Kalla eftir framlagi frá fleirum

Ari Gunnarsson, þjálfari Vals, taldi herslumun hafa vantað upp á …
Ari Gunnarsson, þjálfari Vals, taldi herslumun hafa vantað upp á til þess að liðið næði að landa sigri gegn Snæfelli í Valshöllinni í kvöld. Árni Sæberg

Ari Gunnarsson, þjálfari Vals, hefði kosið framlag frá fleiri leikmönnum liðsins þegar liðið mætti Snæfelli í 14. umferð Domino's deildar kvenna í körfuknattleik í Valshöllinni í kvöld. Ari var hins vegar ánægður með þau batamerki sem liðið sýndi frá leik liðanna í Stykkishólmi fyrir jól. 

„Við erum klárlega búin að bæta okkur síðan í leik liðanna fyrir jól. Það var hins vegar ekki nóg til þess að vinna sem er súrt. Ásigkomulagið er misjafnt á leikmönnum liðsins. Það fóru tveir leikmenn út til Bandaríkjanna og svo voru veikindi á nokkrum leikmönnum liðsins. Það er hins vegar engin afsökun og leikmenn hefðu þurfti að sýna aðeins meiri kjark til þess að næla í sigurinn,“ sagði Ari í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

„Það veldur mér virkilegum áhyggjum hversu fáir leikmenn taka af skarið sóknarlega hjá okkur. Ég auglýsi eftir því að leikmenn mínir stígi upp og setja punkta í töfluna. Ég var óánægður með sóknarleikinn í seinni hálfleik. Þær náðu að ýta okkur út úr okkar aðgerðum sem er ekki nógu gott og við eigum að vera sterkari þegar slíkt gerist,“ sagði Ari enn fremur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert