í stúkuna úr hinum ýmsu kimum þjóðfélagsins. Fyrir utan núverandi og fyrrverandi leikmenn í körfunni, bæði karla og kvenna, þá er Ólafur Björn Loftsson atvinnumaður í golfi mættur, Magnús Gylfason athafnamaður í sjávarútveginum, Egill Örn Jóhannsson bókaútgefandi, Margrét Elíasdóttir starfsmaður KSÍ, Kjartan Guðmundsson útvarpsmaður, að ógleymdum Karli Blöndal aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins. Þá nefni ég einungis fólk sem situr fyrir framan mig. Áðan sást einnig til fyrrum knattspyrnumanna í KR, Hilmars Björnssonar, Einars Þórs Daníelssonar og Arnars Jón Sigurgeirssonar þar sem þeir stungu saman nefjum. Hafa þeir eflaust velt því fyrir sér hvort sótt yrði fram kantana í leiknum. Ég sé ekki nægilega vel til Sauðkrækinga í stúkunni en þeirra hluti stúkunnar er þó augljóslega þéttsetinn.

Kl 18:40. Ekki er annað að sjá en að stúkan í KR-heimilinu sé nú þegar orðin full. Hins vegar er búið að koma fyrir pöllum fyrir aftan körfurnar eins og KR-ingar hafa oft gert þegar þeir eru í úrslitum. Það hjálpar töluvert til við að koma fleirum inn í húsið. 

Kl 18:30. Allir leikmenn liðanna eru leikfærir og tilbúnir í slaginn eftir því sem næst verður komist. Liðin hafa teflt fram öllum sínum mönnum í síðustu leikjum en KR-ingar hafa enn áhyggjur af því að landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij hafi ekki náð sér fullkomlega. 

Dómarar leiksins, Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson.
Dómarar leiksins, Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert