Snæfell fjarlægist botnslaginn

Sherrod Wright
Sherrod Wright Ljósmynd/Atli Berg Kárason

FSu mætti Snæfelli í áttundu umferð Domino's-deildar karla í körfuknattleik karla í Iðu á Selfossi í kvöld. Leikurinn var þýðingamikill fyrir bæði lið, en FSu gat minnkað mun liðanna niður í tvö stig með sigri á meðan Snæfell gat fjarlægst botnbaráttuna um stundarsakir með því að bera sigur úr býtum. 

Lokatölur í leiknum urðu 110:97 Snæfelli í vil. Snæfell kom sér í miðjupakka deildarinnar með sigrinum í kvöld. Grindavík, Þór Þorlákshöfn, Tindastóll og Snæfell hafa nú öll átta stig í 6. - 9. sæti deildarinnar. 

Sherrod Nigel Wright var frábær í liði Snæfells í kvöld og skoraði 35 stig. Chris Woods spilaði að sama skapi leikið frábærlega í frumraun sinni með FSu og skoraði 34 stig.

40. Leik lokið með sigri gestanna frá Stykkishólmi. Lokatölur í leiknum urðu 110:97. 

35. Staðan er 90:79 fyrir Snæfell. Heimamenn ná ekki áhlaupinu sem vantar og gestirnir virðast vera að sigla sigrinum í land. Sigurður Þorvaldsson skorar og fær víti að auki sem hann setur niður. Nú fer hver að vera síðastur hjá FSu að leiða áhlaup. 

30. Þriðja leikhluta er lokið. Staðan er 83:75 fyrir Snæfell. Sherrod Nigel Wright hefur verið frábær í liði Snæfells í kvöld og er kominn með 30 stig. Chris Woods hefur að sama skapi leikið frábærlega í frumraun sinni með FSu og hefur einnig skorað 30 stig. Það lítur allt út fyrir sigur gestanna, en heimamenn hafa verið ólseigir og gætu fengið eitthvað út úr þessum leik. 

25. Staðan er 72:61 fyrir Snæfell. Snæfell hefur byrjað seinni hálfleikinn ögn betur, en FSu er þó enn í seilingarfjarlægð og neitar að gefast upp. 

20. Öðrum leikhluta er lokið. Staðan er 55:51 fyrir Snæfell. Liðin skiptast á að hafa forystuna og ef fram heldur sem horfir þá munu úrslitin ráðast á lokaandartökum leiksins. Sveinn Arnar Davíðsson sem tók fram skóna í þessum leik er kominn á blað. Chris Woods er stigahæstur í liði FSu með 16 stig í sínum fyrsta leik fyrir liðið. Sherrod Nigel Wright er aftur á móti atkvæðamestur í liði Snæfells með 20 stig. Snæfell vann þennan leikhluta 35:25.

15. Staðan er 34:33 fyrir Snæfell. Áfram er jafnræði með liðunum og mikil spenna. Ari Gylfason setur niður þriggja stiga körfu og fær vítaskot að auki sem hann reyndar misnotar. Sherrod Nigel Wright svarar með fjórum stigum í röð.   

10. Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan er 26:20 fyrir FSu. Það er fátt um fínar varnir í þessum leik, en sóknarleikurinn gengur smurt hjá báðum liðum. Stefnir í spennandi leik. Christopher Caird er stigahæstur í liði FSu, en Sherrod Nigel Wright atkvæðamestur í liði Snæfells. 

5. Staðan er 16:14 fyrir FSu. Gestirnir frá Stykkishólmi hófu leikinn af miklum krafti. Skotnýtingin var afar slæm hjá heimamönnum í upphafi leiksins, en þeir eru að sækja í sig veðrið. 

1. Leikurinn er hafinn á Selfossi. Snæfell vinnur uppkastið. 

0. Sveinn Arnar Davíðsson kemur inn í leikmannahóp Snæfells í þessum leik, en hann hefur ekkert leikið með Snæfelli í vetur. 

0. Chris Woods leikur sinn fyrsta leik fyrir FSu í vetur, en hann leikur gegn sínum gömlu félögum í kvöld.

0. Heimamenn hafa tvö stig og sitja í næstneðsta sæti deildarinnar á meðan gestirnir frá Stykkishólmi hafa sex stig í níunda sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert