Skoraði sigurkörfuna haltrandi

Chris Paul og leikmenn LA Clippers fagna eftir að hann …
Chris Paul og leikmenn LA Clippers fagna eftir að hann skoraði sigurkörfuna mögnuðu í nótt. AFP

Chris Paul kom Los Angeles Clippers í aðra umferðina í úrslitakeppni NBA deildarinnar eftir að hafa skorað sigurkörfuna í sigri Clippers gegn meisturum San Antonio Spurs, 111:109, í æsispennandi leik hér í Staples Center í sjöunda leik liðanna í nótt.

Þetta var einn besti NBA leikur sem undirritaður hefur séð í gegnum árin, og kalla ég ekki allt ömmu mína í þeim efnum – eftir að hafa fylgst með Los Angeles Lakers vinna fimm meistaratitla í þessari íþróttahöll. 47 sinnum í leiknum leiddi skoruð karfa eða vítaskot til að lið jafnaði eða tók forystuna í leiknum, svo jafn var hann frá byrjun til enda.

Sjöundu leikir leiksería einkennast ávallt af mikilli spennu og ákveðni. Það þýðir ekkert að hvíla leikmenn of mikið og ef menn meiðast er bara farið aftur í leikinn ef nokkur möguleiki er. Í þessum leik tognaði vinstri hnébótarsin Chris Paul, leikstjórnanda Clippers, fyrst leikhlutanum. Kappinn haltraði inn í búningsherbergi Clippers eftir að ljóst var hvað að var, en hann náði loks að komast til leiks aftur síðustu fjórar mínútur hálfleiksins. Jamal Crawford fyllti skarð Paul vel á þeim tíma og hélt Clippers í leiknum með atorku sinni.

Í seinni hálfleiknum var það sama upp á teningnum og liðin voru aldrei með meira en fimm stiga forystu. Augljóst var því lengra sem leið á leikinn að út á hann yrði gert á lokasekúndunum.

Tim Duncan jafnaði leikinn, 109:109, þegar tæplega níu sekúndur voru eftir. Clippers tók þá leikhlé og í sókninni náði Paul að gera atlögu að körfunni hægra meginn. Þar mættu þeir Danny Green og Tim Duncan til varnar og neyddu hann í erfitt skot á ferð til hliðar í vítateignum. Fæstir áhorfendur von á því að skotið rataði rétta leið þar sem Duncan virtist í góðri stöðu að blaka skotinu í burtu. Þá var eins og tíminn stoppaði. Skotið fór hinsvegar hátt yfir Duncan, af spjaldinu og niður þegar ein sekúnda var eftir, 111:109.

Allt varð brjálað í Staples Center

San Antonio tók leikhlé og reyndi sendingu og skot inn í vítateignum, en Matt Barnes náði að slá sendinguna út á leikvöllinn um leið og leiktíminn rann út. Allt varð brjálað hérna í Staples Center. Fólk í kringum mig var hoppandi upp og niður, öskrandi og faðmandi alla í kringum sig - við fréttafólkið rólegt að venju við tölvurnar okkar.

Þetta var viðeigandi endir á langbestu leikseríu umferðarinnar. Leikir liðanna voru flestir hnífjafnir og hvað eftir annað náði annað liðið að vinna leik þegar allt virtist vera fara í óefni.

Bæði lið léku þennan leik frábærlega. Ekkert var gefið og barist var um hvern lausan bolta og fráköst. Á endanum var það hinsvegar baráttuskapið og vilji Paul sem gerði útslagið í lokin. Hann átti sýnilega erfitt uppdráttar líkamlega, en neitaði að gefast upp.

„Ég náði að hugsa um hve mikið var í húfi fyrir okkur í þessum leik og sagði við sjálfan mig að
samherjar mínir myndu allir reyna að komast aftur í leikinn. Ég hef lent í svipari stöðu í lok leikja á keppnistímabilinu með þetta skot í lokin og í flest skipti hef ég geigað. Það loksins gekk upp í þessum leik,” sagði Paul í leikslok.

Blake Griffith var sterkur að vanda fyrir Clippers með 24 stig, 13 fráköst og tíu stoðsendingar.

Clippers mætir Houston Rockets í annarri umferðinni og fer fyrsti leikur liðanna fram í Texas á mánudag.

Tim Duncan átti enn einn stórleikinn fyrir Spurs – lék eins og hann gerði fyrir áratug með 27 stig og ellefu fráköst. Tony Parker var með 20.

Spurningin verður nú hvað gerast muni hjá Spurs á næstu mánuðum. Liðið þarfnast endurnýjungar í leikmannahópnum og búast má við að kjarninn í liðinu undanfarin ár muni breytast. Það er hinsvegar spurning fyrir annan dag.

Hér í Staples Center var enginn Englaborgari að spá í þá hluti.

Chris Paul og Tim Duncan ræða málin í leikslok.
Chris Paul og Tim Duncan ræða málin í leikslok. AFP
Steve Ballmer eigandi Los Angeles Clippers fagnar Chris Paul.
Steve Ballmer eigandi Los Angeles Clippers fagnar Chris Paul. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert