Gat verið betra og verra

Hlynur Bæringsson í leik Íslands og Serbíu í lokakeppninni í …
Hlynur Bæringsson í leik Íslands og Serbíu í lokakeppninni í Berlín í haust. AFP

„Þetta gat verið hagstæðari riðill en gat líka verið verra,“ sagði Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfuknattleik, við mbl.is rétt í þessu, eftir að hafa fengið að vita hvaða þremur liðum Ísland myndi mæta í undankeppni Evrópumóts landsliða í haust.

Ísland dróst þar gegn Belgíu úr fyrsta styrkleikaflokki, Sviss úr þriðja og Kýpur úr fjórða flokki en íslenska liðið var í fyrsta skipti í öðrum styrkleikaflokki eftir góða frammistöðu í síðustu keppni þar sem liðið komst í lokakeppnina í fyrsta sinn.

„Belgarnir verða mjög erfiðir mótherjar, léttir og frískir, með lágvaxnara lið en mörg önnur, og það hentar okkur illa að spila gegn þeim. Við steinlágum einmitt með fjörutíu stigum gegn þeim nokkrum dögum fyrir EM í haust. Þeir eru með sterka liðsheild, ekki stórar stjörnur eins og mörg önnur af sterkari landsliðunum, en afar erfiðir. Þeir unnu Litháen í lokakeppninni í haust og það segir ýmislegt um styrkleika þeirra,“ sagði Hlynur sem var að koma af æfingu hjá Sundsvall Dragons þegar mbl.is náði í hann og hafði ekki fengið fréttirnar af væntanlegum andstæðingum.

„En að sjálfsögðu eigum við möguleika gegn öllum, sérstaklega á heimavelli, og við vitum frá síðustu undankeppni hvað það skiptir miklu máli að hanga í stóru liðunum, jafnvel þó við töpum fyrir þeim. Við komumst á EM vegna þess að við töpuðum með litlum mun gegn Bosníu, á meðan önnur lið enduðu fyrir neðan okkur því þau töpuðu illa gegn sterkasta liði í sínum riðli," sagði Hlynur, en þau fjögur lið sem ná bestum árangri í öðru sæti í undanriðlunum sjö komast á EM, ásamt þeim sjö liðum sem vinna riðlana.

Veit lítið um Sviss en Kýpur er með hörkulið

Hlynur kvaðst lítið vita um Svisslendinga, enda hefði landsliðið aldrei mætt þeim á sínum tíma með því. „Þeir voru svona í miðjunni af þeim þjóðum sem maður vildi fá úr þriðja flokki. Sviss er eflaust með gott lið, maður getur gengið útfrá því.“

Kýpur er hinsvegar andstæðingur sem Ísland hefur oft mætt á Smáþjóðaleikum. „Já, við höfum oft átt harðar rimmur við Kýpurbúa og þar hefur meira að segja soðið upp úr þegar liðin hafa mæst. Kýpur er mikil körfuboltaþjóð, með blóðheita og ástríðufulla leikmenn, og maður hefði alveg viljað fá einhverja aðra andstæðinga úr neðsta styrkleikaflokknum," sagði Hlynur en Ísland hefur ávallt tapað fyrir Kýpur þegar liðin hafa mæst á Smáþjóðaleikunum á þessari öld.

Leikirnir fara fram í haust, frá 31. ágúst til 17. september, og því spilaðir sex leikir á átján dögum. „Þetta  verður mikil törn en þetta er víst í síðasta skiptið sem það verður svona. Í næstu keppni verða teknir upp leikdagar sem dreifast á árið, en það passar þá væntanlega að þá verði maður hættur þessu!“ sagði fyrirliðinn.

Ísland lék í lokakeppni EM í haust, í fyrsta skipti, og Hlynur sagði að leikmenn liðsins væru að sjálfsögðu með mikinn metnað fyrir því að komast aftur þangað. „Til þess þarf margt að ganga upp og við erum alls ekki orðnir einhverjir áskrifendur að EM-sæti þó það hafi tekist einu sinni. En það var toppurinn á mínum ferli til þessa að spila í lokakeppninni og vonandi fær maður annað tækifæri,“ sagði Hlynur Bæringsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert