Grimmir og hættir að tuða

Jerome Hill, leikmaður Keflavíkur og Chuck Garcia, leikmaður Grindavíkur berjast …
Jerome Hill, leikmaður Keflavíkur og Chuck Garcia, leikmaður Grindavíkur berjast um boltann í leik liðanna í kvöld. Ljósmynd / Skúli B. Sig

Keflavík tapaði óvænt fyrir Grindavík í 17. umferð Domino's deildar karla í körfuknattleik í TM höllinni í Keflavík í kvöld og á sama vann Njarðvík stórsigur á FSu steinsnar frá í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Grindvíkingar unnu sér inn afar mikilvæg stig með því að sigra topplið Keflavíkur í Keflavíkinni með 101 stigi gegn 88 stigum.  Grindvíkingar þar með komnir í úrslitakeppnissæti en Keflvíkingar hafa misst af toppsætinu til meistara KR. Grindvíkingar leiddu í hálfleik með 5 stigum eftir að Jón Axel Guðmundsson bakvörður þeirra hafði skorað flautukörfu í lok fyrri hálfleiks.

Grindvíkingar mættu grimmir til leiks og augljóst að þeir eru að gera sér fyllilega grein fyrir því í hverslags stöðu þeir eru í. Þeir þurfa virkilega á sigrum að halda ef þeir ætla ekki að vera fyrir utan úrslitakeppnina í fyrsta skipti í rúm 20 ár.  Þeir byggðu leik sinn á grimmri vörn, spiluðu fast og í sókninni keyrðu þeir grimmt á körfu Keflvíkinga og uppskáru eftir því (43 vítaskot) Það er ekki seinna en vænna hjá þeim Grindvíkingum að leikur þeirra sé að smella saman. Þeir hafa átt í basli með að koma liði sínu í samt horf með kanaveseni og slíku. 

Undirritaður tók hinsvegar vel eftir einu sem vantaði í leik Grindvíkinga sem hefur plagað þá í vetur. Þeir virtust með öllu láta tuð í dómara algerlega í friði og holningin á liðinu er allt önnur. 

Jón Axel Guðmundsson átti skínandi leik og var á tímum of stór biti fyrir þá Keflvíkinga að kyngja. Hann skoraði 35 stig í kvöld í öllum regnbogans litum og bætti í það 6 fráköstum og 6 stolnum boltum. 

Keflvíkingar voru gersamlega lánlausir með öllu þetta kvöldið. Jafnvel auðveldustu skot þeirra vildu ekki ofaní og lykil leikmenn þeirra voru fjarri sínu besta. Þegar leið á fóru leikmenn að missa hausinn og bæði „U“ villur og tæknivillur fóru á loft sem að Grindvíkingar þökkuðu fyrir.

 Margir kunna að fara að spurja sig þeirrar spurningar hvort að þessi skipti á erlendum leikmanni þeirra hafi verið tímabær, sér í lagi ef að ástæðan var slakur varnarleikur hans því Keflvíkingar hafa fengið á sig 213 stig í þeim leikjum síðan Earl Brown var rekinn.  Getur verið að Brown hafi pakkað saman í töskurnar þeim flotta liðsanda sem ríkti yfir liðinu framan af móti?  Í það minnsta þá verður ekki sakast við Jerome Hill sem tók við keflinu af Brown, hann skoraði 29 stig og tók 13 fráköst í kvöld. 

Njarðvík fór svo með öruggan sigur af hólmi gegn FSu, en lokatölur þar urðu 100:65 fyrir Njarðvík sem steig þar með eitt skref átt að heimaleikjarétti í úrslitakeppninni í vor.

Leiknum í Keflavík var lýst í beinni  textalýsingu og fylgst með gangi mála í Njarðvík.

40. Keflavík - Grindavík  88:101  leik lokið. Það fór að færast hasar í leikana þegar leið á. Magnús Þór Gunnarsson fékk "U" villu þegar hann gaf Jóhann Árna Ólafssyni olnbogaskot en hinsvegar vildi Magnús meina að Jóhann hafi verið að reyna við óskarsverðlauninn með leik sínum og ýkjum.  Guðmundur Jónsson missti svo hausinn þegar hann fékk tæknivillu á ögurstundu fyrir Keflvíkinga þegar um 4 mínútur voru eftir. Grindvíkingar þökkuðu pent fyrir sig og negldu niður vítunum.  Grindvíkingar héldu svo út með grimmd en Keflvíkingar voru heldur lánlausir þetta kvöldið.  Afar mikilvægur sigur hjá Grindvíkingum í baráttunni um úrslitakeppnissætið en Keflvíkingar eru þá endanlega búnir að missa af toppsætinu í hendur KR. 

Leik lokið í Ljónagryfjunni með 35 stiga sigri Njarðvíkur, lokatölur urðu 100:65. Jeremy Martez Atkinson var stigahæstur hjá Njarðvík með 27 stig. Christopher Woods var hins vegar atkvæðamestur fyrir gestina með 25 stig. 

30. Keflavík - Grindavík 62:73 eftir þrjá leikhluta. Sterkur varnarleikur gestana úr Grindavík gera það að verkum að þeir gulklæddur hafa komið sér í ansi myndarlegt forskot fyrir loka tíu mínútur leiksins. Mestur var munurinn komin í 15 stig en Keflvíkingar náðu að laga stöðuna örlítið rétt fyrir lok leikhlutans. Mikið munar um hjá Keflavík að Reggie Durpee hefur ekki náð sér á strik í sóknarleik sínum og svo hitt að Keflvíkingar duttu á tíma í sömu vörn og þeir sýndu gegn Snæfell hér fyrir nokkrum dögum síðan.  Grindvíkingar eru í dauðafæri að næla sér í afar mikilvægan sigur hér í Keflavíkinni en það eru samt sem áður 10 mínútur eftir og Keflvíkingar eru þekktir fyrir allt annað en að láta vaða yfir sig á sínu eigin parketi. 

Njarðvík - FSu 77:51. Njarðvík með 26 stiga forskot eftir þriðja leiklhuta. Jeremy Martez Atkinson hefur tekið við sér í stigaskorun fyrir Njarðvík og er stigahæstur með 21 stig. Christopher Woods dregur hins vegar vagninn sóknarlega fyrir gestina með 21 stig sömuleiðis. 

20. Keflavík - Grindavík 41:46 í hálfleik. Það virðist vera orðið reglulegt hér í Keflavík að fá flautukörfu. Í lok fjórðungsins var það Jón Axel Guðmundsson sem skellti í eina slíka, þristur spjaldið ofaní og Grindvíkingar leiða.  Grindavík skoraði 9:0 á loka kafla leiksins og hafa komið sér í stærsta forskot sem þeir hafa séð þetta kvöldið. Keflvíkingar höfðu þar áður verið að koma sér fyrir í bílstjórasæti leiksins og stjórnuðu hraðanum líkt og þeir vilja hafa þetta.  Jerome Hill leiðir heimamenn með 16 stig en hjá Grindavík er það fyrr nefndur Jón Axel með 15 stig. 

Njarðvík - FSu 49:30 í hálfleik. Adam Eiður Ásgeirsson hefur komið með sterka innkomu af varamannabekk Njarðvíkur og er kominn með 11 stig og Hlynur Hreinsson er kominn upp að hlið Christopher Woods á listanum yfir stigahæstu leikmenn FSu.

10. Keflavík - Grindavík 23:21 eftir fyrsta fjórðung. Hér er skemmtilegur leikur í aðsigi og tilþrif strax farin að láta sjá sig.  Jafnræði hefur verið með liðunum og í raun hvorgt í bílstjórasætinu eða gert sig líklegt til að taka af skarið.  Bæði lið hafa verið að leita á erlenda leikmenn sína sem hafa verið að skila fínu hlutverki. Þá átti Jerome Hill tilþrif kvöldsins hingað til þegar hann keyrði inn að körfu Keflvíkinga í "traffík" og tróð með tilþrifum.  Kappinnn heldur áfram að heilla, hann er komin með 12 stig og 5 fráköst eftir 10 mínútna leik. Ekki laust við að Skagfirðinga sakni hans. 

Njarðvík - FSu 30:15 eftir fyrsta fjórðung. Heimamenn byrja betur Ljónagryfjunni. Haukur Helgi Pálsson er stigahæstur hjá heimamönnum með 12 stig, en Christopher Woods er atkvæðamestur í liði gestanna með átta stig.

1. Leikir kvöldsins á Suðurnesjunum eru hafnir. 

0. Keflavík getur komist upp að hlið á toppi deildarinnar með sigri gegn Grindavík í kvöld. Grindavík er hins vegar í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni en liðið er með jafn mörg stig og Snæfell í áttunda til níunda sæti deildarinnar eins og sakir standa. 

0. Njarðvík er í fimmta sæti deildarinnar með 18 stig og er í baráttu um að tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni á meðan FSu er í harðri fallbaráttu, en liðið er með sex stig í 11. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá ÍR sem situr í öruggu sæti eins og staðan er núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert