Kominn tími til að stíga næsta skref

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Íslands.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Íslands. Ómar Óskarsson

 „Ég held að þetta sé nokkuð góður dráttur fyrir okkur,“ sagði Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik, í samtali við mbl.is í morgun. Dregið var í riðla fyrir undankeppni Evrópumeistaramóts kvenna 2017 í dag þar sem Ísland lenti í riðli með Slóvakíu, Ungverjalandi og Portúgal.

„Við vitum að Slóvakía er með sterkt lið, en ég held að annars sé þetta bara nokkuð skemmtilegur dráttur, þó þetta séu mikil ferðalög líka. Ég veit lítið um Portúgal en held að við ættum að geta tekið einhverja leiki frá þessu,“ segir Ívar, en Ísland slapp við sterkar þjóðir eins og Evrópumeistara Serbíu.

Ísland var í fjórða styrkleikaflokki fyrir dráttinn, en þetta er í fyrsta sinn frá undankeppninni 2009 sem Ísland er skráð til leiks. Í fyrsta sinn verður keppt í svokölluðum landsleikjagluggum sem koma inn í keppnistímabilin, en áður var einungis spilað á sumrin á milli tímabila. Það hefur sína kosti og galla.

„Tækifæri fyrir aðrar“

„Það er mjög gott en á móti kemur að þá fáum við ekki stelpurnar sem spila í Bandaríkjunum sem er mjög slæmt. Ef þetta hefði verið spilað í sumar þá hefðu þær getað verið með, en þær fá einfaldlega bara ekki frí úr skólunum,“ segir Ívar sem getur því ekki kallað til þær Söru Rún Hinriksdóttur, Hildi Björg Kjartansdóttur og Margréti Rósu Hálfdánardóttur. Munar um minna.

„Við missum þar þrjá mjög góða leikmenn. Það er mikill missir en það er líka bara tækifæri fyrir aðrar. Það er pottþétt að heimavöllurinn mun skipta máli í þessum leikjum þar sem það verður erfitt að ferðast,“ segir Ívar og segir riðilinn gott tækifæri fyrir íslenskan kvennakörfubolta.

„Það er frábært tækifæri að stíga þetta skref loksins fyrir íslensku kvennakörfuna. Stelpurnar að fá að spila á móti alvöru þjóðum, það er kominn tími til. Maður verður ekki betri nema að spila á móti betri þjóðum, það er bara þannig.

Það er kominn tími til að stíga næsta skref og vera ekki alltaf bara á þessum Smáþjóðaleikum þar sem við fáum kannski einn erfiðan leik. Það er auðséð að við erum að fá þjóðir sem við eigum að geta gert góða hluti á móti,“ sagði Ívar við mbl.is, en hann fer með liðið í æfingaferð til Danmerkur á þriðjudag og hefur einnig boðað til landsliðsæfinga í ágúst.

Sara Rún Hinriksdóttir mun ekki geta tekið þátt í landsleikjunum.
Sara Rún Hinriksdóttir mun ekki geta tekið þátt í landsleikjunum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert