Ísland stóð í sterkum Slóvökum

Pálína Gunnlaugsdóttir í baráttunni í kvöld.
Pálína Gunnlaugsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik tapaði fyrir Slóvakíu, 72:55, í öðrum leik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2017 en þjóðirnar mættust í Laugardalshöll í kvöld. Þetta var fyrsti heimaleikur kvennaliðsins í Evrópukeppni í rúm sex ár og sá fyrsti í Höllinni.

Mikill fjöldi áhorfenda setti sinn svip á leikinn og studdu stelpurnar til dáða. Íslenska liðið byrjaði illa, en voru þó fljótar að átta sig og misstu aldrei sterkt lið SLóvakíu of langt frá sér. Þess má geta að Slóvakar eru fastagestir í lokakeppni EM og heldur betur sterkt lið.

Íslenska liðið var átta stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 19:11, og sjö stigum undir í hálfleik, 40:33. Það virtist ætla að fara illa í upphafi síðari hálfleiks þegar Slóvakar bættu í, en þá kom glæsilegur kafli Íslands. Stelpurnar skoruðu tíu stig í röð og minnkuðu muninn niður í þrjú stig, en níu stigum munaði á liðunum fyrir lokakaflann, 54:43.

Í fjórða og síðasta leikhluta sagði reynsla slóvakíska liðsins til sín, þær sigu fram úr og uppskáru sanngjarnan sigur, en hrósa ber íslenska liðinu fyrir að hætta aldrei. Það hefði verið auðvelt að hengja haus í þessari stöðu undir lokin, en það gerðist ekki enda dýrmæt reynsla fyrir komandi átök. Lokatölur 72:55.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst hjá Íslandi með 16 stig og gaf auk þess 10 stoðsendingar. Pálína Gunnlaugsdóttir kom næst með 14 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is sem sjá má í heild hér að neðan, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma á vefinn síðar í kvöld.

40. Leik lokið, lokatölur 72:55. Hetjuleg barátta hjá stelpunum en reynslumunurinn kom í ljós undir lokin. Helena var stigahæst með 16 stig og Pálína kom næst með 14.

40. Staðan er 55:68. Sigrún Sjöfn setur niður flottan þrist og undirstrikar baráttuna í íslenska liðinu. Skammt eftir núna og þá er bara að halda haus út í gegn. Berglind fær sína fimmtu villu, 20 sekúndur eftir.

39. Staðan er 52:65. Þrjú stig í röð núna. Helena setti víti og Pálína skorar eftir gott áhlaup. Slóvakíski þjálfarinn heldur áfram að öskra á sínar stelpur, hann er ekkert viss um að sigurinn sé í höfn.

38. Staðan er 49:62. Slóvakar eru að ganga á lagið núna, en stelpurnar eru að sýna hetjulega baráttu. Þær munu klára þennan leik allt til enda. Berglind Gunnars var að fá sína fjórðu villu.

35. Staðan er 49:58. Stelpurnar eru ekki búnar að segja sitt síðasta og nú setur Pálína glæsilegan þrist! Ég er þó hræddur um að reynslan gæti vegið þungt hjá Slóvökum hér á lokamínútunum, en það er langt frá því allt búið enn!

32. Staðan er 44:52. Mikið klafs í þessu fyrstu mínúturnar í fjórða hluta. Hér verður ekkert gefið eftir. Ragna Margrét var að fá sína fimmtu villu og er úr leik. Sandra Lind er sömuleiðis á hættusvæði með fjórar villur.

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 43:52. Slóvakar svöruðu þessum kafla Íslands vel, eiginlega of vel, og skoruðu sex stig í röð. Engu að síður ljóst að það verður spenna í síðasta leikhlutanum og nóg eftir! Helena er sem fyrr stigahæst þrátt fyrir að skora ekki í þriðja hluta, hefur sett fjórtán stig, og Pálína er með níu. 

28. Staðan er 43:46. Tíu stig í röð, ég er að segja ykkur það!! Guðbjörg Sverris setur niður þrist og er ekkert að kippa sér upp við það þó áhorfendur ærist! 

27. Staðan er 40:46. Flottur kafli hjá íslenska liðinu núna og sjö stig í röð! Munurinn niður í sex stig á ný. Helena fær sína þriðju villu.

25. Staðan er 36:46. Svona á að gera þetta! Ísland var í sókn og ekkert var að gerast, svo Pálína lét bara vaða langt fyrir utan og sullaði niður þessum líka flotta þrist! Tíu stiga munur.

24. Staðan er 33:46. Ragna Margrét fær sína fjórðu villu og þarf nú að halda sig á mottunni. Slóvakía hefur skorað fyrstu sex stig síðari hálfleiks og Ívar tekur leikhlé.

22. Staðan er 33:42. Það var bið eftir fyrstu stigum síðari hálfleiks en þau voru slóvakísk. Gunnhildur fékk högg á öxlina undir lok fyrri hálfleiks og enn er hugað að henni. Virtist sárþjáð en vonandi er þetta ekki alvarlegt. Virðist vera sem Sædís sjúkraþjálfari sé að teipa hana saman.

Í hálfleik er Birna Valgarðsdóttir heiðruð fyrir framlag sitt til íslensk körfuknattleiks. Hún lagði skóna á hilluna í vor, en lék 76 landsleiki á árunum 1995-2009 og er næst leikjahæsta landsliðskona Íslands.

20. Hálfleikur, staðan er 33:40. Pálína kláraði hálfleikinn nánast með flautukörfu! Hún fær áhorfendur til að fagna dátt og ég tel það gott að vera sjö stigum undir í hálfleik. Það má margt laga hjá íslenska liðinu og það vantar ákveðna grimmd á köflum, en það var hins vegar allt annað að sjá til liðsins í öðrum hluta miðað við í þeim fyrsta. Helena er stigahæst með 14 stig og næstar koma Gunnhildur með fimm og Pálína með fjögur.

19. Staðan er 31:40. Helena er að rífa sig lausa hér trekk í trekk, er komin með fjórtán stig. Það er engin nálægt henni í stigaskorun hjá Íslandi, á meðan allir leikmenn nema tveir eru komnir á blað hjá Slóvakíu. Það þurfa fleiri að taka ábyrgð.

18. Staðan er 26:34. Ragna Margrét komin í villuvandræði og er tekin af velli fyrir Söndru Lind. Þrjár villur komnar á Rögnu. Enn á ný eru Slóvakar að ná sóknarfráköstum sem er mjög dýrt, en sem betur fer fyrir Ísland er skotnýtingin ekki til fyrirmyndar - tja ekki frekar en hjá Íslandi. 

17. Staðan er 24:33. Slóvakar eru að bíta frá sér og hafa skorað fimm stig í röð. Þjálfarinn er ekki bara brjálaður út í dómarana, því hann gjörsamlega öskraði sig hásan á stelpurnar sínar hér fyrir framan mig í leikhléi áðan. Svo þagði hann í dágóðan tíma til að láta þær hugsa sinn gang. Það virðist allavega hafa aukið á grimmd þeirra.

15. Staðan er 22:26. Leikurinn er stöðvaður því Pálína virðist hafa slegið í andlit andstæðings, en um algjört óviljaverk var að ræða. Helena hafði þá rétt áður sett niður glæsilega körfu af sinni frægu áræðni, og nú setur Bryndís niður sniðskot. Glæsilegt!

14. Staðan er 18:24. Maros Kovacik, þjálfari Slóvaka, er brjálaður á hliðarlínunni yfir dómgæslunni. Finnst halla á sitt lið, meðal annars var vítaskot dæmt af vegna þess að sú slóvakíska átti að hafa stigið á línuna. En Sigrún Sjöfn lætur sér fátt um finnast og setur niður tvö víti! 

13. Staðan er 16:22. Þarna! Helena setur niður flottan þrist, en í kjölfarið ná slóvakarnir sóknarfrákasti. Það þarf að stoppa það, en gott að skotin eru farin að detta betur.

12. Staðan er 13:21. Pálína byrjar annan hlutann á góðri körfu en gestirnir eru fljótir að svara. Miklu meiri hreyfanleiki í sókninni hjá stelpunum núna. Kannski eitthvað stress í byrjun, fyrir framan metfjölda áhorfenda í fyrsta kvennalandsleiknum í Höllinni? Gæti verið! 

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 11:19. Erfið byrjun hjá íslenska liðinu og miðað við hvað mér finnst þær slóvakísku duglegar að refsa tel ég gott að vera þessum átta stigum undir eftir fyrsta hluta. Helena hefur skorað fimm stig og Gunnhildur og Berglind þrjú hvor. Þess má geta að það eru 1.178 áhorfendur í Höllinni og aldrei hafa þeir verið fleiri á kvennalandsleik. Frábærar fréttir!

10. Staðan er 11:17. Flott þetta! Berglind Gunnars fær körfu góða og víti eftir gott spil við Gunnhildi. Setur það að sjálfsögðu niður við mikinn fögnuð áhorfenda.

7. Staðan er 5:12. Það vantar takt í sóknarleikinn hjá stelpunum. Helena fær engan frið með boltann í von um að byggja upp sóknir og það vantar að fleiri taki af skarið. Eftir langa sókn ærist hins vegar Höllin þegar Gunnhildur setur niður þrist. Gott að sjá stuðninginn!

5. Staðan er 2:9. Erfið byrjun Íslands gegn sterkri vörn Slóvaka. Helena setur loks niður fyrstu stigin með sniðskoti eftir fjórar mínútur. Það gengur hins vegar illa að hitta, bæði í körfuna og á samherja. Gestirnir hirða hvert sóknarfrákastið á fætur öðru.

3. Staðan er 0:7. Bryndís skellti sér beint á andlitið í leit að fyrsta frákastinu í upphafi leiks. Já það verður ekkert gefið hér eftir! Slóvakar náðu hins vegar tveimur sóknarfráköstum strax í sinni fyrstu sókn og settu svo niður þrist. Þær fylgja því vel á eftir og hafa skorað fyrstu sjö stig leiksins.

1. Leikurinn er hafinn. Byrjunarlið Íslands: Helena - Gunnhildur - Bryndís - Pálína - Ragna Margrét. Áfram Ísland!

0. Þá er búið að spila þjóðsöngvana og stelpurnar tóku gott stríðsöskur að honum loknum. Síðan fylgdu Ferðalok Óðins Valdimarssonar, en nú er þetta allt að bresta á!

0. Það er gaman að sjá áhorfendur streyma í Höllina, og nú þegar er neðri stúkan nánast full. Stelpurnar eiga svo sannarlega stuðninginn skilið.

0. Nú þegar hálftími er í upphafsflautið eru leikmenn beggja liða mættir út á gólf til upphitunar. Það eru dynjandi tónar Sprengjuhallarinnar undir, og verð ég að segja að mér finnst alltaf gott að heyra aðeins íslenska tónlist spilaða fyrir landsleiki. Bæði til að „peppa“ íslensku liðin hverju sinni en ekki síst sjá mismunandi spurningamerki á andlitum erlendu liðanna yfir því hvað sé eiginlega í spilun.

0. Talað hefur verið um að helsti munurinn á þessu slóvakíska liði miðað við það ungverska er að andstæðingurinn hér í kvöld hefur ekki jafn mikla hæð í sínu liði. Slóvakarnir hafa einn leikmann sem er 195 cm og annan sem er 190 cm, en annars virðast flestir leikmenn vera um og yfir 180 cm, sem svipar til íslenska liðsins.

0. Landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir þekkir ágætlega til landsliðs Slóvakíu, en hún lék með liði Good Angels Kosice þar í landi um hríð. Fjórir leikmenn þaðan eru í slóvakíska liðinu og mætur hún því eflaust kunnum andlit í kvöld. Þá er landsliðsþjálfari Slóvaka einmitt hennar gamli þjálfari.

0. Lið Slóvakíu er gríðarsterkt og var meðal annars meðal þátttökuþjóða í lokakeppni EM í sumar. Þar komst liðið áfram í milliriðil en gekk illa þar og endaði að lokum í níunda sæti. Slóvakar eru fastagestir í lokakeppninni og er eitt sterkasta, ef ekki sterkasta, kvennalið sem mætt hefur hingað til lands í körfuknattleik.

0. Þetta er í fyrsta sinn sem leikið er í svokölluðum landsleikjagluggum í undankeppni Evrópumóts í körfuknattleik, en venjulega hefur öll undankeppnin verið leikin síðsumars. Sama fyrirkomulag verður tekið upp í karlaflokki eftir tvö ár, ef mig misminnir ekki.

0. Ein breyting er á liði Íslands, en inn í liðið kem­ur Marín Lauf­ey Davíðsdótt­ir úr Kefla­vík og mun Bergþóra Holt­on Tóm­as­dótt­ir, Val, hvíla í þess­um leik.

0. Velkomnir lesendur góðir hingað í Laugardalshöll þar sem íslenska kvennalandsliðið mætir Slóvakíu í sínum fyrsta heimaleik í Evrópukeppni í rúm sex ár. Stelpurnar töpuðu fyrir Ungverjalandi ytra á laugardag með 22 stiga mun, 72:50, eftir að hafa staðið í þeim ungversku lengi vel. 
Í hinum leik riðilsins hafði Slóvakía betur gegn Portúgal, 56:43.

Lið Íslands: Helena Sverrisdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Marín Laufey Davíðsdóttir, Sandra Lind Þrastardóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Auður Íris Ólafsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert