ÍR valtaði yfir FSu

Björgvin Hafþór Ríkharðsson ÍR-ingur sækir að körfu FSu í leiknum …
Björgvin Hafþór Ríkharðsson ÍR-ingur sækir að körfu FSu í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Botnslagnum í Domino's-deild karla í körfuknattleik milli ÍRR og FSu var að ljúka rétt í þessu. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi leiksins, þar sem FSu gat jafnað ÍR að stigum á töflunni, var aðeins annað liðið sem ákvað að spila báða hálfleika.

ÍR byrjaði betur og leiddi í hálfleik en í þriðja hluta keyrðu ÍR-ingar hreinlega yfir gestina, sem sáu aldrei til sólar; ÍR vann hlutann 28:13, var með 22ja stiga forystu fyrir lokafjórðunginn sem FSu náði aldrei að brúa og lokatölur í leiknum 106:72. 

Heimamenn komu vel stemmdir í leikinn og framan af leit allt út fyrir að leikmenn FSu hefðu gert slíkt hið sama. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik, þar sem ÍR voru þó alltaf í bílstjórasætinu, þá hrundi leikur gestanna í þriðja hluta, eins og áður sagði. Munurinn á liðunum var sá að ÍR spilaði sem lið á báðum endum vallarins í 40 mínútur á meðan FSu gerði slíkt sama í aðeins 12 mínútur í fyrri hálfleik. 

Jafnvægið innan liðs ÍR var frábært; Jonathan Mitchell var frábær, 36 stig og 10 fráköst, Sveinbjörn Claessen skoraði 26, Vilhjálmur Jónsson var með 13 stig og aðrir minna. Björgvin Rikharðsson átti einnig flottan leik þrátt fyrir lélega nýtingu í sókn. Flestir sem komu inná hjá ÍR féllu vel inní liðsboltann sem leikinn var og á liðsheildin mesta hrósið skilið.

Hjá FSu var Chris Woods góður í sókn en lélegur í vörn; hann skoraði 27 stig og tók 20 fráköst, Chris Caird skoraði 9 stig og aðrir minna. Það sem skorti í lið FSu var liðsheild og fleiri með aðkomu að varnarleiknum til að hann myndi smella saman. Þetta gerðist aldrei í leiknum og því fór sem fór og eru ÍR mjög vel að þessum sigri komnir.

Meira í Morgunblaðinu á morgun.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

Leik lokið - 106:72

Dæmigerðar ruslamínútur í gangi núna síðustu andartökin en ÍR hafa gert gríðarlega vel hérna í kvöld og spilað einn sinn besta leik í vetur. Varnarleikurinn frábær og sóknin sjaldan ef nokkurn tíma verið betri... Mitchell óstöðvandi og Sveinbjörn Claessen frábær. Andlegt hrun FSu kostaði þá leikinn, ásamt hroðalegum varnarleik. 

3:35 - FSu virðast hættir og því verða næstu mínútur kenndar við rusl. Alveg með ólikindum þetta hrun sem FSu sýndi okkur í seinni hálfleik... andlegt og líkamlegt hrun liðsins hefur verið algjört og þeir eiga ekkert skilið úr þessum leik. 98:63 - FSu aðeins skorað 20 stig það sem af er seinni hálfleiks!  

7:00 - Hrikalegur varnarleikur FSu batnar ekkert og sendingar og skotval í sókn liðsins ekkert til að hrópa húrra fyrir... ÍR ætti að komast auðveldlega frá þessum leik með sigur.. Woods nær sóknarfrákasti og fær víti... Hann kominn með 25 stig og 17 fráköst! 90:61

7:42 - Mitchell skorar aftur, kominn með 32! FSu nær einfaldlega ekki að stoppa í vörninni og því getur þetta ekki farið vel fyrir liðið... Woods fær á sig óíþróttamannslega villu á leiðinni aftur í vörn! Hjálpar liðinu ekkert! 86:59

9:10 - Hlynur setur þrist fyrir gestina! Mitchell svarar með tvist. 80:59

Þriðji hluti fór 28:13 fyrir ÍR og líklegt að þetta sé nóg því það er lítið í spilunum hjá FSu sem bendir til að leikmenn séu tilbúnir í að vinna þennan leik. 

3.hluti allur! 78:56

30sek. - Woods klórar í bakkann en Sveinbjörn svarar með þrist og þessi leikur er að komast frá gestunum; ÍR-ingar slaka ekkert á og refsa FSu fyrir lélegan varnarleik  á sama tíma og lélegt skotval einkennir sóknarleik þeirra. 

1:56 - Mitchell skorar aftur á Woods! 71:54

3:00 - Mitchell setti þrist fyrir skömmu og er með 24 stig! FSu virðast ekki eiga nægilega mikinn kraft til að halda í við heimamenn hérna... því miður fyrir þá! Of mikill munur og erfitt að vera alltaf að elta... 69:54 eftir góða körfu frá Vilhjálmi...

4:30 - Gunnar Ingi minnkar muninn með þrist! 64:54

5:07 - Björgvin skorar úr hraðaupphlaupi og vörn FSu hreinlega í molum, þá sérstaklega gegn hraðaupphlaupum. Þurfa að vera mun betur staðsettir og tala saman. 64:51

5;47 - Mitchell skorar aftur! Woods ræður EKKERT við hann! 62:51

6:33 - Sveinbjörn setur þrist! FSu nær ekki því áhlaupi sem það leitar að með því að gleyma sér í vörninni! 60:51

7:26 - Mitchell skorar aftur, með 19, og Woods tekur annað sóknarfrákast og skorar... með ólíkindum hvernig ÍR nær ekki að stíga manninn út... 57:49

8:10 - Woods skorar og er kominn með 19 stig! 55:47

9:00 - Mithcell fer á Woods á blokkinni og skorar fyrstu stigin, FSu tapar svo boltanum og Woods brýtur á Mitchell, sem fer á línuna... þetta er alls ekki sú byrjun sem FSu vildi á þessum hálfleik! 53:43

Seinni hálfleikur hafinn! 

Hálfleikur! 50:43 - ÍR, sem voru með pálmann í höndunum fyrir nokkrum mínútum hafa glutrað forystunni niður með slæmri vörn og lélegum ákvarðanatökum í sókn. FSu skelltu í svæðisvörn sem virkaði ágætlega en risastór þristur frá Kristjáni Pétri komu lífinu aftur í heimamenn undir lok hálfleiksins. Varnarleikur FSu hefur ekki riðið feitum hesti og þar liggur stærsti munurinn á liðunum, hinsvegar hefur það verið leikur Woods sem hefur skilað FSu inní þennan leik, kappinn með 15 stig og 12 fráköst og flest stiganna hafa komið eftir sóknarfrákast og þar liggur vandi heimamanna. Stigin 5, sem Sæþór Elvar og Kristján Pétur skoruðu á síðustu sekúndum hálfleiksins gæti verið rándýr fyrir þegar líður á leikinn en þar eru FSu sekir um kæruleysi og óþarfa vitleysisgang. Það er stutt á milli velgengni og vitleysisgangs í þessum leik, sem gerir leikinn bara nokkuð skemmtilegan. Bæði lið eru með baráttugleðina í lagi og allt stefnir í hörkuleik...  

1:26 - FSu með Woods í broddi fylkingar hafa komið sér aftur inní leikinn... Kappinn með 11 fráköst og 13 stig!!! BAra rugl! 43:40

4:00 - Woods aftur með sóknarfrákast og körfu!!! Kristján Petur svarar með þrist! 43:34

5:00 - Kristján Pétur setti þrist en var svo refsað í vörninni af Ara Gylfa, sem spólaði sig framhjá honum og fékk víti. Þetta er og verður örugglega hörkuleikur eins og fyrir var um spáð... 39:32

6:00 - Woods með sitt þriðja sóknarfrákast og níunda stig! 36:30

6:21 - Svenni Claessen með tvo þrista í röð!!! Hrikalegur varnarleikur hjá Chris Caird. Heimamenn eru að taka völdin á vellinum en ég gruna að FSu komi með svar við þessu. 36:28

8:00 - Trausti Eiríks skorar fyrir heimamenn og spilar síðan góða vörn á Woods, sem nær þó að taka sóknarfrákast og vítaskot... 28:26 - Mithcell svarar síðan  og eykur muninn 30:26

9:00 - Chris Caird er að spila vel; hann keyrir á körfuna og er sterkur þegar hann klárar undir. Brotið á Gunnari Harðarsyni, sem fer á línuna... Stemningin hjá báðum liðum er góð og ljóst að allir gera sér grein fyrir mikilvægi leiksins. 26:24

1.hluti allur! 24:20 ÍR hefur verið sterkari aðilinn; Vilhjálmur Theodór og Mitchell hafa skorað úr sínum tilraunum og skorað 18 stig saman. FSu eru ekki langt undan en ljóst að krafturinn er meiri hjá heimamönnum. Gestirnir hafa hinsvegar haldið sér inní þessu með því að hitta úr þeim opnu færum sem hafa gefist og því er munurinn ekki meiri... 

1:00 - Chris Woods mjög duglegur í sóknarfráköstunum, þa sérstaklega þegar Mitchell situr á bekknum... Fær vítaskot en nýtir aðeins annað. 22:17

1:20 - Vilhjálmur Theodór er einnig kominn með 8 stig og sóknin í góðum gír hjá heimamönnum 22:16

2:45 - Ari Gylfa minnkar muninn, en ´FSu er í vandræðum í sókninni sinni, ÍR er að spila hörkuvörn... 20:11

4:00 - FSu nær ekki að stoppa Mithcell, sem fer hér á kostum! Kominn með 8 stig og rífur sína menn áfram í vörninni... 18:9

5:30 - ÍR að spila aggressívan varnarleik allan völlinn en Caird hittir þrist og Mitchell svarar með langskoti... 14:9

6:00 - Mitchell skorar með skoti utanúr teig... menn eru að hitna; Sveinbjörn hefur sett bæði skot sín niður utan af velli, Woods hefur einnig hitt úr sínum skotum og FSu tekur nú leikhlé eftir að Mithcell skorar aftur. 12:6

8:00 - Sveinbjörn minnkar muninn með fyrstu stigum heimamanna og Vilhjálmur jafnar síðan fyrir ÍR 4:4

Leikur hafinn! Byrjunarlið ÍR: Daði Berg, Björgvin Hafþór, Sveinbjörn Claessen, Jonathan Mitchell og Vilhjálmur Theodór. FSu: Chris Woods, Ari Gylfa, Chris Caird, Hlynur Hreinsson og Bjarni Geir.

19:08 - Eins og stendur hér að ofan er ljóst að þessi leikur er bæði liðum gríðarlega mikilvægur; sigra FSu hérna í kvöld jafnar liðið ÍR að stigum og þjappar þar með liðunum á botninum í enn þéttari pakka á meðan ÍR-ingar geta losað tímabundið um smá pressu með því að komast 4 stigum ofar en FSu. Þessi leikur ætti því að verða mikil skemmtun, með baráttuna í fyrirrúmi hjá báðum liðum. Barátta lykilmanna, Jonathan Mitchell og Chris Woods, ætti að verða epísk í kvöld og ljóst að mikið mun mæða á þessum köppum. Liðsandinn og leikgleði ætti að skipta miklu hérna því liðin eru næstum á pari hvað varðar styrk; bara spurning hvort þeirra kemur með A-leikinn sinn í kvöld. Ég á ekki von á að annað liðið nái að stinga langt af og spái ég grjóthörðum spennuleik hérna í kvöld. 

Jonathan Mitchell úr ÍR sækir en Chris Woods og Cristopher …
Jonathan Mitchell úr ÍR sækir en Chris Woods og Cristopher Caird hjá FSu eru til varnar. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert