Golden State sló metið

Stuðningsmaður Golden State og afmælisbarn á leiknum í nótt.
Stuðningsmaður Golden State og afmælisbarn á leiknum í nótt. AFP

NBA-meistararnir í Golden State Warriors settu í nótt met í NBA-deildinni þegar þeir unnu gamla stórveldið LA Lakers 111:77. Hafa þeir unnið fyrstu sextán leiki sína á tímabilinu sem er met. 

Stephen Curry sem farið hefur hamförum í haust skoraði 24 stig fyrir Golden State og gaf níu stoðsendingar en enginn skoraði meira en 10 stig hjá Lakers sem byrjað hefur mjög illa á tímabilinu og aðeins unnið tvo leiki af fjórtán. Til að gera kvöldið enn verra fyrir Lakers hitti stórstjarnan Kobe Bryant úr einu af fjórtán skotum sínum. 

Metið var orðið býsna gamalt því Washington Capitals settu það árið 1948 en Houston Rockets jafnaði það árið 1993. 

Alls hefur Golden State unnið tuttugu deildarleiki í röð ef síðasta tímabili er bætt við. Liðið getur nú horft til tveggja annara meta og reynt við þau eftir glæsilega byrjun. Annars vegar hefur lið mest unnið 33 deildarleiki í röð í NBA en það gerði Lakers tímabilið 1971 - 72. Hins vegar metið yfir flesta sigra á einu tímabili er 72 sigrar af 82 mögulegum. Er það met í eigu hins firnasterka liðs Chicago Bulls tímabilið 1995-1996. 

Úrslitin í nótt: 

Golden State - Lakers: 111:77

Washington - Indiana: 106:123

Atlanta - Boston: 121:97

Memphis - Dallas: 110:96

Denver - LA Clippers: 94:111

Portland - Chicago: 88:93

Vel fór á með þeim Stephen Curry og Kobe Bryant …
Vel fór á með þeim Stephen Curry og Kobe Bryant í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert