Jakob er launahæstur allra í Svíþjóð

Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. mbl.is/Ómar

Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var tekjuhæsti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta ári ef marka má úttekt sænska blaðsins Aftonbladet.

Jakob þénaði um það bil 2,2 milljónum íslenskra króna meira en næsti maður á listanum, en hafa ber í huga að úttekt Aftonbladet byggist á skattframtali fyrir síðasta ár og nokkur fjöldi leikmanna var annað hvort spilandi í öðru landi í fyrra, eða var ekki með uppgefnar tekjur í Svíþjóð.

Jakob, sem er 33 ára gamall og hefur verið atvinnumaður í Svíþjóð um árabil, þénaði 662.157 sænskar krónur í fyrra, eða samtals rúmlega 10,1 milljón íslenskra króna. Það samsvarar mánaðarlaunum upp á rúmlega 840 þúsund íslenskar krónur.

Jakob er í dag leikmaður Borås og hefur átt frábært tímabil með liðinu, en hann er meðal annars stigahæstur leikmanna þess í deildinni. Hann fékk hins vegar sín laun frá Sundsvall Dragons í fyrra. Hlynur Bæringsson er enn leikmaður Sundsvall en Aftonbladet hafði ekki upplýsingar um hans tekjur.

Næstur á eftir Jakobi á listanum er Joakim Kjellbom hjá Norrköping með 7,9 milljónir íslenskra króna í árslaun.

Meðallaun 137 þúsund krónur

Í grein Aftonbladet segir að meðallaun körfuboltamanna í sænsku úrvalsdeildinni séu aðeins 9.000 sænskar krónur, jafnvirði 137 þúsund íslenskra króna. Inn í þessa útreikninga vantar hins vegar laun margra af erlendu atvinnumönnunum sem myndu hækka þessa tölu talsvert.

„Þetta er samt skítlélegt. Það er ætlast til þess að menn æfi á fullu og gefi allt sitt í körfuboltann. Hvernig á maður þá að geta komist af og lagt til hliðar með 9000 krónur í laun á mánuði? Mörg félög eiga meira að segja í erfiðleikum með þetta, en ég vil trúa því að þetta geti orðið betra,“ sagði Mannos Nakos hjá Uppsala, sem er í 3. sæti á listanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert