Stuðningsmennirnir vilja halda Jóni

Jón Arnór Stefánsson
Jón Arnór Stefánsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Pressan eykst nú á forráðamenn Valencia að semja á ný við íslenska landsliðsmanninn Jón Arnór Stefánsson. Jón er á skammtímasamningi hjá Valencia sem situr í toppsæti spænsku ACB-deildarinnar. 

Karfan.is greinir frá þessu og segir bæði staðarmiðla í Valencia og stuðningsmenn félagsins hafa lýst þessari skoðun opinberlega. Hörðustu stuðningsmenn liðsins mættu raunar með stóran borða á síðasta heimaleik með þeim skilaboðum tryggja skyldi starfskrafta Jóns til lengri tíma. 

Jón hefur leikið vel bæði í vörn og sókn fyrir Valencia sem unnið hefur alla sjö leiki sína í deildinni ásamt öllum leikjum sínum í Evrópubikarnum. Samið var við Jón í skyndi um miðjan september þegar Frakkinn Antoine Diot meiddist. Hann náði heilsu fyrir nokkrum vikum síðan en það hefur ekki haft nein áhrif á spiltíma Jóns. Á dögunum meiddist Belginn Sam Van Rossom en hann er bakvörður og þörfin fyrir Jón er því enn til staðar í Valencia.

Samningur Jóns Arnórs rennur því út um miðjan desember og því þurfa forráðamenn Valencia að taka ákvörðun. Jón lýsti því yfir í viðtali við Morgunblaðið á dögunum að hann hefði áhuga á því að ljúka tímabilinu með liðinu. Hann er hins vegar tæpur í hnjám, þar sem vökvasöfnun er nokkur, og taldi hann það geta haft áhrif á ákvarðanatöku Spánverjana. 

Karfan.is birti mynd af borða stuðningsmannanna. Hana má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert