Þór gerði það sem þurfti

Daði Berg Grétarsson úr ÍR reynir að stöðva Halldór Gunnar …
Daði Berg Grétarsson úr ÍR reynir að stöðva Halldór Gunnar Hermannsson úr Þór í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR-ingar tóku á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í kvöld í 16. umferð Domino's-deild karla í körfuknattleik og sigruðu Þórsarar, 80:75.

Þegar svona seint er liðið á deildina eru allir leikir orðnir mjög mikilvægir og svo varð vissulega raunin í kvöld; ÍR þurfti á stigum að halda í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni á meðan Þór þurfti stigin í baráttu sinni við efstu lið deildarinnar, en fyrir leikinn sat liðið í fjórða sætinu. 

Leikurinn fór rólega af stað þar sem varnarleikurinn var i aðalhlutverkinu. Sóknarvopn beggja liða voru köld framan af og í bland við fína baráttu í vörn var lítið skorað í fyrsta hluta. Þetta jafnaðist aðeins út í öðrum þar sem menn komu með byssurnar á loft og náðu að keyra sóknarleikinn aðeins í gang. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið nokkuð jafn lunga leiks voru það alltaf gestirnir sem litu betur út.

Fyrir þessu eru einfaldar ástæður; Þór er með töluvert betra lið og þrátt fyrir að spila ekki sinn besta leik náðu leikmenn að stjórna leiknum nánast frá fyrstu mínútu og halda um þá stjórnartauma allan leikinn. Það var hinsvegar ekki fyrr en á lokamínútum leiksins þar sem þetta sást berlega og ÍR-ingar gátu ekkert annað en beygt sig undan ofureflinu sem þeir voru við að eiga. 

Sóknarleikur ÍR var þeirra helsti óvinur í kvöld; sóknir þeirra voru oft tilviljunarkenndar og skorti það flæði sem einkenndi leik gestanna. Til marks um þetta voru sex leikmenn Þórs sem skoruðu yfir tíu stig á meðan aðeins tveir gerðu slíkt hjá ÍR. Skipulagið í sóknarleik ÍR er einfaldlega ekki nægilegt og vopnin til að bera sóknina uppi eru of fá. Jonathan Mitchell var sá eini sem spilaði vel sóknarlega, aðrir geta betur og verða að gera betur ef liðið ætlar sér að vinna þá leiki sem þarf til þess að fleyta liðinu inní úrslitakeppni.

Þórsarar gerðu það sem þeir þurftu til að vinna, alls ekki meira! Á lokamínútum leiksins sýndu leikmennirnir hversu langt á undan þeir eru með sitt lið miðað við ÍR; undirstöðuatriðin í þeirra sókn skiluðu boltanum á réttu staðina, á réttu mennina, sem kláruðu sín færi án mikils ama. Leikur Þórsara var langt frá því að vera góður en sjálfstraustið skein af leikmönnum þegar á reyndi og það er gríðarlega mikilvægt fyrir lið sem er að undirbúa sig fyrir Bikarúrslitaleik næstu helgi. 

Jonthan Mitchell átti skínandi sóknarkvöld á meðan aðrir voru lítið áberandi á þeim helmingi vallarins. Barátta liðsins í vörn lunga leiks verður að teljast liðinu til tekna en lélegar ákvarðanir á lykilaugnablikum verður að dragast frá liðinu. IR hefði átt að gera betur en kannski er ég að biðja um of mikið?

Þórsarar gerðu það sem þeir ætluðu sér; að vinna leikinn! Til þess áttu lykilmenn liðsins flottan leik og mátti sjá glitta í það sjálfstraust sem liðið þarf á að halda fyrir næstu leiki. Vance Hall hafði hægt um sig í upphafi en óx ásmegin. Ragnar Nathanaelsson, Grétar Erlendsson, Emil Karel Einarsson, Þorsteinn Már Ragnarsson og Halldór Garðar Hermansson áttu flottan leik sem skilaði liðs-og vinnusigri.

Meira í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Leikurinn var í beinni textalýsingu hér á mbl.is:

Leik lokið! 75:80

13sek. - Hall á línuna og skorar... 73:80

1:03 - Halldór Garðar á línuna... 71:79 - þetta er of mikill munur fyrir lið sem er ekki með Reggie Miller

1:34 - Þorsteinn Már setti síðasta naglann í kistuna... 68:78

2:11 - Sveinbjörn kominn með 5 villur eftir að hafa kastað boltanum frá sér klaufalega og þurft að brjóta... lítur ekki vel út fyrir heimamenn núna... 68:76

3:22 - Þetta hefur ekki verið fallegt hjá Þór en liðið hefur gert nóg til þess að brjóta ÍR hérna! Körfur á lykilaugnablikum hafa hægt og rólega tekið máttinn úr heimamönnum. Þórsarar eru einfaldlega að spila með mun meira sjálfstraust og betra skipulag á sínum leik... 66:74

4:14 - Halldór Garðar smellir þrist í rennblautt andlit IR-inga!!! Risastór þessi! 66:74

4:33 - Mitchell skorar! 66:71

5:22 - Daði Berg missir boltann klaufalega, Þórsarar gera slíkt hið sama... Vantar hetjuna í þessa sögu ÍR

5:53 - GRétar skorar úr víti! 64:71

6:16 - Vance Hall setur þrist!!! Svakalegt áfall fyrir heimamenn! 62:70 

6:45 - Grétar skorar inní teig... Þórsarar vita alveg hvað þeir eru að gera í sínum sóknarleik, ÍR-ingar eru ekki með sama þjálfunarstig í sínum leik og hafa klúðrað illa tveimur mikilvægum sóknum. Raggi Nat og Grétar hafa báðir skorar á þessum mikilvægu augnablikum og þetta dregur tennur úr heimamönnum... alveg lykilmínútur næstu tvær, ÍR verður að stoppa og skora núna ef ekki á illa að fara... 62:67

8:00 - Enn harðnar baráttan... sem er klárlega aðalsmerki leiksins og segir mér að leikmenn vilja vinna, sama hvað það kostar! 62:63 og ÍR að fara í sókn...

9:12 - Baráttan er að verða mjög mikil, bæði lið gefa ekkert eftir. Mitchell fær vítaskot... 62:63

3.hluti allur! 60:63 - Þrátt fyrir að framkvæma sínar sóknir vel, þá náðu ÍR-ingar ekki að afla þeirra stiga sem þeir hefðu viljað en á sama tíma þá stóðu þeir þessa prófraun af sér og eiga núna að geta komið sterkir inní fjórða hluta. Þórsarar náðu ekki að nýta sér skotin nægilega vel á síðustu minútunum en þeir voru hinsvegar að fá galopin skot... spennandi leikur!

2:03 - Baráttan um leikinn á sér stað akkúrat núna held ég... ef ÍR-ingum tekst að halda sjó þessar lokasekúndur hlutans eru þeir mun betur í stakk búnir að takast á við síðustu 10mínúturnar. Gríðarlega mikilvæg augnablik núna því Þórsarar eru með lið sem getur refsað illa á nokkrum sekúndum og ÍR akkúrat það lið sem gæti lent í slíkri útreið en hafa hinsvegar staðist þessi áhlaup gestanna og eru í kjörstöðu að gera þetta að leik til að sigra á endanum! 57:61

2:55 - Það eru 5 leikmenn Þórs komnir með 10 stig eða meira! Aðeins tveir leikmenn ÍR! 

3:54 - Björgvin skorar! Þorsteinn setur þrist fyrir gestina og Mitchell fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu á leiðinni upp völlinn í sókn!!! Hvað er kauði að hugsa, spyr ég! Hrikalega klaufalegt en sýnir bara hversu mikill hiti er kominn í leikinn eftir að ÍR komst yfir rétt áðan! 57:59

4:40  - Hef sjaldan séð aðrar eins mínútur og núna eru í gangi... boltinn er eins og heit kartöfla sem enginn getur haldið á og sendingarnar eftir því! Björgvin setur hinsvegar þrist núna og bjargar því sem bjargað verður fyrir ÍR... Vilhjálmur setur einnig þrist og Þor missir boltann!!! 53:55

7:04 - Mitchell stelur og skorar... ÍR-ingar hefur brugðið eitthvað í byrjun hálfleiks því Þórsarar eru að valta yfir þá hérna í upphafi og ÍR heppið að vera ekki meira undir! 47:51

8:30 - Blússandi byrjun hjá gestunum! 45:49

0sek. - Kristján Pétur brýtur á Halldóri á sóknarhelming ÍR og Halldór fær þrjú víti!!! Alveg skelfilega klaufaleg villa hjá Kristjáni til að loka hálfleiknum en sem betur fer fyrir heimamenn þá skorar Halldór ekki nema úr einu þeirra. 40:43 í hálfleik.

18sek. - Leikhlé! Skorið hefur dreifst á 14 leikmenn í leiknum og munar þar mikið um bekkinn hjá gestunum, sem hafa skilað 18 stigum og Emil Karel með 9 af þeim. 

40sek - Mitchell skorar, Hall svarar... Varnarleikurinn hefur tekið baksætið fyrir sóknarleiknum en því miður fyrir ÍR þá veit þetta ekki á gott þar sem þeirra sóknarbit er töluvert verra en gestanna. Daði Berg lagar hinsvegar stöðuna með "bænarþrist" 40:42

2:33 - Davíð Arnar setur þrist! ÍR svarar með sniðskoti og allt í járnum enn, þó að Þórsarar líti aðeins betur út þessa stundina. 35:40

3:17 - Raggi gefur frábæra stoðsendingu á Halldór Garðar sem setur þrist! Davíð Arnar skorar í næstu sókn... 31:35

5:01 - Raggi Nat gengur nánast yfir Trausta og skorar... Bara of sterkur fyrir hann á blokkinni, ekkert yfir þessu að væla 31:30 

6:00 - Mitchell setur þrist fyrir heimamenn! Allt annað sóknartempó á mönnum hérna í öðrum hlutanum en varnarleikurinn ekki eins beittur... 27:28

6:56 - Kristján Pétur setur annan þrist! Sveinbjörn fær sína aðra villu... hefur verið að standa sig vel á Vance Hall! 24:26

7:44 - Þorsteinn Már setur þrist fyrir gestina sem Kristján Pétur svarar! Menn kannski að hitna núna fyrir utan... Emil Karel setur þrist!!! Trausti Eiríks svarar með þrist!!! 21:24

1.hluti allur! 15:18 - Jafnræði er allsráðandi hérna og baráttan mikil á báðum endum. ÍR hafa komið sterkir varnarlega inní þennan leik og mega alls ekki slaka á þar, því sóknarleikur liðsins er ekki í nægilega fínum gír. Þórsarar eiga auðveldar með að koma sér í góðar stöður í sókninni, eru bara með betur smurða sóknarvél. Sjáum hvað setur....

55sek. - Raggi Nat er með 8 fráköst og 2 stig en hefur verið klaufalegur undir körfunni og hans maður, Vilhjálmur Theodór, er kominn með 7 stig á hinum enda vallarins! 13:16

1:50 - Raggi Nat skorar og tekur nokkur fráköst í leiðinni... fær víti að auki! Emil Karel tekur sóknarfrákastið og skorar!!! Rándýrt fyrir heimamenn... 13:16 - Raggi er kominn með fleiri fráköst en allt ÍR-liðið! 

2:16 - Mitchell nær sóknarfrákasti! Fær vítaskot... Hann hefur verið duglegur á báðum endum vallarins og kominn með 8 stig. Vilhjálmur hefur skorað öll hin, eða 7 - 13:12

2:40 - Það má segja að hérna fari varnarleikurinn í fararbroddi en alveg ljóst að fín barátta í vörn í bland við slakan sóknarleik er uppskrift þessa fyrsta hluta... Leikurinn er jafn og leikmenn eru klárlega að berjast, sem veit á gott fyrir framhaldið. Hall kemur Þór yfir 11:12

4:00 - Daði Berg er kominn með tvær villur og fer af velli... 9:7

4:27 - Sveinbjörn skorar eftir að hafa gabbað Grétar bókstaflega uppúr skónum... Hraðaupphlaupin er mýmörg hjá heimamönnum... 9:5

6:00 - ÍR-ingar eru á tánum í vörninni, Sveinbjörn gætir Vance Hall og hefur látið hann hafa fyrir öllu sínu.  Varnarleikurinn inní teignum er einnig skínandi og það gengur illa fyrir gestina þegar þeir mæta þangað. 7:5 - allt enn í járnum en heimamenn líta ágætlega út...

7:19 - Vilhjálmur Theodór setur þrist og Mitchell skorar úr hraðapphlaupi... fínn varnarleikur heimamanna í byrjun, þeir virka ákveðnir á meðan Þórsarar eru meira afslappaðir... 7:3

9:20 - ÍR byrjar á frábærri vörn þar sem Þór átti innkast með 2 sekúndur eftir af klukkunni... Vance fær boltann og setur þrist!!! 0:3

Leikur hafinn! Byrjunarlið ÍR: Daði Berg Grétarsson, Sveinbjörn Claessen, Jonathan Mitchell, Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Vilhjálmur Theodór Jónsson. Byrjunarlið Þórs: Ragnar Nathanaelsson, Vance Hall, Ragnar Örn Bragason, Halldór Garðar Hermansson og Grétar Ingi Erlendsson.

19:07 - ÍR-ingar þurfa virkilega á sigri að halda hérna í kvöld ef leikmenn ætla sér í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Sigur er hinsvegar ekki alveg nauðsynlegur ennþá en það verður að vera algjört lágmark fyrir heimamenn að koma sterkir í leikinn og sýna fólki að liðið er í einhverri framför, ekki bara skotmark efstu liða. Þórsarar þurfa að sama skapi sigurinn alveg jafn mikið og eiga vissulega að sækja hann hingað í kvöld, ekki af sömu ástæðum heldur til að sýna fólki að þetta lið þeirra sé með þann stöðugleika sem hefur geislað af liðinu síðustu misseri. Það er mjög mikið í höndum ÍR hvernig þessi leikur spilast; ég á ekki von á mjög mistækum Þórsurum, heldur þvert á móti mjög traustum, og því verða heimamenn að koma með eitthvað sérstakt hérna í kvöld til þess að jafna þann áberandi getumun sem er á liðunum. Verður áhugavert að sjá hvort ÍR-ingar ná að samstilla sig fyrir þennan mikilvæga heimaleik sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert