ÍR átti engin svör í Garðabæ

Jonathan Mitchell úr ÍR reynir skot en Al'lonzo Coleman og …
Jonathan Mitchell úr ÍR reynir skot en Al'lonzo Coleman og Tómas Heiðar Tómasson úr Stjörnunni eru til varnar í leiknum í Ásgarði í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Það var ekki mikil spenna í kvöld þegar Stjarnan tók á móti ÍR í Domino's-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Leiknum lauk formlega fyrir nokkrum andartökum en fyrir fólkið sem á horfði lauk honum töluvert fyrr því heimamenn gáfu engin færi á sér og hreinlega völtuðu yfir lánlausa Breiðhyltinga og lokatölur 100:80.

Það varð ljóst strax í upphafi í hvert stefndi; heimamenn vanmátu ekki andstæðing sinn og þó liðið hafi ekki spilað glimrandi vel þá spilaði liðið nægilega vel til þess að ná öllum stjórnartaumum í leiknum. ÍR-ingar áttu fá svör í vörninni til að stöðva og nánast engin svör með sóknarleik sínum, sem var í besta falli tilviljunarkenndur.

Lykilleikmenn ÍR voru í engum takti við sóknarleikinn; Sveinbjörn Claessen og Jonathan Mitchell voru þeir einu sem sýndu tennurnar í á hálfleik á meðan liðsheild heimamanna skein skært lungan af fyrri hálfleik. Heimamenn hefðu auðveldlega getað gert útum leikinn í fyrri hálfleiknum en sökum kæruleysis þá leyfði þeir ÍR-ingum að hanga í pilsfaldi sínum í fyrri hálfleik og staðan 44:38 þegar gengið var til búningsklefa. 

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri nema hvað að Stjörnumenn sáu sér fært að gera útum leikinn án þess að leika sér of mikið að bráðinni. Varnarleikur heimamanna sá um sóðaverkin og sóknin sá um að kæfa alla mögulega mótspyrnu. Eftirleikurinn varð auðveldur og fjórði hlutinn var í raun bara eins og létt æfing fyrir bæði lið. 

Justin Shouse og Al'lonzo Coleman voru frábærir í liði heimamanna; Sæmundur VAldimarsson og Tómas Hilmarsson voru einnig gríðarlega öflugur, sem og Tómas Tómasson, sem átti toppleik. Liðsheildin skein sterkt og ljóst að Stjarnan er á réttri leið. 

Hjá ÍR var liðsheildin í molum; Mitchell sá eini með lífsmarki í sókn með Sveinbjörn Claessen ágætan í fyrri hálfleik. ÍR átti aldrei möguleika í leiknum, enda við ramman reip að draga í Ásgarði þegar heimamenn hitta á slíka frammistöðu. 

Meira í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

Leik lokið! 100:80

3:00 - Þessar mínútur eru ekki áhugaverðar, spurningin er bara hversu mikill munur verður og hvaða leikmenn ná að skína á þessum ruslamínútum... 91:70

5:54 - Það hefur ekkert breyst í þessu; heimamenn ráða öllu sem hérna gerist og virðast þeir vera að nota lokahlutann í æfingu, frekar en eitthvað annað... 81:58 - ÍR-ingar eiga ekkert erindi í þetta og þrátt fyrir baráttu og leikgleði þá tekst þeim ekki að ná áhlaupi, slíkt er getuleysi þeirra á báðum endum vallarins..., því miður! Mitchell er sá eini sem spilar af eðlilegri getu í sókn og hefur skorað 33 stig, aðrir mun minna, á meða liðsheildin skín skært hjá heimamönnum

Þriðja hluta lokið! 77:55 - Stjörnumenn hafa komist upp með að spila í lágum gír allan leikinn á meðan IR-ingar hafa strögglað að halda í við þá. Nokkrum sinnum hefur gestunum tekist að koma sér í kjörstöðu til þess að gera þetta að jöfnum leik en fallið á öllum þeim prófum; liðið er einfaldlega ekki nægilega gott til þess að hafa roð í vel skipulagt lið heimamanna, sem hafa spilað frábæran bolta lengstum af, þó með nokkrum mínútum af kæruleysi... 

1:23 - Coleman stelur boltanum, keyrir upp og treður á meðan allt ÍR-liðið er á sóknarhelmingnum! Jæja..., þetta er nánast búið... 73:55 - ÍR á ekki möguleika ef liðið ætlar sér að spila svona hroðalega... Stjörnumenn, sem hafa verið að bíða eftir einmitt svona kafla eru einfaldlega mun betri og hefðu í raun getað gert útum leikinn á þennan hátt fyrir löngu...

2:32 - Coleman keyrir, skorar og fær víti! Þetta er bara of auðvelt fyrir heimamenn! 69:54

3:03 - Shouse setur þrist og slekkur á vonum ÍR! 66:54

4:00 - Eyjólfur Ásberg setur þrist fyrir ÍR, sem virtust ætla að nýta sér meðbyr en fá svo á sig hraðaupphlaup í bakið! Mitchell fer hinsvegar á vítalínuna og kemur muninum undir 10 stigin... ÍR þarf eitthvað aðeins meira til þess að koma sér inní leikinn... 60:52

5:29 - Svenni skorar en Stjörnumenn svara með hraðaupphlaupi þar sem Tommi Tomm skorar og fær víti! Þetta er einfaldlega hroðaleg vörn hjá gestunum! 57:45

6:00 - Shouse setur þrist eftir sóknarfrákast Coleman! 54:43

7:16 - Mitchell fær dæmdan á sig ruðning og heimamenn eru ekkert á þeim buxunum að setja allt í þetta... eins og þeim finnist mótspyrnan ekki vera nægilega öflug til þess að fara "all-in" 51:43

8:30 - Vilhjálmur Jónsson setur þrist fyrir ÍR en Arnþór Guðmundsson svarar með þrist! 51:41

Seinni hálfleikur hafinn! 

Hálfleikur! 44:38 - ÍR virðist á pappírnum vera að koma tilbaka en ég þori að fullyrða að þessi sprettur þeirra sé einfaldlega í boði kæruleysis heimamanna, sem hafa klárlega stjórnað hér lögum og lofum... Heimamenn hafa verið mun betri og leiða í öllum þáttum leiksins en hafa hinsvegar ekki náð að veita náðarhöggið en svo virðist sem að Stjörnumenn séu ekki nægilega beittir til þess þó svo að getan sé klárlega til staðar... þeir fara sér engu óðslega í þessu og eru í raun að gefa gestunum tækifæri á því að koma sér aftur inní leikinn... Í seinni hálfleik kemur svo í ljós hvort Stjarnan sé að gera stóru mistökin, þ.e. að gefa ÍR þetta tækifæri til að koma sér aftur inní þetta... Ef ÍR þjappar sér saman og kemur öflugt til leiks í seinni þá getur þetta orðið að alvöru leik. Mikið eftir en heimamenn einfaldlega töluvert betri liðið og þarf að klúðra svooooo miklu til þess að missa tökin á leiknum. 

1:11 - Mitchell setur þrist og ÍR að klóra í bakkann! 44:36

3:00 - ÍR reyndu svæðisvörn en snarhættu því eftir að heimamenn sökktu 5 stigum úr tveimur skotum gegn henni... þetta lítur ekki vel út fyrir gestina! 42:29

4:45 - SHOUSE!!! Hefur skorað 5 stig á stuttum tíma og gert vonir gestanna að engu! 37:25

5:43 - Nei! ÍR ætlar ekki að nýta sér þennan kafla til þess að hamra á heimamönnum... Stjörnumenn hafa komist aftur yfir og að því er virðist án nokkurrar áreynslu... 32:27

6:34 - Jæja! ÍR hafa nú náð ágætum kafla þar sem góð vörn skilaði þeim sjálfstrausti til að klára í sókninni... Svenni Claessen setti gott skot og núna er lag fyrir þá til þess að koma sér inní leikinn... 28:25

8:16 - Shouse skorar glæsilega körfu... what a man!!! Þó varnarleikur ÍR sé vel útlítandi vantar allt bit í hana... menn og seinir í hjálpina og skipulagið ekki nægilega gott til þess að valda heimamönnum vandræðum... 28:21

Fyrsta hluta lokið! 25:16 - Ljóst að Stjarnan er töluvert sprækara hérna í kvöld og ég verð að viðurkenna vonbrigði mín með leik IR hérna í fyrsta hluta... Sóknarleikur gestanna í ruglinu þar sem tilviljun ræður ríkjum á meðan heimamenn lulla þetta áfram á innsoginu og þurfa í raun ekkert að hafa áhyggjur af neinu nema hvort kærastan sé að horfa... Ekki gott hjá ÍR, sem þurfa algera yfirholningu ef þeir ætla sér að stríða heimamönnum eitthvað... 

2:00 - Heimamenn virðist vera aðeins of stórt númer fyrir ÍR... því miður fyrir okkur sem erum að horfa á... staðan 20:13 án þess að ég hafi orðið var við mikla áreynslu heimamanna... ÍR er einfaldlega ekki með neina spaða í höndunum sem ættu að valda heimamönnum áhyggjum...

2:36 - Stjörnumenn eru klárlega betra liðið hérna og varnarleikur liðsins á hálfum velli kannski of sterkur til þess að ÍR nái einhverju flæði í sóknina... Það er enginn hjá gestunum sem getur tekið af skariðþ og gert nægilega mikinn usla til þess að Hrafn þjálfari heimamenna hafi miklar áhyggjur.. 16:11

3:40 - Sóknarleikur ÍR er einfaldlega of linur; leikmenn að sætta sig við léleg skot og hlutverkaskipan virðist ekki nægilega ljóst... á meðan heimamenn rúlla sinn leik og engar tilviljanir ráða för... 13:11

4:33 - Svenni Claessen skorar þrist en meiðist við það og er skipt útaf... veit ekk hversu alvarlegt þetta er en ljóst að það eru ekki góð tíðindi fyrir IR 11:9

5:05 - Shouse skorar og klárt mál að heimamönnum líður betur í eigin skinni hérna... ÍR þarf að gera aðeins betur á báðum endum vallarins ef ekki á illa að fara fyrir þeim...11:6

7:10 - Björgvin kominn með 2 villur og fer útaf... ekki góð tíðindi fyrir gestina. Eftir snarpa byrjun hefur leikurinn róast ögn og ljóst að bæði lið fara varfærnislega... 3:4

8:53 - Daði opnar leikinn fyrir gestina en Coleman svarar með fáránlegu skoti sem fer ofaní... Maður getur skynjað kraft frá báðum liðum... ætti að verða áhugavert 2:4

Leikur hafinn!

19:09 - Þess fyrir utan verður að minnast á mikilvægi leiksins... ÍR þarf vissulega sigur í kvöld til þess að stimpla sig hressilega inn sem það lið sem ætlar sér í úrslitakeppnina á meðan Stjörnumenn eru á hinum enda litrófsins, þ.e. að stimpla sig inn sem það lið sem ætlar sér í sjálfan úrslitaleikinn! Þó þessi munur sé áþreifanlegur þá skiptir hann litlu í leik sem þessum; öll lið hafa verið að vinna hvort annað í deildinni í vetur og ef hið minnsta frávik á sér stað hjá liðinu "sem á að vinna leikinn" á sér stað, á það lið í hættu að lenda undir þegar lokabjallan glymur, svo einfalt er það! En alveg ljóst að ef ÍR mætir tilbúið í kvöld þá verður þetta svakaleg rimma...

19:03 - Jæja, nú fer í hönd leikur Stjörnunnar og ÍR og þó þetta ættu að vera tvö stig fyrir heimamenn í sarpinn eru klárlega nokkuð margir óvissuþættir sem huga þarf að... Fyrir það fyrsta eru heimamenn ansi þekktir orðnir fyrir að misstíga sig í heimaleikjum sem þessum, ásamt því að við erum að tala um ÍR: lið sem er líklega þekktasta lið deildarinnar fyrir óvæntar uppákomur sem sigur þeirra væri hér í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert