Besti varnarmaðurinn stigahæstur

Kawhi Leonard, hvítklæddur til vinstri, hefur hér góðar gætur á …
Kawhi Leonard, hvítklæddur til vinstri, hefur hér góðar gætur á Chris Paul. AFP

Meistararnir í San Antonio Spurs sýndu mátt sinn og meginn þegar þeir lögðu Los Angeles Clippers á heimavelli sínum í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

SA Spurs vann öruggan sigur, 100:73, og leiðir einvígið, 2:1. Kawhi Leonard sem í gær var útnefndur besti varnarmaður deildarinnar sýndi að hann er líka góður sóknarmaður en hann skoraði 32 stig sem er mesta stigaskor hans í deildinni frá upphafi.

Leonard hitti úr 13 af 18 skotum sínum í leiknum, stal þremur boltum og varði tvö skot. Boris Diaw kom af bekknum og skoraði 15 stig og tók sex fráköst en Tim Duncan, sem tvívegis hefur verið valinn leikmaður ársins í NBA, hafði hægt um sig og skoraði aðeins 4 stig. Liðin mætast aftur á heimavelli SA Spurs á morgun. Blake Griffin var atkvæðamestur í liði Clippers en hann skoraði 14 stig, tók 10 fráköst og átti 5 stoðsendingar.

Houston er komið í 3:0 gegn Dallas en liðið fagnaði sigri á heimavelli Dallas í Texas í nótt í spennandi leik, 130:128. James Harden fór á kostum og skoraði 42 stig og hann skoraði körfu 13 sekúndum fyrir leikslok sem tryggði sigurinn. Dwight Howard lagði einnig sitt af mörkum í sigri Dallas en hann hirti 26 fráköst í leiknum.

Úrslitin urðu þessi:

Vesturdeild:
Dallas – Houston 128:140
(Houston er 3:0 yfir)

SA Spurs – LA Clippers 100:73
(SA Spurs er 2:1 yfir)

Austurdeild:
Washington – Toronto 106:99
(Washington er 3:0 yfir)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert