Snæfell sótti sigur til Keflavíkur

Frá leiknum í Keflavík í kvöld.
Frá leiknum í Keflavík í kvöld. mbl.is/Skúli Sig

Keflavík og Snæfell áttust við í öðrum úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik í Keflavík. Snæfell hafði betur 85:76 og hefur nú 2:0 yfir í rimunni en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

Snæfell vann fyrsta leikinn í Stykkishólmi. Snæfell á titil að verja og hafnaði í efsta sæti Dominos-deildarinnar en Keflavík var í 2. sæti. Snæfell getur tryggt sér titilinn í næsta leik sem verður á heimavelli liðsins í Hólminum.

Keflavík - Snæfell 76:85

TM höllin, Úrvalsdeild kvenna, 24. apríl 2015.

Gangur leiksins:: 4:6, 10:13, 15:24, 22:31, 25:38, 25:40, 34:49, 42:52, 46:56, 50:58, 55:61, 63:66, 65:68, 74:72, 76:79, 76:85.

Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 43/11 fráköst/7 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 16/10 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 9/7 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 6, Hallveig Jónsdóttir 2.

Fráköst: 21 í vörn, 8 í sókn.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 43/11 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 17/13 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/7 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 5/6 fráköst/6 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5, María Björnsdóttir 4, Berglind Gunnarsdóttir 2.

Fráköst: 30 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Jón Bender, Davíð Tómas Tómasson.

Fylgst var með hér á mbl.is

40. mín. Leiknum er lokið. Snæfell sigraði og er 2:0 yfir. Þegar um 5 mínútur voru til loka leiks komust Keflavík yfir í leiknum í fyrsta skipti þegar Carmen Tyson Thomas skoraði og kom heimastúlkum í stöðuna 74:72.  Liðin skiptust á það skora megnið af leikhlutanum en þegar um tvær mínútur voru til loka leiks þá skoraði Kristen McCarthy mikilvæga körfu og kom gestunum í 5 stiga forystu og við það tók Sigurður Ingimundarson leikhlé í þeirri von að ná síðustu atlögu að sigrinum því ekki leit það vel út með 1:20 eftir á klukkunni og 5 stigum undir.  Þennan mun náðu Keflavík ekki að brúa þrátt fyrir ágætis baráttu. Leikurinn endaði 76:85 og Snæfell leiðir nú 2:0 í einvíginu. 

30. mín: Staðan er 66:63 fyrir Snæfell. Keflavík hóf að naga niður muninn hægt og bítandi í þriðja leikhluta.  Í raun engin súper leikur hjá þeim Keflvísku en nóg gerðu þær á báðum endum vallarins og þá sérstaklega varnarlega og augljóst að ræða þjálfarans í hálfleik var að skila sér að einhverju leyti.  Það var hinsvegar Carmen Tyson Thomas sem tók sóknarleik Keflavíkur á herðar sér og setti niður hverja körfuna á fætur annari og munurinn aðeins 3 stig fyrir síðasta leikhlutann, 63:66. Það er von á gríðarlegri spennu í síðasta fjórðung leiksins!

20. mín: Staðan er 52:42 fyrir Snæfell. Annar leikhluti hófst á því að flautan í húsinu bilaði og töf varð á leiknum í einhvern tíma á meðan reynt var við viðgerð á kerfinu. En leikurinn hófst svo að lokum og enn og aftur voru Snæfell að hamra stálið heitt. Þegar um 5 mínútur voru liðnar inn í fjórðunginn voru þær komnar í 15 stiga forskot, 25:40 og sóknarleikur Keflavíkur í molum. Einstaklings framtakið í hávegum haft og engin að spila saman.

Snæfell voru á meðan að láta boltann rúlla sín á milli og láta leikkerfi sína finna opnu skotin. Keflavík náðu með herkjum að laga sinn hlut á lokakafla leikhlutans og minkuðu muninn niður í 10 stig og staðan í hálfleik, 42:52. Verðskulduð forysta gestanna og Kristin McCarthy leiðir þær og hefur skorað tæplega helming stiga liðsins eða 24 þeirra. Hjá Keflavík er Carmen Tyson Thomas með 17 stig. 

10. mín: Staðan er 31:22 fyrir Snæfell. Snæfell hóf þennan leik af töluvert meiri krafti en Keflavík og virtist þessi barátta þeirra í byrjun hreinlega koma heimaliðinu á óvart. En Keflavík voru þó aldrei langt undan þrátt fyrir mikið af smá mistökum í sínum leik eins og slökum sendingum og slíku. Hittni Snæfell í byrjun var með ólíkindum og 60% nýting (4/6)  í þriggjastiga skotum þeirra segir alla þá sögu.

Keflvíkurliðið þarf heldur betur að taka til í sínum leik ef þær ætla sér eitthvað hér í kvöld. Snæfell virðist hinsvegar vera meira en tilbúnar í það að taka sigur hér í kvöld. Carmen Tyson Tyson Thomas lagaði stöðuna örlítið fyrir Keflavík í lok leikhlutans með flautu þrist. Staðan 22:31 gestina í vil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert