Þórsarar unnu í Njarðvík - Auðvelt hjá ÍR

Marquise Simmons treður fyrir Njarðvík gegn Þór Þ. í kvöld.
Marquise Simmons treður fyrir Njarðvík gegn Þór Þ. í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þór Þorlákshöfn og ÍR unnu í kvöld góða útisigra í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Þórsarar unnu þá í Njarðvík í hörkuleik en ÍR-ingar áttu ekki í vandræðum með Snæfell í Stykkishólmi.

Í Njarðvík voru heimamenn fetinu framar lengst af og voru meðal annars sjö stigum yfir í hálfleik, 47:40. Þórsarar sneru hins vegar blaðinu við eftir hlé, skoruðu 29 stig í þriðja leikhluta og hömruðu járnið meðan það var heitt í þeim fjórða.

Njarðvíkingar hleyptu hins vegar aukinni spennu undir lok leiksins með því að minnka muninn í eitt stig, en Þórsarar skoruðu hins vegar síðustu tíu stig leiksins og tryggðu sér magnaðan sigur, 88:75. Logi Gunnarsson og Maciej Baginski voru atkvæðamestir hjá Njarðvík með 14 stig en hjá Þór skoraði Emil Karel nítján stig.

Þórsarar jöfnuðu því Njarðvík að stigum, bæði hafa ellefu stig, en Keflavík er á toppnum með fjórtán.

Í Stykkishólmi fagnaði ÍR sínum öðrum leik í röð í deildinni þegar liðið valtaði yfir heimamenn í Snæfelli, 96:72. Jonathan Mitchells fór á kostum og skoraði sautján stig í fyrsta leikhluta einum, og endaði með 32 stig. ÍR hafði frumkvæðið frá upphafi leiks og var níu stigum yfir í hálfleik, en bætti jafnt og þétt við forskot sitt eftir hlé sem gaf þeim þennan 24 stiga sigur.

ÍR hefur nú átta stig og jafnaði Snæfell að stigum með sigrinum, en liðin eru í þéttum pakka fyrir ofan fallsvæðið.


Njarðvík - Þór Þ. 23:18 - 47:40 - 61:69 - 75:90
Snæfell - ÍR        18:29 - 38:47 - 49:68 - 72:96

20.50 Leik lokið í Njarðvík. Njarðvík - Þór Þ. 75:90. Þórsarar tryggðu sér sigurinn með því að skora síðustu ellefu stig leiksins!

20.48 Njarðvík – Þór 75:86. Þórsarar setja sjö stig í röð hérna á lokakaflanum þar sem Emil setti meðal annars tvo þrista. Gestirnir virðast með því vera að sigla þessu í hús!

20.44 Leik lokið í Hólminum. Snæfell – ÍR 72:96. Öruggur sigur hjá ÍR, þeirra annar í röð. Jonathan Mitchell var stigahæstur með 32 stig, þar af 17 í fyrsta leikhluta. Hjá Snæfelli skoraði Sherrod Wright 18 stig.

20.43. Njarðvík – Þór 73:77. Baldur setur þrist fyrir Þórsara og kemur þeim fjórum stigum yfir á ný. Gríðarleg spenna!

20.36 Njarðvík – Þór 73:74. Mikil spenna suður með sjó, sjö stig í röð frá heimamönnum. Hjörtur Hrafn með þrist og Logi Gunnars bætti tveimur stigum við. Hjörtur fór svo á vítalínuna og setti tvö. Alvöru leikur!

20.30 Snæfell – ÍR 54:75. Það þarf eitthvað mikið að gerast svo Snæfell nái að snúa blaðinu við. 6:33 mín eftir og gestirnir með örugga forystu. Eru 7:5 yfir í fjórða hluta.

20.26 Þriðja leikhluta lokið í Njarðvík. Njarðvík – Þór 61:69. Þórsarar fóru hreinlega á kostum í þriðja hluta og skoruðu 29 stig gegn 14! Ragnar Örn er stigahæstur með átján stig en hjá heimamönnum eru Maciej og Simmons báðir með tólf. Stefnir í spennandi lokakafla suður með sjó.

20.22 Þriðja leikhluta lokið í Hólminum. Snæfell – ÍR 49:68. Breiðhyltingar eru að síga enn frekar fram úr í Hólminum, eru með þægilega nítján stiga forystu. Oddur Rúnar er að stíga þar upp í stigaskorun með sextán stig en hjá heimamönnum eru Sherrod, Austin og Siggi Þorvalds allir með ellefu.

20.20 Njarðvík – Þór 57:62. Þórsarar eru að taka þennan þriðja hluta, hafa skorað 22 stig gegn tíu. Raggi Nat er með ellefu stig og er að nálgast Ragnar Örn sem er stigahæstur með fimmtán. Hjá Njarðvík er Marquise Simmons með tólf.

20.14 Njarðvík – Þór 53:53. Það er stál í stál í Njarðvík og Þórsarar aldeilis ekki búnir að leggja árar í bát. Þeir eru í 13:6 kafla í upphafi síðari hálfleiks og hafa jafnað metin.

20.12 Snæfell – ÍR 42:53. Jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta. Heimamenn virðast hafa áttað sig á því að taka fast á Mitchell, sem hefur aðeins skorað fimm stig eftir þessa sautján stiga rispu sína í fyrsta hluta.

19.58 Hálfleikur í Njarðvík. Njarðvík – Þór 47:40. Þórsarar bitu vel frá sér undir lok leikhlutans eftir að virtist stefna í óefni. Sjö stig er lítið til að brúa. Maciej Baginski er þeirra stigahæstur með tíu stig, en hjá Þór er Ragnar Örn með þrettán.

19.56 Hálfleikur í Hólminum. Snæfell – ÍR 38:47. Góður kafli Snæfells í upphafi annars hluta, en ÍR-ingar voru þó fljótir að taka við sér. Snæfell minnkaði forskotið engu að síður niður í níu stig á milli leikhluta og þetta er langt frá því að vera búið. Stigahæstur hjá heimamönnum eru Sigurður Þorvaldsson og Sherrod Wrigt með níu stig, en Jonathan Mitchells er í sérflokki hjá ÍR með 22 stig.

19.49 Njarðvík – Þór 38:26. Njarðvík hefur tekið yfir eftir þennan góða kafla í byrjun annars hluta. Liðið er nú tólf stigum yfir. Maciej Baginski er stigahæstur með tíu stig eins og Ragnar Örn hjá Þórsurum.

19. 45 Snæfell – ÍR 31:39. Eftir að Snæfell skoraði sjö fyrstu stigin í öðrum hluta hafa ÍR-ingar vaknað og eru nú í 13:3 kafla. Þeir hafa því endurheimt forskot sitt frá því snemma leiks. Simmons er að fara á kostum hjá þeim með nítján stig.

19.42 Njarðvík – Þór 31:21. Heimamenn eru að hamra járnið á meðan það er heitt eftir að hafa sigið fram úr undir lok fyrsta hluta. Þeir hafa skorað fyrstu átta stigin í öðrum hluta og Maciej Baginski setti til að mynda tvo þrista í röð. Davíð Arnar kom Þórsurum á blað í öðrum hluta með þriggja stiga körfu.

19.40 Snæfell – ÍR 25:29. Frábær byrjun hjá heimamönnum í öðrum leikhluta, þeir skoruðu sjö fyrstu stigin eftir að hafa verið ellefu stigum undir eftir fyrsta hluta. ÍR-ingar eru hvergi nærri hólpnir þrátt fyrir öfluga byrjun!

19.35 Fyrsta leikhluta lokið í Njarðvík. Njarðvík – Þór 23:18. Heimamenn fetinu framar eftir fyrsta leikhluta, sem hefur verið mjög jafn. Haukur Helgi er stigahæstur þeirra með sjö stig, eins og Ragnar Örn hjá gestunum.

19.34 Fyrsta leikhluta lokið í Hólminum. Snæfell – ÍR 18:29. Í Stykkishólmi eru ÍR-ingar með yfirhöndina og hafa verið frá byrjun leiks. Mitchells hefur farið á kostum og er með 17 stig í fyrsta leikhluta en heimamenn hafa ekki svarað því. Austin Bracey er þeirra stigahæstur með sex stig.

19.30 Njarðvík – Þór 17:14. Það er allt í járnum suður með sjó. Njarðvík skoraði þó núna fjögur stig í röð en gestirnir frá Þorlákshöfn eru rétt við hæla heimamanna.

19.26 Snæfell – ÍR 7:14. Jonathan Mitchell byrjar af krafti hjá Breiðhyltingum og er kominn með sjö stig. Þeir eru að ná frumkvæðinu eftir jafnar fyrstu mínútur í Hólminum.

19.23 Njarðvík – Þór 11:9. Haukur Helgi kominn með 5 af fyrstu ellefu stigum Njarðvíkur, setti til að mynda niður myndarlegan þrist. Það gerði Ragnar Örn líka hjá Þórsurum.

19.16 Leikirnir eru komnir af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert