Harden og félagar stimpluðu sig inn

James Harden býr sig undir að skora gegn Draymond Green …
James Harden býr sig undir að skora gegn Draymond Green í nótt. AFP

Houston Rockets hélt sér á lífi í einvíginu við Golden State Warriors í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni með sigri í nótt, 128:115. Staðan í einvíginu er því 3:1 Golden State í vil.

Eftir niðurlægjandi tap í síðasta leik mættu heimamenn í Houson ákveðnir til leiks með James Harden fremstan í flokki. Hann skoraði heil 45 stig, fleiri en nokkru sinni fyrr í úrslitakeppni.

Houston komst í 45:22 í fyrsta leikhluta. Golden State tókst að minnka muninn í 66:59 rétt fyrir hálfleik en Jason Terry setti svo niður þrist og staðan 69:59 í hálfleik. Houston hélt gestunum í öruggri fjarlægð eftir það.

„James átti stórbrotinn leik,“ sagði Kevin McHale, þjálfari Houston.

Klay Thompson skoraði 24 stig fyrir Golden State og Stephen Curry 23. Curry fékk högg á höfuðið í fyrsta leikhluta og fékk meðferð við heilahristing:

„Þetta var léttvægt miðað við hvernig þetta leit út. Ég fæ góða hvíld og verð tilbúinn í næsta leik. Þetta hefur ekkert versnað,“ sagði Curry eftir leik. Liðin mætast næst aðfaranótt fimmtudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert