Síðasta tímabilið framundan hjá Bryant?

Kobe Bryant leikmaður LA Lakers
Kobe Bryant leikmaður LA Lakers AFP

Mitch Kupchak, fyrrum samherji Péturs Guðmundssonar hjá Los Angeles Lakers og núverandi framkvæmdastjóri félagsins, varpaði hálfgerðri sprengju í útvarpsþætti í kvöld. Sagði hann stórstjörnuna Kobe Bryant hafa tjáð sér að næsta tímabil yrði hans síðasta í boltanum.

„Hann hefur gefið það í skyn við mig. Engar viðræður hafa átt sér stað um að hann haldi lengur áfram og ég sé ekki fyrir mér að það verði,“ sagði Kupchak meðal annars í þættinum. 

Kobe Bryant verður 37 ára í ágúst en helstu stjörnur NBA-deildarinnar eru oft á tíðum að fram undir fertugt. Bryant hefur hins vegar verið óheppinn með meiðsli síðustu árin auk þess sem Lakers hefur gefið verulega eftir.

LA Lakers gæti þó mögulega bitið frá sér næsta vetur ef Bryant verður heill. Liðið fékk annan valrétt í nýliðavalinum og hefur víst svigrúm til þess að ná sér í leikmenn í sumar sem eru með lausa samninga. 

Kobe Bryant er tvöfaldur Ólympíumeistari með Bandaríkjunum og fimmfaldur NBA-meistari með LA Lakers. Hann hefur einu sinni verið valinn besti leikmaður deildarinnar og tvívegis besti maður úrslitakeppninnar. Hann er þriðji stigahæsti maður deildarinnar frá upphafi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert