Unnum á frákastabaráttunni

Ingvi Rafn Ingvarsson lék vel með Tindastóli í kvöld.
Ingvi Rafn Ingvarsson lék vel með Tindastóli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekkert nema gott um þennan leik að segja, við unnum hann á frákastabaráttunni, þar sem staðan var 42:18,“ sagði Kári Marísson aðstoðarþjálfari  Tindastóls við mbl.is eftir sigurinn á toppliði Keflvíkinga, 97:91, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld.

„Svo er útlendingurinn okkar Jerome Hill að stíga upp og að falla vel inn í liðið, sem allt spilaði frábærlega í kvöld, þó að ekki verði hægt annað en að geta um Ingva Rafn Ingvarsson sem var lykilmaður í liðinu,“ sagði Kári.

Mikilvægt eftir það sem á undan er gengið

„Þetta var auðvitað gríðarlega mikilvægur sigur, sem var bara strögl til enda, en Keflvíkingarnir voru nú enn ósigraðir þegar þeir komu hingað í kvöld.  Þessi sigur er verulega mikilvægur fyrir okkur alla í liðinu, eftir það sem á undan er gengið.,“ sagði Ingvi Rafn Ingvarsson Tindastólsmaður við mbl.is.

„ Ég er mjög sáttur við minn hlut í þessum leik og við náðum að vinna vel úr vörninni og að svara áhlaupunum sem þeir gerðu á okkur til þess að snúa leiknum sér í hag,“ sagði Ingvi. 

Gerðum afdrifarík mistök í lokin

Magnús Gunnarsson, hinn reyndi leikmaður Keflvíkinga, var að vonum ekki kátur í leikslok og sagði: " Við áttum að geta unnið þennan leik, en við gerðum afdrifarík mistök í lokin og það varð okkur bara dýrt.  En þetta var skemmtilegur leikur sérstaklega fyrir áhorfendur, en auðvitað er maður hundsvekktur og finnst ekkert vera jákvætt þegar maður tapar," sagði Magnús.

Flottur og skemmtilegur leikur

Valur Ingimundarson, sem um árabil lék með Tindastólsliðinu og þjálfaði það, var gestur á gamla heimavellinum sínum, og sagðist bara hafa skroppið með liðinu til að hafa gaman og að sjá góðan og skemmtilegan leik.  Valur Orri, sonur hans, er lykilmaður í liði Keflvíkinga.

„Ég hefði náttúrlega vilja sjá Keflvíkingana vinna, en þetta var verulega flottur og skemmtilegur leikur.  Mér fannst mínir menn ekki fylgja því nógu vel eftir þegar þeir náðu að jafna , þá var eins og þeir drægju sig örlítið í hlé og nýttu sér ekki rennslið,“ sagði Valur við mbl.is

„En það er ánægjulegt að sjá Tindastólsliðið, vörnin var oft á tíðum verulega sterk og margir leikmenn að skila gríðarlega góðu framlagi. Liðið er greinilega að rísa upp aftur eftir þetta slaka tímabil sem þeir áttu og á bullandi siglingu," sagði Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert