Liðsheild Stjörnunnar sigurvegarinn

Logi Gunnarsson Njarðvíkingur reynir skot í leiknum í kvöld en …
Logi Gunnarsson Njarðvíkingur reynir skot í leiknum í kvöld en Tómas Heiðar Tómasson Stjörnumaður er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Í kvöld heimsótti Njarðvík Stjörnuna í Domino's-deild karla í körfuknattleik. Leiknum var að ljúka rétt í þessu með frábærum liðssigri heimamanna, 80:70 eftir að hafa verið yfir, 44:36 í hálfleik. 

Liðin eru nú  bæði með 10 stig í efri hluta deildarinnar.

Leikurinn fór vel af stað; bæði lið virtust tilbúin í hörkuleik en það voru hinsvegar heimamenn sem náðu nokkuð góðum tökum á leiknum þegar líða tók á annan hluta. Varnarleikur Stjörnunnar var mun betri á meðan Njarðvíkingar náðu aldrei að detta í almennilegan sóknargír. Liðsheild gestanna small aldrei nægilega vel og lengi saman til þess að gera heimamönnum of erfitt fyrir. Njarðvíkingum tókst hinsvegar að snúa gengi sínu í þriðja hluta og komu sterkir tilbaka með góðum varnarleik og betri nýtingu fyrir utan. Þarna munaði mest um framlag Loga Gunnarssonar og Hauks Helga Pálssonar. Þetta var hinsvegar ekki nóg þvi i lokafjórðungnum þá skellti vörn heimamanna í lás og Njarðvíkingar skoruðu aðeins 10 stig í lokahlutanum. 

Hjá heimamönnum var liðsheildin sigurvegari leiksins; varnarleikur liðsins var frábær á löngum köflum; menn börðust vel í vörninni og spiluðu sóknarleikinn skynsamlega. Al'lonzo Coleman og Ágúst Angantýsson báru af í liði heimamanna, með þá Justin Shouse, Sæmund Valdimarsson, Kristinn Ólafsson og Tómas Tómasson mjög góða. Frábær liðsheild og sigur niðurstaðan.

Njarðvíkingar komu klárlega ekki með hausinn skrúfaðan við verkefnið því pirringur einkenndi leik liðsins í fyrri hálfleik. Maciej Baginski var bestur gestanna en alveg ljóst að liðsheildin klikkaði dramatískt í þessum leik; framlagið af bekknum sýnir best hvar liðshugurinn var því aðeins 2 stig komu þaðan. Njarðvíkingar hittu á slæman dag en ástæður þess eru aðeins að finna hjá þeim sjálfum. 

Leik lokið! 80:70

1:22 - Simmons undirstrikar það sem ég sagði hérna fyrir neðan; liðið er ekki tilbúið í kraftaverkið! Fær sína 5.villu og ljóst að þessi leikur er heimamanna... 80:70

1:55 - Leikhlé! Njarðvíkingar ætla að gera lokaatlögu að þessum leik en mér finndist það kraftaverk ef slíkt næðist því það er ekkert í andrúmsloftinu í kringum liðið sem segir mér að það sé tilbúið í slíka endurkomu. Stjörnumenn virðast hafa leikinn alveg undir sinni stjórn og yrði þvílíkt klúður að um yrði lengi talað, ef liðsmönnum tekst að klúðra þessum leik. 80:70

2:00 - ÁGúst skorar eftir sendingu frá Coleman! einfaldur leikur eins og maðurinn sagði... Stjörnumenn eru ekki að fara að tapa þessum leik, svo mikið ætla ég að fullyrða um. Tómas fer á línuna og getur sett muninn í 12 stig! Klikkar úr öðru... 80:69

3:18 - Stjörnumenn að leggja grunn að sigri núna! Frábær vörn og lykilskot ofaní hafa skilað hálfum sigri hérna. Munurinn orðinn of mikill held ég og þurfa gestirnir virkilega á fljótum körfum að halda og svo nokkrum góðum stoppum... Gestir verða hinsvegar að vara sig á að fá ekki villu því þá fýkur leikmaður útaf! 77:67

4:33 - Fyrstu stig af bekk gestanna komu frá Hjalta ! Kristinn R! Ólafsson í Madrid setur þrist! Simmons fær á sig 3sekúndur og heimamenn í frábærum málum núna! 73:67

5:05 - Coleman skólar Hjalta Friðriksson á blokkinni og skorar... 70:65 - Svo virðist sem heimamenn séu álitlegri á þessum lokamínútum! 

5:43 - Frábær stoðsending frá Coleman á Ágúst. Þetta hafa þeir verið að gera vel í leiknum... 68:63

6:32 - Haukur Helgi að yfirgefa völlinn með 5 villur... restin af byrjunarliði gestanna er með 4 villur hvor! Tómas skorar úr öðru víti sínu. 66:63

7:00 - Baginski keyrir og fær villu dæmda á Shouse... hans 4.villa. 63:63

7:17 - BAginski skorar! 63:62

8:20 - Aftur fer Coleman og núna tekur hann undarlegt skot undir körfunni og klikkar! 63:60

9:19 - Coleman reynir þrist!!! Undarlegt skotval þetta. 

9:51 - Simmons fær sína 4. villu! Logi fær sina 4. villu líka! 

3.hluti allur! 63:60 - Haukur Helgi hefur látið mikið til sín taka síðustu mínútur, þristur og víti og fráköst. Njarðvíkingar er langt frá því dottnir af baki og hafa svarað áhlaupi heimamanna fyrir nokkrum mínútum mjög vel. Bæði lið eru klár til að vinna þennan leik og stemningin svissaði á milli liðanna í þessum fjórðung. Coleman var hrikalega klaufalegur í lok hans þegar hann missir boltann í hendur Loga og fær svo óíþróttamannslega villu í kjölfarið. Villuvandræðin eru töluverð hjá báðum liðum en þo verri á að líta hjá Njarðvík, þar sem Haukur og Baginski eru báðir með 4. Simmons, Logi og Ólafur Helgi allir með 3 villur. Hjá heimamönnum er Marvin þegar farinn út með 5 villur en Magnús, Ágúst og Shouse eru allir með 3 villur. Þetta gæti orðið svakalegur leikur og allt útliti einmitt fyrir það.

1:25 - Kristinn Ólafsson setur þrist fyrir heimamenn en Simmons svarar með einum slíkum. 61:55

2:39 - Logi heldur sinum við efnið með þrist. 56:52

3:00 - Bekkurinn hjá Njarðvík hefur ekki skilað einu einasta stig á töfluna! Þetta er áhyggjuefni fyrir þá. 56:49

3:38 - Tómas setur þrist! Risastór... svo fiska heimamenn ruðning á Hauk Helga, sem er kominn með 4 villur. ÞEtta er risastór tímapunktur hjá Stjörnumönnum... 56:48 

4:49 - Tómas setur víti niður. 53:48

5:58 - Haukur Helgi keyrir í gegn, skorar og fær víti... 51:48

6:07 - Marvin fær sína 5. villu, sem dómarar leiksins meta sem óíþróttamannslega. Þetta leit út fyrir að vera slys í mín augu en Haukur fær víti, sem hann skorar úr... eitthvað að snúast hérna? 51:46

7:32 - Það er annað yfirbragð á leik gestanna núna, sem eru að berjast mun betur, líkt og í upphafi leiks. 51:45

8:30 - Mikill hasar i upphafi seinni; Ágúst hefur skorað 5 stig, Haukur Helgi 4 og mikið líf komið í leikinn. 51:40 - Marvin nældi sér í sína 4. villu á þessum kafla...

Leikur hafinn! 

Hálfleikur! 44:36

Coleman hefur verið með Simmons í vasanum hingað til og það munar um þetta því svona nokkuð getur raskað sóknarskipulagi liðsins verulega. Logi hefur skorað 12, Haukur 9 og Baginski 9. Sóknarflæðið hefur hinsvegar aldrei virkað eins og liðsmenn vilja að það geri; skyttur liðsins hafa ekki nýtt sín færi nægilega vel - eitthvað sem gæti útskýrt hluta þann pirrings sem virðist hrjá liðið. Einnig hafa leikmenn liðsins klúðrað upplögðum tækifærum undir körfunni. Þetta hjálpar aldrei sál liða. Stjörnumenn hafa hinsvegar verið í mun betra jafnvægi og varnarleikur liðsins að smella saman á löngum köflum, sérstaklega þegar kemur inní teig. Menn eru duglegir í hjálparvörninni og ljóst að Hrafn hefur farið vel yfir það sem hann vildi að menn gerðu hérna í kvöld. Ef Njarðvíkingar ætla sér eitthvað í þessum leik þurfa menn að komast í einhvern varnargír og hætta að þvinga í sókn. Leggjast í skotgrafir og láta sóknina koma til sín. Ætti að verða spennandi til loka en maður veit ekki hvort Njarðvík gæti brotnað hérna í kvöld, það eru teikn á lofti um það en ómögulegt að segja. 

Stjörnumenn líta mun betur út eftir þennan hálfleik; varnarleikur liðsins er mun ákveðnari og sést þetta best á villufjöldanum. Það er augljós pirringur í gestunum, sem hafa ekki ennþá náð neinum takti, hvorki í vörn né sókn. Friðrik þjálfari liðsins hélt eina af sínum alræmdu þrumuguðsræðum þar sem raddbönd voru ekki spöruð. Það hefur hinsvegar ekki breytt gengi liðs hans, sem virðist ekki nægilega tilbúið í slaginn saman; liðsheildina skortir og menn að reyna of mikið sjálfir án þess að hjálpast nægilega vel að. 

24sek. - Bæði lið í ruglinu þessar mínútur. Nýtingin léleg, skotin líka og illa farið með frábær færi. Heimamenn stíga hinsvegar betur uppúr þessu kraðaki og sá eini með viti hjá Njarðvík er Baginski, sem berst eins og ljón. Stjörnumenn eru einfaldlega að taka völdin í þessum leik á meðan Njarðvíkingar virðast pirraðir og óeinbeittir. 43:36 

2:21 - Finnst dómarar leiksins sérstaklega lagnir við að finna villur á þá heimamenn sem eru að elta Hauk Helga... kannski bara ég! Haukur skorar úr vítum... 36:33 en skotstundu seinna setur Shouse hann ofaní og fær villu að auki! Hann er kominn með 6 stig og Njarðvík tekur leikhlé. 38:33

2:54 - Marquise Simmons fær á sig óíþróttamannslega villu og Tómas Tómasson skorar úr sínum vítum - 34:31

3:32 - Logi keyrir enn og aftur á Shouse og skorar... Stjörnumenn eiga glórulausa sókn; taka tvö sóknarfráköst en taka hræðileg skot uppúr þeim! Skamm! 

4:00 - Ólafur Helgi setur þrist fyrir gestina! Mikilvæg karfa... 32:29 

4:43 - Marvin fær sína 3.villu mjög klaufalega... hvað var ég að segja! 32:26

5:34 - Heimamenn hafa enn ekki farið á línuna! Þeir eru hinsvegar yfir í öllum þáttum tölfræðinnar og ættu í raun að vera meira yfir ef eitthvað er, sérstaklega eftir þennan dapra sóknarkafla hjá gestunum síðustu mínúturnar. 30:25

6:16 - Brotið á Hauk Helga, sem fer á línuna. 12. villan á heimamenn, sem verða að passa sig núna. Næsta villa er næstum örugglega sú þriðja á einhvern! Frábært sending frá Coleman á Ágúst, sem hefur skorað 7 stig. 30:25

7:18 - Sæmundur, Marvin, Ágúst og Tómas Tomasson allir með 2 villur. 

7:25 - Heimamenn að fá á sig 10. villu sína. 24:23

8:55 - Ágúst setur þrist fyrir heimamenn, Logi svarar með sniðskoti. 24:23

9:21 - Baginski fer a línuna og skorar... jafnar leikinn 21:21

1.hluti allur! 21:19 - Bæði lið eru fersk og klárlega tilbúinn í þennan mikilvæga slag. Mönnum er heitt í hamsi og ekki hérna til að eignast marga vini, heldur berjast vel fyrir stigunum sem er í boði. Þetta kunnum við áhorfendur að meta og mikilvægt að leikmenn skynji það . Sæmundur Valdimarsson skoraði nokkur stig í lok hlutans og kominn með 6 og Tómas 7 fyrir heimamenn, sem dreifa skorinu vel. Hjá Njarðvík hefur sóknin einnig virkað ágætlega en varnarleikur þeirra grænu á köflum ef áhugaverður og gæti verið heimamönnum erfiður þegar hann smellur. 

1:45 - Logi fiskar villu á Shouse. skorar út víti.. Ólafur Helgi nær tveimur sóknarfráköstum í sömu sókn gestanna, sem skora hinsvegar ekki! Varnarleikur Njarðvíkur lítur nokkuð vel út, menn að hjálpa vel og sýna góðar færslur. 17:18

2:22 - Brotið á Hauk Helga og hann mjög ósáttur við það ippon sem notað var á hann. Fær víti fyrir vikið og skorar úr báðum... 15:17

3:36 - Logi setur þrist uppúr hraðaupphlaupi og Tómas svarar með þrist! Komið smá lif leikinn núna en klárlega á kostnað varnarleiks beggja liða. 15:15

4:00 - Marquise skorar eftir hraðaupphlaup Njarðvíkur og Shouse svarar með skoti utan úr teig. Haukur Helgi skorar sín fyrstu stig undir körfunni og Coleman svarar því. Varnarleikurinn að slakna hérna... 12:9 

5:50 - Frábær vörn Stjörnunnar vekur upp hraðaupphlaupsleik heimamanna og Tómas slúttar vel. 8:5

6:20 - Maciej Baginski hefur skorað 5 stig. Bæði lið eru að reyna að koma boltanum inní teig. Stóru mennirnir eru hinsvegar að spila fína vörn á hvorn annan. 6:5

7:44 - Frábært gegnumbrot hjá Coleman, sem skorar. Leikurinn fer fjörlega af stað og liðið greinilega tilbúinn. 6:3

9:00 - Tómas Tómasson opnar leikinn og Maciej Baginski svarar! 2:2

Leikur hafinn! 

19:08 - Njarðvík, sem hafa verið sjóðheitir í síðustu leikjum, eru mættir í Ásgarð þar sem Stjörnumenn bíða eftir að fylgja eftir góðum leik í síðustu umferð. Stjörnumenn eiga möguleika hérna á heimavelli að jafna Njarðvík að stigum og þjappa enn betur í klasanum sem liggur undir efsta liði deildarinnar, Keflavík. Það eru allir heilir hjá báðum liðum og ég á von á hörkuleik. Áhugavert verður að sjá hvernig einvígi stóru mannanna spilast í kvöld; Coleman og Marquise. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert