Lifa á því að lyfta og spila körfubolta

Helena Sverrisdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Helena Sverrisdóttir með boltann í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Helena Sverrisdóttir var stigahæst hjá Íslandi sem fyrr þegar liðið tapaði fyrir Slóvakíu, 72:55, í undankeppni Evrópumótsins í Laugardalshöll í kvöld. Hún skoraði sextán stig en var þó nokkuð fúl að hafa ekki sett fleiri.

„Ég er svolítið fúl út í sjálfa mig að ná ekki að setja nein skot þarna í síðari hálfleik. Við vorum að spila flotta vörn en það vantaði að skora á köflum, en frábær barátta þrátt fyrir að það hafi vantað svolítið sóknarlega,“ sagði Helena við mbl.is eftir leikinn. Hún segir líkamlega yfirburði slóvakíska liðsins hafa sagt til sín.

„Þetta eru allt atvinnumenn og lifa á því að lyfta og spila körfubolta á hverjum degi. Það er erfitt að keppa við það en það sem við getum gert er að berjast. Við verðum að hitta á góðan sóknarleik til þess að eiga sénsinn en það gerðist því miður ekki í seinni hálfleiknum í dag,“ sagði Helena, en telur margt mega byggja á eftir þennan leik sem og leikinn við Ungverja ytra á laugardag.

„Við vissum að þetta yrði erfitt án þriggja leikmanna sem eru sterkar sóknarlega. Það þurftu nýjar stelpur að stíga upp og það er langt síðan við höfum spilað svona erfiða landsleiki. En við lærum bara af þessu og komum sterkar til baka,“ sagði Helena.

Hún þekkti vel til leikmanna Slóvakíu, en hún lék þar í landi með liði Good Angels Kosice um hríð.

„Ég hef spilað við allar tólf nema eina, annað hvort með þeim eða á móti þeim, svo ég þekkti þær ágætlega. Þetta eru líka gömlu þjálfararnir mínir, svo það var tekið vel á manni. En svo er bara knúsast eftir á,“ sagði Helena Sverrisdóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert