Myndi helst vilja 12 Íslendinga

Jakob Örn Sigurðarson er stigahæstur hjá Borås á leiktíðinni.
Jakob Örn Sigurðarson er stigahæstur hjá Borås á leiktíðinni. mbl.is/Eva Björk

Tommie Hansson, þjálfari Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta, er óspar á hrósið í garð síns gamla lærisveins, Jakobs Arnar Sigurðarsonar.

Jakob mætir sínu gamla liði í dag eftir að hafa skipt yfir til Borås í sumar.

„Hann virðist hafa fundið nýjan neista og hefur verið langbesti leikmaður Borås í vetur. Ég uni honum þess. Þetta verður svolítið sérstakur leikur. Sem þjálfari hef ég stýrt honum og byggt upp spilið í kringum hann, en núna er hann mótherji sem þarf að kortleggja. En aðallega verður það sérstakt fyrir hann að koma heim,“ sagði Hansson við Sundsvalls Tidning.

Hansson hefur haft fjölda íslenskra lærisveina hjá sér í Sundsvall, en nú er Hlynur Bæringsson einn eftir. Þjálfarinn er afar hrifinn af íslenskum leikmönnum:

„Þeir eru bara með einstakt hugarfar, sem er svolítið svona „við á móti restinni af heiminum“. Ef ég mætti ráða þá myndi ég hafa 12 Íslendinga í liðinu, með það í huga hversu stórt hjarta þeir hafa og hvernig þeir eru,“ sagði Hansson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert